Einkaleyfi og vörumerki

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:10:35 (578)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða annað málið sem er á dagskrá í dag í tengslum við frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði. Ég hef eina athugasemd við það sérstaklega sem ég vildi koma að við 1. umr. Í 9. gr. er kveðið á um að við lögin bætist ný grein, 25. gr. a, um vörumerki, þ.e. að hafi eigandi að skráðu vörumerki ekki notað það í fimm ár frá skráningardegi skuli það ógilt en í síðustu málsgrein segir, með leyfi forseta: ,,Nú er krafa um ógildingu eigi lögð fram fyrr en þrír mánuðir hið skemmsta eru liðnir frá lokum fimm ára tímabilsins en eigandi merkis hefur hafið eða tekið aftur upp notkun þess á síðustu þremur mánuðum áður en krafa um ógildingu kom fram. Skal þá slík notkun ekki hafa áhrif á kröfu um ógildingu . . .  `` Mér finnst vera mótsögn í frv. Ef ekki verður tekin upp notkun merkis eftir rúm fimm ár og ógildingar hefur verið krafist skal ógildingin fara fram jafnvel þó að á fyrstu þremur mánuðunum hafi eigandi byrjað að nota vörumerkið. Því virðist það svo að jafnvel þótt eigandinn hafi farið að nota vörumerkið innan þessara fimm ára og þriggja mánaða geti ógilding samt sem áður farið fram. Þetta er athugasemd inn í þá umræðu sem trúlega fer fram um málið í nefnd. Ég hef ekki kynnt mér þetta sérstaklega enda er verið að byrja að ræða þetta núna. En við yfirlestur á frv. fannst mér þarna vera mótsögn.