Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:56:25 (588)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðn.- og viðskrh. er bjartsýnasti maður sem ég hef kynnst. Það verður að segjast eins og er. Ekki einn einasti ráðherra í Evrópu, sem ég hef heyrt tala um þessi mál, gengur að því gruflandi að verði Maastricht-sáttmálinn brotinn niður og Frakkar t.d. felli hans eins og Danir gerðu, þá sé Efnahagsbandalagið orðið allt annar viðsemjandi en farið var af stað með. Ég held að enginn vilji sætta sig við að haldið verði áfram að óbreyttu eftir það. Það kemur mér satt að segja á óvart hversu ósammála hæstv. iðn.- og viðskrh. er öllum kollegum sínum sem ég hef heyrt og lesið um og ég hef heyrt úttala sig um málið og lesið eftir svör við þessari spurningu.
    Hins vegar svaraði hæstv. ráðherra ekki því sem ég spurði líka um, þ.e. hvort hann væri ekki sammála mér um að það væri ósæmilegt með öllu að ganga frá nokkurri löggjöf sem væri tilkomin vegna samningsins fyrr en samningurinn lægi fyrir.