Einkaleyfi og vörumerki

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:13:28 (579)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég þakka þeim þremur þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir ábendingar þeirra og athugasemdir.
    Hv. 11. þm. Reykv. spurði hvort það væri algengt að menn skráðu vörumerki, eingöngu til þess að koma í veg fyrir notkun annarra á þeim og hvort upplýsingar væru til um það hversu algengt þetta væri.
    Því er til að svara að það liggur eiginlega í hlutarins eðli að ekki er auðvelt að afla upplýsinga um þetta, en þeir sem fara með þessi mál telja að einhver brögð séu að því. Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði er í 9. gr. frv. er að ákvæði af þessu tagi eru algeng í lögum nær allra aðildarlanda Evrópska efnahagssvæðisins um þetta mál og þótti þess vegna ástæða til að samræma okkar löggjöf að þessu leyti. Reyndar er það rétt sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. að þetta er ákvæði sem að ýmsu leyti er eðlilegt að hafa í lögum hvort sem er.
    Hv. 15. þm. Reykv. spurði hvers vegna þetta væri tengt aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að að hennar áliti væru ýmis ákvæði í frv. sem hvort eð er væri æskilegt að væru í íslenskum lögum. Ég get tekið undir með þingmanninum að það er rétt að í frv. eru eingöngu ákvæði sem eðlilegt er að hafa í íslenskum lögum. En það er sérstök ástæða til þess að tengja það aðildina að hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að með frv. og það er kjarni þess, er verið að ákveða að íslenskur einkaleyfishafi eða aðili með hans samþykki setji á markað einkaleyfisverndaða afurð í einu aðildarríki EES-samningsins og þá geti hann ekki á grundvelli einkaleyfisins hindrað að sú afurð verði markaðssett í öðru aðildarríki EES-samningsins. Með þessu erum við að gefa samaðilum okkar að þessu svæði rétt. Við fáum gagnkvæman rétt á móti og hann er tengdur samningnum. Þess vegna er þessi tenging á gildistökuákvæðunum.
    Ég vildi svo loks víka að því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Vestf. þar sem hún vakti máls á því hvort mótsögn kynni að felast í lokamálsgrein 9. gr. frv. miðað við tilgang þeirrar greinar. Ég tel rétt að

sú nefnd sem um málið fjallar, gefi þessu sérstakan gaum, en að mínu áliti er þarna ekki um neina mótsögn að ræða heldur er þetta ákvæði til þess að verjast sýndargerningum ef einhver aðili, sem skráð hefur vörumerki eingöngu til þess að koma í veg fyrir að annar geti notað það, kemst á snoðir um að til standi að krefjast þess að það verði afmáð, grípi þá til þess að sýnast, að hefja notkun á því. Flóknara er málið ekki, en ég þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á því að hugsanlega kunni þarna að vera nauðsynlegt að kveða skýrar að orði. Ég veit að hv. iðnn., undir öruggri forustu 17. þm. Reykv., mun gefa þessu máli alveg sérstakan gaum.