Öryggi framleiðsluvöru

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 14:54:17 (599)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls í umræðunum fyrir ábendingar þeirra. Það var margt rétt athugað í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. Við höfum fengið til umfjöllunar í viðskrn. athugasemdir sem borist hafa frá ýmsum umsagnaraðilum um þetta frv. Við höfum gert tillögur til hv. efh.- og viðskn. um breytingar á frv. í ljósi þessara athugasemda sem ég vona að nefndarmönnum hafi borist en það bréf var sent nefndinni þann 8. sept. sl.
    Það er hárrétt sem kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv. að hér er verið að fara að nokkru leyti inn á nýja braut. Ég held að það sé rétt athugað hjá henni að hugsunin sem á bak við frv. býr sé þörf og æskilegt að komist í framkvæmd. Með eftirlitsaðila er hér átt við þann eftirlitsaðila sem fer með viðkomandi málasvið. Þetta getur verið Hollustuverndin eða Heilbrigðiseftirlitið. Þetta geta verið aðrir aðilar. Ég vil ekki, og ég endurtek, vil ekki láta þær aðstæður að okkar stjórnkerfi sé ekki fullbúið í öllum greinum tefja það að fram komi neytendaverndarlöggjöf af því tagi sem hér er um að tefla. Ég vil heldur að þarna séu einhverjar eyður í framkvæmdinni ef meginhugsunin er fest í lög og ég vona að ég fái stuðning þingsins til þess. Ég lýsi mig jafnframt reiðubúinn til þess að athuga mjög vandlega hverja grein í frv. og breyta öllu því sem á er bent að betur megi fara í samstarfi við nefndina. Ég þakka fyrir það samstarf sem fram hefur farið í sumar um þetta mál og önnur en endurtek að ég tel alveg nauðsynlegt að marka stefnu í þessu máli þannig að lagastoð sé til í sambandi við hættulega vöru og þjónustu og ekki síst, eins og hv. 18. þm. Reykv. nefndi, í sambandi við leikföng og annað sem ætlað er börnum.