Vog, mál og faggilding

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:28:35 (592)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vog, mál og faggildingu. Þetta frv. var lagt fram á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það hefur nú verið endurskoðað í ljósi umsagna sem

um það bárust og viðræðna um efni þess við ýmsa sem málið varðar.
    Frv. miðar m.a. að því að unnt sé að fullnægja hér á landi ákvæðum svokallaðs Tampere-samkomulags EFTA-ríkjanna um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og jafnframt gera mögulegt að koma á því samræmismati byggt á stöðlum, prófunum og vottunum sem EES-samkomulagið gerir ráð fyrir að sé fyrir hendi í öllum ríkjum hins sameiginlega markaðssvæðis.
    Í frv. er annars vegar lagt til að sett verði ný ákvæði um vog, mál og löggildingu mælitækja sem leysi af hólmi ýmis gömul lagaákvæði og hins vegar er í því að finna ákvæði um svokallaða faggildingu en það heiti er notað um það sem nefnist ,,akkreditering`` eða ,,accreditation`` á tungum nágrannaþjóða okkar.
    Þá er í frv. ákvæði um Löggildingarstofuna sem m.a. gera ráð fyrir að hún sé sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðuneytis og er í greinargerð bent á að rök kunni að mæla með því að hún verði í framtíðinni rekin sem sjálfstæð B-hluta stofnun.
    Ég mun nú víkja nokkuð að einstökum atriðum frv. og bendi á að í II. kafla þess er að finna ákvæði um mælieiningar og landsmæligrunna en þar er um að ræða tengingu okkar við hið alþjóðlega einingakerfi sem alþjóðastofnunin fyrir vog og mál í París sér um. Þá er í kaflanum kveðið á um notkun hins alþjóðlega einingakerfis en ráðherra getur þó heimilað með reglugerð að notaðar séu einingar utan þessa kerfis. Er þá gert ráð fyrir að hægt sé að koma til móts við sérþarfir einstakra atvinnugreina en slíkar einingar skulu þó ávallt hafa viðmiðun í hinu alþjóðlega einingakerfi með þeim fyrirvörum sem kveðið er á um í alþjóðlegum stöðlum og reglum sem settar hafa verið um hið alþjóðlega einingakerfi og vísa skal til í reglugerðinni.
    Þá er í þessum kafla kveðið á um að í landinu skuli vera til nauðsynlegir landsmæligrunnar til notkunar við stillingu mælitækja og er þar fyrst og fremst um að ræða mæligrunna fyrir metra og kílógramm. Talsverður kostnaður er því samfara að koma upp og varðveita landsmæligrunna og verður það að fara eftir þörfum atvinnulífsins hvort aðrir landsmæligrunnar verða haldnir hér á landi. Hægt verður t.d. að fá aðstoð erlendra systurstofnana til þess að fínstilla mælitæki, svo að ég nefni dæmi, á sviði geislamælinga meðan ekki þykir svara kostnaði að koma upp landsmæligrunni á því sviði hér á landi.
    Í III. kafla frv. er fjallað um löggildingu mælitækja og löggildingarskyldu og er í 5. gr. sett sú almenna regla að skylt sé að löggilda öll mælitæki sem notuð eru á Íslandi til þess að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð eða afgjald í hvers konar viðskiptum með vöru, þjónustu og skatt- og gjaldstofna. Nánari reglur um þetta skal setja í reglugerð.
    Það hafa lengi verið í löggjöf ákvæði um löggildingu venjulegra mælitækja sem mæla rúmmál og þyngd í viðskiptum en eðlilegt þykir nú að taka af öll tvímæli um að löggildingarskyldan geti náð til hvers konar gjaldmæla sem ekki hafa verið háðir eftirliti og að unnt sé að banna notkun ólöggiltra eða eftirlitsskyldra mælitækja sem ekki uppfylla þessar settu kröfur. Í framkvæmd verður þessu í mörgum tilvikum hagað þannig að gerðar verða kröfur til faggildingar skv. IV. kafla þessa frv. á þeim prófunarstofum sem annast eftirlitsprófanir á ýmiss konar gjaldmælum. Ég nefni sem dæmi mæla orkuveitna. Settar verða skýrari reglur um eftirlit með og endurlöggildingu á hvers konar mælitækjum sem notuð eru í viðskiptum.
    Ákvæðin í IV. kafla frv. eru nýmæli hér á landi og byggja á þeirri tilhögun sem tekin verður upp á Evrópska efnahagssvæðinu að fyrirtæki og stofnanir, sem framkvæma lögbundnar prófarnir eða vottanir að vara, ferli eða þjónusta, svo og hæfni og þekking starfsmanna, uppfylli lögbundnar kröfur, skuli hafa það sem hér eru nefnd faggilding. Þetta nær einnig til prófana og vottunar sem skylt er að framkvæma samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Í þessu felst að gerðar skuli ríkar kröfur um verklagsreglur og traust þeirra aðila sem annast lögbundna starfsemi af þessu tagi, hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila sem taka að sér lögbundin verkefni. Í þessu felst viss trygging stjórnvalda, atvinnulífs og alls almennings um það að þessir aðilar uppfylli tilteknar kröfur.
    Dæmi um opinberar stofnanir sem falla undir þetta ákvæði eru Vinnueftirlit ríkisins, Rafmagnseftirlit ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Bifreiðaskoðun Íslands hf. og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Með því að lögfesta kröfur af þessu tagi skapast forsendur fyrir því að fela einkaaðilum fleiri verkefni sem opinberar eftirlits- og prófunarstofur hafa til þessa sinnt.
    Það er frá því að skýra að í öllum aðildarríkjum Evrópubandalagsins og EFTA eru starfandi faggildingaraðilar. Tilgangurinn með starfsemi þeirra hefur fyrst og fremst verið sá að skapa nauðsynlegt traust milli stjórnvalda þannig að unnt sé að taka skyldubundna prófun í einu ríki gilda í öðru svo framarlega sem hún er framkvæmd af faggiltri prófunarstofu. Tilgangurinn með þessu er að draga úr tæknilegum viðskiptahindrunum sem m.a. felast í endurteknum prófunum á vöru þegar hún er flutt milli landa.
    Til að tryggja eðlilega samkeppni er lagt til í 2. mgr. 11. gr. að faggilding frá faggildingarstofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli einnig gilda hér á landi og að ráðherra geti veitt stofnunum utan svæðisins sams konar heimild. Þetta merkir að aðilar á Íslandi geta leitað faggildingar erlendis og þar með verður Löggildingarstofunni veitt aðhald með samkeppni.
    Þótt Löggildingarstofunni sé ætlað að sinna faggildingu á Íslandi er ekki gert ráð fyrir að sú starfsemi kalli á verulega fjölgun starfsmanna. Starfsemin er þess eðlis að við faggildingu á einstökum stofnunum eða starfsemi þeirra verður leitað til sérfróðra aðila á því sviði sem um er að ræða hverju sinni. Þá hefur viðskrn. fyrir hönd Löggildingarstofunnar gert samstarfssamning við sænsku faggildingarstofnunina,

SWEDAC, um aðgang Löggildingarstofunnar að sérfræðingum og þekkingu þeirrar stofnunar.
    Ég vil næst víkja nokkuð að V. kafla sem fjallar um starfsemi Löggildingarstofunnar en eins og fram kom í greinargerðinni tók þessi stofnun til starfa árið 1919. Í 14. gr. er ákvæði um að Löggildingarstofan sé sjálfstæð yfirstofnun sem lúti yfirstjórn viðskrn. Hún skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun ráðherra og er að svo stöddu haft í huga að við stofnunina sé starfandi annars vegar mælifræðideild og hins vegar faggildingardeild. Lagt er til að heimilt sé að setja á fót sérstakar ráðgjafarnefndir um starfsemi einstakra deilda og virðist vera þörf á því við þær breytingar á starfi stofnunarinnar sem fyrirsjáanlegar eru á næstu missirum.
    Í 15. gr. er fjallað um hlutverk Löggildingarstofunnar og svo í þeirri 18. eru ákvæði um gjaldskrá hennar. Í umsögnum um frv. eins og það var lagt fram á 115. þingi kom fram sá ótti hagsmunaaðila að tekjur af starfi stofnunarinnar á sviði löggildingarmælitækja yrðu notaðar til þess að byggja upp bákn sem gæti útilokað starfsemi annarra aðila á þessu sviði hér á landi. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta er nú lagt til í 2. mgr. 18. gr. að þar komi ákvæði þess efnis að þess verði ávallt gætt að tekjum Löggildingarstofunnar af löggildingu mælitækja og annarri lögbundinni starfsemi sé ekki varið til þess að standa straum af kostnaði við þjónustu sem öðrum aðilum er einnig heimilt að veita.
    Í VI. kafla frv. er fjallað um löggilta vigtarmenn og kemur þessi kafli í stað laga frá árinu 1915. Lagt er til að almennar kröfur séu gerðar til löggildingar vigtarmanna og almenna reglan sé að löggildingin gildi fimm ár í senn. Gerð er krafa til þess að vigtarmenn hafi sótt námskeið í störfum vigtarmanna og standist prófkröfur í námskeiðslok.
    Þá vil ég benda á að í ákvæði til bráðabirgða I er gert ráð fyrir að eldri löggildingar vigtarmanna haldi gildi með vissum skilyrðum en þó ekki lengur en til 1. jan. 1998.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frv. feli í sér ýmsar mikilvægar og nauðsynlegar breytingar og legg áherslu á að það verði samþykkt í þessari fyrstu lotu þinghaldsins þannig að það geti tekið gildi um næstu áramót. Sú tillaga er hér flutt í ljósi þess að þótt frv. sé flutt í tengslum við frv. um fullgildingu samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, þá hefur þetta frv. sjálfstætt gildi og ákvæði þess eru nauðsynleg fyrir viðskipti okkar við ríki EFTA og Evrópubandalagsins hvort sem samningurinn um EES tekur gildi fyrr eða síðar. Ég geri það því að tillögu minni að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.