Húsgöngu- og fjarsala

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:13:21 (606)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins til þess að enginn misskilningur sé í þessu máli milli mín og hæstv. viðskrh., þá er ég honum sammála um að full ástæða er til að setja löggjöf og reglur um fjarsölu. Gallinn við frv. er sá að það er fyrst og fremst samið með tilliti til svokallaðrar húsgöngusölu, m.a. vegna þess að um það mál hafa verið settar sérstakar reglur hjá Evrópubandalaginu og þar með eiga svipaðar reglur að gilda á hinu nýja Evrópska efnahagssvæði ef það verður að veruleika. En gallinn er sá að það kemur nánast ekkert fram í frv. um fjarsölu enda hef ég skilið það svo að verið sé að vinna að slíkum reglum í samstarfi

Evrópuríkjanna. Það sem ég átti fyrst og fremst við var að það þýðir lítið að setja löggjöf þar sem nánast ekkert kemur fram um hvernig neytendur skuli verndaðir. Hér er eingöngu sagt að þessi löggjöf skuli ná til fjarsölu og það skuli síðan ákveðið með reglugerð. Það kemur eiginlega ekki mikið annað fram. Þess vegna gæti þessi löggjöf hljóðað þannig: Frumvarp til laga um húsgöngu- og fjarsölu og síðan kæmi 1. gr.: Viðskrh. skal setja reglur um þau mál eftir því sem við á og kann að semjast um í samstarfi ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Nú er það ekki það sem hæstv. viðskrh. er að leggja til. Hann er að leggja til að taka upp hér ákveðnar reglur um húsgöngusölu en fjarsala er annað og ég held að við getum verið sammála um að það verði miklu viðameiri viðskipti í framtíðinni.
    Ég á eingöngu við það, hæstv. viðskrh., að hér sé um það mikilvægt mál að ræða sem varði e.t.v. enn þá meira framtíðina en daginn í dag, þó að vissulega sé ekki ástæða til að gera lítið úr þeim viðskiptum eins og þau eru í einhverjum mæli stunduð í dag, að þá þurfi að vanda þetta mál betur og bíða með að setja löggjöf um það þangað til viðskrn., sem leggur frv. fram, veit nokkurn veginn hvað það er að biðja um og Alþingi Íslendinga veit nokkurn veginn um hvað er verið að setja lög og hvernig eigi að nota þá löggjöf. Ég get ekki séð að það komi mikið fram í frv. hvernig eigi að nota löggjöfina. Þar af leiðandi finnst mér þetta vera bráðræðislega unnið og nauðsynlegt fyrir hæstv. viðskrh. að taka málið til endurskoðunar eins og svo mörg önnur frumvörp sem hafa verið unnin að undanförnu. Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki að undrast það þó að þessi mál séu í vissum vandræðum. Það er mikið álag fyrir viðkomandi ráðuneyti að ljúka öllum þessum málum. Þar eru ekki margir starfsmenn til reiðu og það er ekkert óeðlilegt þó að það gangi illa að ljúka mörgum þessum málum. Ég tel hins vegar að þetta sé eitt af því sem geti beðið í nokkra mánuði án þess að það skapist sérstakt hættuástand.