Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:25:08 (581)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um gjaldeyrismál, en þetta frv. er á þskj. 5. Frv. er nánast samhljóða frv. um sama efni sem lagt var fram og rætt en ekki afgreitt á 115. löggjafarþingi um sama efni.
    Þetta frv. er flutt samhliða frv. til laga um innflutning en það frv. er á þskj. 6.
    Tillagan er sú að þessi tvö lagafrv. komi í stað laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, með síðari breytingum. Þar með yrði skilið á milli gjaldeyrisviðskipta annars vegar og innflutningsviðskipta hins vegar.
    Ekki er mikil ástæða til þess að fara mörgum orðum í þetta sinn um þróun gjaldeyrismála á undanförnum árum, enda hafa þau oft komið til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég leyfi mér að benda á að á árinu 1990 voru gerðar róttækustu breytingar á gjaldeyrisreglum frá því á árunum í kringum 1960 og fjölmargar hömlur voru felldar brott eða veruleg rýmkun ákveðin.
    Ég leyfi mér að benda á að þessum breytingum á gjaldeyrisreglunum hafi almennt verið vel tekið og að reynslan af þeim hafi verið góð.
    Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans hefur aukið frelsi í gjaldeyrismálum ekki enn haft nein umtalsverð áhrif á fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Ef við lítum á fjárfestingar í atvinnurekstri, fasteignakaupum og verðbréfaviðskiptum þá hefur reyndar verið um innstreymi fjármagns að ræða til Íslands,

ekki útstreymi, eins og úrtölumenn á sviði gjaldeyrismála hafa jafnan óttast þegar gjaldeyrisreglum hefur verið breytt í átt til aukins frjálsræðis. Þetta er einkar athyglisverð niðurstaða sem ég leyfi mér að vekja athygli þingmanna á.
    Með frv. er lagt til að fjölmargar breytingar verði gerðar á skipan gjaldeyrismála á Íslandi. Breytingarnar þjóna þreföldum tilgangi. Í fyrsta lagi að færa reglur á þessu sviði til samræmis við það sem gerist og gengur í helstu samkeppnislöndum okkar þannig að gjaldeyrisreglur skerði ekki samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs.
    Í öðru lagi að rýmka gjaldeyrisreglurnar svo að hér á landi geti þrifist og þróast gjaldeyrismarkaður með eðlilegum hætti þar sem framboð og eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri hafi áhrif á gengi krónunnar. Breytingar í þessa átt eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í gengismálum sem kynnt var haustið 1991 og rædd var ítarlega á Alþingi á sínum tíma.
    Í þriðja lagi er það tilgangur frv. að hafa hliðsjón af skuldbindingum okkar á þessu sviði samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og frv. því tengt aðildarsamningi Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Helstu breytingarnar frá gildandi lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála sem frv. felur í sér eru þessar:
    1. Lagt er til að skilið verði á milli gjaldeyrismála annars vegar og innflutningsmála hins vegar eins og ég hef þegar nefnt.
    2. Lagt er til að sú meginregla skuli gilda að gjaldeyrisviðskipti skuli vera óheft nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum.
    Í þessu felst grundvallarbreyting, sú breyting að í stað núgildandi meginreglu laganna um gjaldeyrisviðskipti sem er sú að gjaldeyrisviðskiptin séu háð leyfum nema annað sé sérstaklega tekið fram, mun í framtíðinni gilda sú meginregla að gjaldeyrisviðskipti skuli ekki vera háð leyfum, skuli vera óheft nema þau séu sérstaklega takmörkuð í lögum.
    3. Í frv. er kveðið á um að viðskrh. geti enn um sinn ákveðið með reglugerð takmarkanir á tilgreindum flokkum fjármagnshreyfinga. Þessi ákvæði eru í samræmi við aðlögunarfresti sem Íslandi er heimilaður á þessum sviðum í EES-samningunum.
    4. Í frv. er svonefnt öryggisákvæði sem heimilar Seðlabankanum, að höfðu samráði við viðskrn., að ákveða tímabundna stöðvun tiltekinna flokka fjármagnshreyfinga ef fjármagnshreyfingar til og frá landinu valda óstöðugleika í gengis- og peningamálum.
    5. Í núgildandi lögum er viðskrn. falið forræði á sumum sviðum gjaldeyrismála og Seðlabankanum á öðrum. Þetta er ekki í alla staði heppilegt fyrirkomulag. Því er lagt til að verkaskipting milli ráðuneytis og Seðlabanka verði gerð alveg skýr með þeim hætti að ráðuneytið setji allar meginreglur á sviði gjaldeyrismála en Seðlabankinn setji svo nánari reglur um framkvæmd gjaldeyrisviðskiptanna og annist daglega framkvæmd á þessu sviði.
    6. Lagt er til að áfram gildi upplýsingaskylda vegna gjaldeyrisviðskipta þótt gjaldeyrishöftin hverfi. Þetta er í samræmi við stefnu annarra ríkja sem starfa munu á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa verið stigin stór skref í átt til aukins frjálsræðis í gjaldeyrismálum. Reynslan af þessum breytingum hefur verið góð. Flestar þjóðir Vestur-Evrópu búa nú þegar við meira frelsi í gjaldeyrisviðskiptum en Íslendingar og það gildir ótvírætt um gjaldeyrisverslun eins og aðra verslun að því frjálsari sem hún er því hagsælli verður hún landinu. Verði frv. að lögum þá lögum við löggjöf okkar á sviði gjaldeyrismála að því sem gerist og gengur í nágrannaríkjum og vörðum leið til afnáms síðustu gjaldeyrishafta.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.