Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:33:57 (553)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo með lagasetningu að sumt vekur strax mikla athygli og er þjóðinni kunnugt. Annað er ekki þess eðlis að það dragi athygli þjóðarinnar að efni laganna sem sett hafa verið. En engu að síður geta þau lög verið býsna gagnmerk og landinu og íbúum þess til ýmissa bóta. Í þeim hópi tel ég vera lögin um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem sett voru á sínum tíma, árið 1985, og ég tel hafa verið mikið framfaraspor.
    Það er eðlilegt að menn hugi að þessum málum því að víða háttar svo til um landið að byggð er þannig fyrir komið að hætta er veruleg á snjóflóðum eða ofanföllum, flóðum af öðru tagi. Það má nefna dæmi úr nálægri fortíð sem sýnir okkur svo ekki verður um villst að veruleikinn og hættan er skammt undan í þeim efnum. Mér eru í huga t.d. tveir kaupstaðir hér á landinu, annar á Vestfjörðum og hinn á Austfjörðum, þar sem snjóflóð hafa valdið verulegum skakkaföllum.
    Ég vil bæði vekja athygli á þessum lögum og eins vil ég leita eftir upplýsingum um þau verkefni sem fyrirhugað er að ráðast í með tilstyrk þess sjóðs sem settur var á laggirnar með lögunum. Ég hef því leyft mér, virðulegi forseti, að bera fram á þskj. 51 eftirfarandi fjórar fyrirspurnir til hæstv. félmrh.:
  ,,1. Frá hvaða sveitarfélögum hafa borist tillögur til ofanflóðanefndar, sbr. lög nr. 28/1985, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, og hver er áætlaður kostnaður í hverju tilviki?
    2. Hverjar þessara tillagna hafa hlotið samþykki Almannavarna ríkisins og staðfestingu ráðherra?
    3. Hve mikið fé er í Ofanflóðasjóði og telur ráðherra þörf á auknu framlagi á fjárlögum í sjóðinn næstu ár til þess að standa undir fyrirsjáanlegum verkefnum?
    4. Telur ráðherra að sveitarfélag geti í öllum tilvikum staðið undir sínum hluta af

kostnaði við ofanflóðavarnir?``
    Til skýringar vil ég geta þess, virðulegi forseti, að hlutur sveitarfélaga í kostnaði er 20% en sjóðurinn fjármagnar 80%.