Verðbréfaviðskipti

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 16:05:29 (613)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skal gjarnan beita mér fyrir því að hæstv. 14. þm. Reykv. . . .  ( GHelg: Bara háttvirtur.) Já, háttvirtur. ( GHelg: Það er alveg nóg.) Já. Alveg nóg. Þá skal ég hafa það sem þingmaðurinn vill í þeim efnum, en eitt sinn var þingmaðurinn hæstvirtur eins og fleiri þegar þingmaðurinn var forseti sameinaðs Alþingis, virðulegur forseti þingsins.
    Það verður auðvitað alltaf ákveðin verkaskipting hér í þinginu og jafnvel þótt hv. 14. þm. Reykv. vilji fá allar umsagnir með öllum frumvörpum óska ég ekki eftir því og treysti mér ekki til að lesa allt sem kemur á borð fjárln. þingsins. Ég treysti þeim þingmönnum til þess að fjalla um það sem er trúað fyrir því og ef ég ætti að lesa það allt og hlusta á röksemdafærslur um greiðslugrunn og rekstrargrunn þar á bæ --- það held ég að ekki sé hægt að leggja á alla þingmenn hér. Við verðum að treysta þeim sem til þess eru kjörnir. Ef þingmenn óska sérstaklega eftir að fá þessar umsagnir liggja þær fyrir. Þær liggja fyrir í skjölum þingsins og það er ekkert vandamál að útvega þær.