Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:31:57 (552)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson ):
    Virðulegi forseti. Það eru ásakanir að segja um málflutning þingmanna að hann sé furðulegur í ljósi þeirra raka sem ég flutti í málinu. Ég vil taka það fram að það er ekki ofmælt af hálfu okkar flutningsmanna fyrirspurnarinnar að vera undrandi á svarinu. Hér er um að ræða stærsta mál sem lagt hefur verið fyrir þjóðþing íslenska lýðveldisins. Og það er upplýst að fagráðherra sveitarstjórnarmála hefur ekki látið fara fram neina úttekt á áhrifum samningsins á sveitarfélögin sem undir ráðherrann heyra. En það er borið í bætifláka með því að segja að hagsmunasamtökin muni skoða þetta sjálf. Hæstv. sveitarstjórnamálaráðherra hafði ekkert til málanna að leggja í 1. umr. um Evrópska efnahagssvæðið. Ekkert. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Og það kom ekkert fram í ræðu ráðuneytisstjórans frá því í nóvember 1991 um kostnaðaráhrif samningsins á sveitarfélögin sem ég var hér að drepa á varðandi umhverfismál. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég læt ekki bjóða mér það að það sé kallaður furðulegur málflutningur þegar maður vekur athygli á þessu og fær sem svör ekkert annað en heimastíla sem eru að verða ársgamlir.