Lánafyrirgreiðsla við húseigendur

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:51:09 (558)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu fyrirspurnina var mér ekki alveg ljóst hvað vakti fyrir hv. fyrirspyrjanda en hv. fyrirspyrjandi hefur nú skýrt það. Ég get ómögulega séð að bankar ættu að gera einhvern greinarmun á skuldum vegna húsbréfa eða öðrum skuldum

og veit reyndar ekki til þess að það sé gert. Ég spurði sérstaklega fyrir um það í Húsnæðisstofnun hvort þeir hefðu orðið varir við slíkt í ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar og svar þeirra var að þeir hefðu ekki orðið varir við slíkt. Ef einhver brögð eru að slíku sem hv. fyrirspyrjandi nefnir þá þarf auðvitað að skoða það sérstaklega og fá fram skýringu á því.
    Spurt er um aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika. Aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika hafa verið í húsnæðiskerfinu frá árinu 1985 og nú síðast með tímabundnum heimildum í húsbréfakerfinu á árinu 1991, en á því ári voru gefin út húsbréf fyrir um 2,4 milljarða vegna greiðsluerfiðleika. Á tímabilinu 1985--1990 voru veitt lán úr Byggingarsjóði ríkisins vegna greiðsluerfiðleika samtals að fjárhæð 3 milljarðar 188 millj. miðað við verðlag ársins 1991 og heildarfjárhæð lánveitinga á vegum Húsnæðisstofnunar vegna greiðsluerfiðleika á tímabilinu 1985--1991 er því um 5,6 milljarðar króna.
    Viðvarandi greiðsluerfiðleikar fólks í húsnæðiskerfinu voru m.a. ástæða þess að tekið var upp virkt greiðslumat með tilkomu húsbréfakerfisins. Forsendur fyrir því að húsbréfadeild samþykkir skipti á fasteignaveðbréfum og húsbréfum er að fyrir liggi mat á greiðslugetu umsækjanda. Þetta virka greiðslumat dregur úr líkum á því að fólk reisi sér hurðarás um öxl. Hins vegar, ef aðstæður breytast verulega frá því sem var þegar greiðslugeta var metin, eru möguleikar til aðgerða betri nú með tilkomu húsbréfanna en voru í tíð lánakerfisins frá 1986 þegar löng bið var eftir lánum. Þannig er auðveldara en áður að bregðast við greiðsluerfiðleikum með því að minnka við sig húsnæði ef þörf krefur og skipta yfir í íbúð á viðráðanlegu verði. Lykilatriðið í þessu sambandi er að íbúðaskipti eru mun auðveldari í húsbréfakerfinu en í kerfinu frá 1986.
    Ráðgjafar Húsnæðisstofnunar aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum við að fá skuldbreytingu í bankakerfinu eða ráðleggja leiðir til þess að létta greiðslubyrði. Aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika í húsnæðiskerfinu eru ekki fyrirhugaðar og ekki er komin fram ósk um það frá Húsnæðisstofnun um að slíkt sé nauðsynlegt.
    Vegna þriðju spurningarinnar vil ég svara því að þegar félagslega húsnæðiskerfið var endurskoðað árið 1990 var sú stefna mörkuð að opinberar aðgerðir til jöfnunar á húsnæðiskostnaði miðuðust við aðstæður fólks á hverjum tíma, en séu ekki bundnar við eina tímasetningu. Með þessu er leitast við að tryggja að félagslegar íbúðir þjóni markmiðum sínum og sú aðstoð sem veitt er með niðurgreiddum vöxtum sé háð tekjum. Í þessu skyni eru í lögunum ákvæði þess efnis að tekjur íbúðakaupenda í félagslega kerfinu skuli endurskoðaðar að sex árum liðnum frá kaupum á íbúð og á þriggja ára fresti frá því. Reynist tekjur hafa hækkað og einnig aukist umfram þau mörk sem gilda hverju sinni eru vextir hækkaðir til samræmis við vexti á lánum Byggingarsjóðs ríkisins úr 1% í 4,9%. Þar sem vextir af lánum úr Byggingarsjóði verkamanna voru fastbundnir með lögum frá 1984 nær ákvæðið um endurskoðun vaxta til íbúða sem eru byggðar eða keyptar eftir 1984.
    Ég vil minna á í þessu sambandi að nokkuð víðtæk samstaða var um að setja slíkt endurskoðunarákvæði inn í lög og átti t.d. fulltrúi Alþb. sæti í nefnd sem lagði til tillögu um að slíkt ákvæði yrði sett í lög. Endurskoðun vaxta hefur farið fram í fyrsta sinn og nær til fólks sem eignaðist félagslegar íbúðir á árunum 1985--1986. Alls komu 513 kaupendur til skoðunar en 166 aðilar, eða tæpur þriðjungur, reyndist vera yfir viðmiðunarmörkum. Rétt er að hafa í huga að vaxtahækkunin kemur ekki með fullum þunga á láglaunafólk þar sem vaxtabætur til þessa fólks aukast að sama skapi og jafna húsnæðiskostnaðinn. Greiðslubyrðin hækkar undantekningarlaust fyrsta árið eftir vaxtahækkun en á öðru ári þegar vaxtabætur koma til skjalanna er breytingin óveruleg hjá þeim sem eru með miðlungstekjur eða lægri. Hins vegar er augljóst vandamál í þessu sambandi að tekjur hafa lækkað aftur niður fyrir viðmiðunarmörkin.
    Ég hef skipað starfshóp með fulltrúum úr ráðuneytinu og Húsnæðisstofnun til að meta reynsluna af framkvæmd laga um félagslegar íbúðir frá 1990. Ég hef falið starfshópnum að skoða sérstaklega framkvæmd á endurskoðun vaxta í félagslega kerfinu og eru niðurstöður væntanlegar í október nk.