Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:20:47 (568)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég á sæti í iðnn. þingsins og mun væntanlega fjalla um þetta mál þar en það eru nokkur atriði sem ég hefði samt viljað fá nánari skýringar á.
    Í fyrsta lagi vil ég spyrja hvers vegna 11. gr. er orðuð eins og gert er í frv., þ.e. að ,,Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi að því er Ísland varðar.`` Ég hefði í fljótu bragði talið, og kannski ekki síst eftir ræðu hæstv. iðnrh., að það væri eðlilegt að slík lög yrðu sett á Íslandi. Þó að ekki séu framleiddar þessar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum hér á landi nú verður kannski eðlilegt að hafa slík lög í gildi hér á landi og hefði mér þess vegna þótt eðlilegt að það stæði bara: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar eða nú þegar eftir því sem við á. Mér finnst óþarfi að vera alltaf að taka það fram þó að það sé af því tilefni að nú hefur verið undirritaður samningur um Evrópskt efnahagssvæði. Mér þykir þetta galli á fleiri frumvörpum. Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að það gildir ekki bara um þetta frv. og þess vegna vil ég spyrja sérstaklega hvort ekki sé eðlilegt að þessu sé breytt. Auðvitað fjallar nefndin um þetta og tekur afstöðu til þess hvort hún telur þetta eðlilegt eða ekki.
    Í 9. gr. er talað um að brot gegn lögum þessum varði sektum, þ.e. ef þessi einkaréttur er ekki virtur, og þá kannski vandast nú málið. Það fór þannig fyrir mér þegar ég var að lesa greinargerðina með frv. eða athugasemdir við frv. að þá var mér alls ekki ljóst um hvað þetta væri. Ég veit hvað smárar eru, díóður, viðnám og þéttar. Það vill þannig til að ég veit eitthvað um það og ég þóttist skilja svona flest orðin en ég var samt engu nær. Ég hefði því gjarnan viljað spyrja nákvæmar um í hvað þetta væri notað. Það stendur að vísu að það sé notað í rökrásir --- ég skildi að vísu ekki hvað það var --- og minni í tölvum, vasareiknum og örgjöfum. Þetta vafðist svolítið fyrir mér. Síðan er orð hér sem ég skildi ekki og það er íhlutur. Ég var að velta fyrir mér hvort það væri hlutur eða hvað það væri. Þetta er nú kannski atriði sem hægt er að kanna nánar í nefnd en ég vil benda á að það er mjög mikilvægt að það sé ljóst þeim sem eru að fara eftir löggjöfinni hvað um er að ræða.     Annað ætlaði ég ekki að segja að svo komnu máli. Ég held að það sé ekkert að því að lögfesta einkarétt manna um þetta efni og tel það raunar mjög eðlilegt þó svo að enn sé ekki framleitt neitt slíkt hér á landi eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég verð að segja eins og er að það mundi vefjast fyrir mér hvenær ég væri að brjóta lög um einkarétt ef ég læsi bara þetta og það væri orðið að lögum.