Verðbréfaviðskipti

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 15:52:01 (611)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að fara að gera tilraun til þess að lýsa íslensku efnahags- og atvinnulífi en ég vil hins vegar ekki taka undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í öllu því sem hún sagði því að þó að oft sé subbuskapur í ýmsum gjörningum verður maður líka stundum var við subbuskap í fjölmiðlum. Það hefur komið fyrir, fyrir löngu síðan, í íslensku samfélagi að maður eða menn voru dæmdir af fjölmiðlum en voru síðan sýknaðir af Hæstarétti 10 árum síðar. Það vill bara svo til að enginn las hæstaréttardóminn en allir lásu blöðin. Því miður er það svo að það er ekki allt rétt sem stendur í íslenskum blöðum, hvort sem þau koma út daglega eða vikulega, þótt sem betur fer sé sumt satt og rétt. Ég vænti þess þó að a.m.k. nágrannaríki okkar meti ekki íslenskt efnahagslíf af því að lesa suma af þessum pappírum. Ég fullyrði það að íslensk löggjöf um bókhald og reikningshald er ekki síðri en nágrannaríkja okkar, enda er hún nánast sú sama og hjá öðrum Norðurlöndum og hlutafélagalöggjöf og löggjöf á ýmsum sviðum samnorræn löggjöf þar sem fram hefur farið mikið sameiginlegt undirbúningsstarf og er ástæðulaust að gera þá löggjöf tortryggilega. Hitt er svo annað mál, eins og hæstv. viðskrh. sagði, það má alltaf bæta slíka löggjöf, enda er hún stöðugt til endurskoðunar. (Gripið fram í.) Jú, síðan kemur að því vandamáli, hverjir eigi að fylgjast með, hvert eigi að vera vald þeirra og hvað þeir eigi að geta gert. Hér er dæmi um löggjöf sem verið er að leggja til að verði sett til að koma á opinberu eftirliti með starfsemi á sviði verðbréfaviðskipta. Tilgangurinn með slíkri löggjöf hlýtur að vera að tryggja hagsmuni þeirra sem trúa viðkomandi fyrirtækjum fyrir fjármunum sínum og hafa það eftirlit með þessum fyrirtækjum sem tryggja hagsmuni þeirra sem leggja fé í slíka sjóði. Það er hins vegar alltaf álitamál hversu langt skuli ganga í að fylgjast með daglegri starfsemi slíkra fyrirtækja og með hvaða hætti það skuli gert.
    Ég vil benda á það sem kemur fram í athugasemdum frá samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja og ég held að allir geti út af fyrir sig tekið undir. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Opinberum afskiptum af þessu tagi verður þó að setja takmörk þannig að þau hindri ekki eðlilega starfsemi og framþróun og þau geta aldrei komið í stað nauðsynlegrar aðgæslu neytenda sjálfra og þess ásetnings þeirra sem að verðbréfaviðskiptum starfa að starfsemin sé rekin á heiðarlegum og faglegum grundvelli.``
    Þessi sjálfsögðu atriði eru nefnd hér vegna þeirrar tilhneigingar, sem kemur fram í frumvarpsdrögunum, að auka vald eftirlitsaðila. Ég ætla ekki að halda því fram að verið sé að ofgera hvað snertir vald eftirlitsaðila hér en hins vegar er rétt að nefna þessi sannindi, að það er ekki hægt að hafa eftirlitsaðila hér sem hafa vit fyrir öllum og gera allt fyrir alla. Því mega menn vara sig á því að auðvitað getur það hindrað eðlilega starfsemi og framþróun. Það verður alltaf áhætta falin í viðskiptum. Það verður alltaf áhætta á fjármagnsmörkuðum og enginn eftirlitsaðili er til sem getur komið í veg fyrir það. Og á vegum ríkisins eru engir svo vitrir eftirlitsaðilar að þeir geti komið í veg fyrir einhver töp. Hins vegar verða að vera hér ákveðnar leikreglur og ég vænti þess að þessi frumvörp séu gott skref í þá átt. Þó er nokkuð erfitt að ræða þessi mál vegna þess að þau hafa verið í vinnslu í sumar. Margvíslegar athugasemdir hafa komið og tekið hefur verið tillit til þeirra sumra en ekki allra eins og gengur og gerist. Þetta eru mál af því tagi að best er að vinna þau sem mest í efh.- og viðskn. og því skal ég ekki ræða einstök atriði þeirra hér. Þó langar mig að nefna það sem kemur fram í athugasemdum frá 20. júlí, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Beindist gagnrýni samtakanna fyrst og fremst að því að verið væri að þrengja svigrúm verðbréfasjóðanna til fjárfestinga meira en EB-reglurnar gerðu ráð fyrir þrátt fyrir yfirlýst markmið í greinargerð með frv. um að verið væri að samræma reglurnar að þessu leyti við reglur EB. Þarf ekki að fara mörgum orðum um þá röskun sem það hefði á samkeppnisstöðu íslenskra verðbréfasjóða gagnvart erlendum sjóðum ef

möguleikar þeirra til fjárfestinga væru á einhvern hátt takmarkaðri en þeirra. Áhugi íslenskra fjárfesta hlyti í auknum mæli að beinast að erlendum verðbréfasjóðum og jafnframt myndu íslensku verðbréfasjóðirnir sjálfir fjárfesta að verulegum hluta erlendis.``
    Þetta er að sjálfsögðu kjarni málsins. Ef við erum sammála um að koma á frelsi í hreyfingu fjármagns milli landa eins og gert er ráð fyrir í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði verða að gilda reglur hér sem tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Það á jafnt við um verðbréfasjóðina.
    Nú hefur sjálfsagt verið tekið tillit til þessarar gagnrýni í einhverjum mæli í þessu frumvarpi, en ef það er rétt að hér sé verið að setja reglur sem eru annars eðlis en reglur sem gilda í löndum sem samningar um frjálsan fjármagnsflutning eru við er það beinlínis ranglátt. Ég veit að hæstv. viðskrh. vill ekki standa að slíkri löggjöf og hef engar ástæður til að ætla að hann hafi nokkrar tilhneigingar til slíks. Sé eitthvað af þessari gagnrýni réttmætt er að mínu mati sjálfsagt að taka tillit til hennar. Það er m.a. verkefni efh.- og viðskn. að ganga úr skugga um réttmæti slíkrar gagnrýni og taka tillit til hennar sé hún rökstudd.
    Ég ætla að fjalla um þetta mál fyrst og fremst á sviði efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti, en þetta eru þau tvö efnisatriði sem ég hnaut um í þessum síðustu athugasemdum. Svo hljóta menn náttúrlega líka að hnjóta um þessi orð sem þar eru sett fram, með leyfi hæstv. forseta: ,,Með því að fela bankaeftirlitinu þetta vald er eftirlitsþáttur og úrskurðarþáttur á einni og sömu hendi.`` Hv. 14. þm. Reykv. kom inn á þetta. Það er heimild til ráðherra að fela bankaeftirlitinu skv. 40. gr. frv. og 39. gr. hins frumvarpsins, ef ég man rétt, ákveðið vald en það er ekki sjálfgefið. Þar segir: ,,Með þessu er skertur sá trúnaður og sú hlutlausa staða sem nauðsynlegt er að úrskurðaraðilar hafi og er tvímælalaust í anda íslensks stjórnarfarsréttar. Með frumvarpinu er bankaeftirlitinu ekki einungis falið dómsvald, heldur einnig rannsóknarvald og saksóknaravald og um mörg málefni einnig löggjafarvald.``
    Ef þetta væri allt saman rétt held ég að við gætum orðið sammála um það, ég og hæstv. viðskrh., að hér er nokkuð langt gengið og ekki hægt að setja löggjöf sem hefur slíkan tilgang. Þetta er jafnframt verkefni efh.- og viðskn., að tryggja að svo sé ekki því að það er nauðsynlegt að aðskilja sem mest eftirlitsvald og úrskurðarvald eftir því sem hægt er, svo ekki sé talað um dómsvald sem er sjálfsögð regla. Hitt er svo annað mál að eftirlits- og úrskurðarvald hlýtur þó alltaf í einhverju að fara saman og má þá í því sambandi nefna íslenska skattalöggjöf þar sem útilokað er að aðskilja eftirlits- og úrskurðarvald. þá er mikilvægt að viðkomandi aðilar geti sótt rétt sinn til annarra aðila og það er eitt af því sem þarfnast betri athugunar að því er varðar þetta annars mikilvæga mál. Ég tel að hér hafi verið unnin góð undirbúningsvinna og þetta sé mál sem ætti að geta náðst sæmileg samstaða um.