Öryggi framleiðsluvöru

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:46:18 (597)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja það að mér finnst hæstv. viðskrh. vera kjarkmaður að mæla fyrir þessu frv. í því formi sem það er hér. Þetta er eitt af þeim málum sem hefur fengið nokkra umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. og það voru mjög vinsamleg tilmæli, og ég held alveg samhljóða, nefndarmanna á síðasta fundi að þetta frv. yrði tekið til nánari vinnslu og menn útskýrðu nánar hvað það þýddi og hvernig ætti að framkvæma það. Það hefur m.a. komið fram í álitsgerð hjá Verkfræðingafélagi Íslands að þetta frv. sé að nokkru leyti byggt á misskilningi. Ef menn taki þá tilskipun Evrópubandalagsins sem það er byggt á, þá fjalli það eingöngu um vöru sem virðist vera annað en hún er. Það minnir mig á ágætan dægurlagatexta sem Björk Guðmundsdóttir söng um plastið, af hverju plastið væri alltaf að þykjast eitthvað annað en það er, af hverju það væri að þykjast vera leður og hinir ýmsu aðrir efnisþættir, en það er nú útúrdúr. En menn þurfa að vera miklu klárari á því hvað verið er að setja í lög. Þetta kannski undirstrikar enn þá einu sinni hvílíkt álag hefur verið á okkar litla stjórnsýslukerfi við að koma þessu öllu saman frá sér á skömmum tíma.
    Í öðru lagi var mjög óljóst um hvað þetta ætti að fjalla, hvernig er samspil þessara laga við Rafmagnseftirlit, Matvælaeftirlit, Vinnueftirlit og fleiri eftirlitsstofnanir. Í 9. gr. segir: ,,Nú er fyrirmælum eftirlitsaðila ekki hlýtt . . .  `` Hver er þessi eftirlitsaðili? spurðum við í nefndinni? Það er alveg óklárt hver á að annast þetta eftirlit og við bentum á að það hlyti að vera nauðsynlegt í okkar litla stjórnkerfi til þess að gera það nú ekki enn þá umfangsmeira og dýrara en það er í dag að reynt yrði að samræma á einhvern hátt allar þessar eftirlitsstofnnair og við þá vinnu yrði sá þáttur, sem hér er verið að ræða um, tekinn inn.
    Þetta eru nú þau efnislegu atriði sem ég vildi koma á framfæri við þessa 1. umr.