Einkaleyfi og vörumerki

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:36:21 (573)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins lítil spurning líka: Mig langaði til að vita í tilefni af orðum hæstv. ráðherra þegar hann segir að verið sé að gera smávægilegar aðrar breytingar hvort þær séu sérstaklega vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði eða hvort jafnframt sé inni í frv. ákvæði sem væri eðlilegt að gera algerlega óháð því hvort breytingarnar, t.d. þessi síðasta sem var gerð að umtalsefni --- hvort þetta er ekki það sama sem gildir hér. Nú er ég ekki þar með að segja að þetta séu ekki allt eðlilegar og réttar breytingar. Auðvitað geri ég athugasemd aftur við þetta síðasta, að það þurfi alltaf að miðast við hið Evrópska efnhagssvæði ef um er að ræða eðlilegar breytingar á íslenskri löggjöf sem gera hana nútímalegri og eðlilegri vegna samskipta okkar við aðrar þjóðir og sérstaklega Evrópuþjóðirnar burt séð frá því hvort við gerumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki. Þess vegna ætlaði ég að spyrja hvort um þetta atriði, sem hann nefnir þarna og mér finnst út af fyrir sig eðlilegt að hafa inni í löggjöfinni, að menn geti ekki hindrað aðra í að koma vöru á markað eða skráð vörumerki bara til að hindra aðra, gildi ekki það sama og um frv. sem við töluðum um áðan, að það væri eðlilegt að þetta stæði allt inni í íslenskri löggjöf og sama ákvæðið væri í lokin.