Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 10:56:45 (629)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem undirritaður var 2. maí 1992 er nauðsynlegt að breyta ýmsum lögum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála.
    Í yfirliti því sem utanrrn. dreifði 18. maí 1992 um lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru vegna EES-samningsins kom fram að ég hygðist leggja fram tvö lagafrv. í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, annars vegar frv. til nýrra lyfjalaga og hins vegar frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna EES-samningsins.
    Á þessum fyrirætlunum hafa orðið þær breytingar að frv. til nýrra lyfjalaga verður ekki borið fram í tengslum við lagabreytingar vegna EES-samningsins. Þess í stað hafa nauðsynlegar breytingar á lyfjalögum og lyfjadreifingarlögum verið felldar inn í frv. það sem hér liggur fyrir um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Frv. sem hér er mælt fyrir skiptist í sex kafla og hefur að geyma breytingartillögur við 20 lög. Um er að ræða breytingar á átta lögum um heilbrigðisstéttir, átta lögum á vátryggingarsviði, tvennum lögum um lyfjamálefni, lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um eiturefni og hættuleg efni.
    Lögum um heilbrigðisstéttir þarf að breyta vegna ákvæða þriðja hluta EES-samningsins, sbr. VII. viðauka hans um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi.
    Lögum um eiturefni og hættuleg efni þarf að breyta vegna II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, XV. hluta hans um hættuleg efni og vegna VII. viðauka um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi.
    Lögum um atvinnuleysistryggingar þarf að breyta vegna ákvæða í þriðja hluta EES-samningsins, sbr. VI. viðauka hans um félagslegt öryggi.
    Lögum um lyfjamál þarf að breyta vegna ákvæða í II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, sbr. XIII. hluta hans um lyf.
    Lögum á vátryggingarsviði þarf að breyta vegna ákvæða í þriðja hluta EES-samningsins, sbr. IX. viðauka hans um fjármálaþjónustu.
    Í frv. vantar breytingar á lögum um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, með síðari breytingum, lögum um samábyrgð á fiskiskipum, nr. 37/1978 með síðari breytingu, lögum um vátryggingarstarfsemi, nr. 50/1978, og lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, sem boðaðar voru í áðurnefndu yfirliti.
    Fyrr á þessu ári skipaði ég nefnd sem falið var að vinna að heildarendurskoðun lagaákvæða um bátaábyrgðarfélög hér á landi. Fyrirhugað var þrátt fyrir þessa heildarendurskoðun að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna EES-samningsins um leið og öðrum lagaákvæðum af vátryggingarsviði yrði breytt.
    Endurskoðunarnefndin tjáði mér að ekki væri hægt að slíta þessar breytingar úr samhengi við þá heildarendurskoðun sem hún vinnur að. Því hefur verið ákveðið að í haust verði lagt fram frv. vegna þessarar heildarendurskoðunar. Annars vegar er um að ræða frv. til laga um brottfall laga um bátaábyrgðarfélög og hins vegar frv. til laga um breytingu á lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    Sama gildir um lögin um vátryggingarstarfsemi. Fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að vinna að heildarendurskoðun þeirra laga. Nefndin telur æskilegra að fella nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins inn í heildarendurskoðun sína fremur en að gera brtt. nú, ekki síst þar sem fyrirhugað er að leggja nýtt frv. til laga um vátryggingarstarfsemi fram á Alþingi í nóvemberbyrjun. Því frv. mun fylgja frv. til laga um val á vátryggingarsamningalögum sem nauðsynlegt er talið til að tryggja betur rétt vátryggingartaka þegar gerðir eru vátryggingarsamningar við vátryggingarfélög í öðrum ríkjum. Gert er ráð fyrir að það frv. verði lagt fyrir strax í ársbyrjun 1993.
    Breytingar á lögum um almannatryggingar eru enn fremur látnar bíða um sinn. Fyrir því eru tvær ástæður. Annars vegar sú að í apríllok á þessu ári voru samþykktar veigamiklar breytingar á reglugerð Evrópubandalagsins á þessu sviði, sem kalla á skjóta viðbótarskoðun EFTA-ríkjanna á almannatryggingalöggjöf sinni. Sú vinna er að hefjast og er þess vænst að í ljós komi þörf fyrir frekari breytingar á lögunum um almannatryggingar en þegar hafa verið boðaðar. Hins vegar hefur lögunum um almannatryggingar verið breytt u.þ.b. 70 sinnum á þeim tuttugu árum sem þau hafa verið í gildi og eru þau því lítt aðgengileg. Í byrjun þessa árs var ákveðið, í samræmi við ítrekuð fyrirmæli í breytingalögum, að fella breytingalög inn í upphaflegu lögin og gefa þau út að nýju.
    Í ljós hefur komið að við þessar endurteknu breytingar hafa lögin orðið ónákvæmari en æskilegt væri, rétt röð lagagreina hefur raskast og allnokkrar eyður myndast. Því hefur verið ákveðið að útbúa frv.

til laga um almannatryggingar með samfelldum lagfærðum og leiðréttum lagatexta þar sem jafnframt verður að finna nauðsynlegar breytingar vegna EES-samningsins.
    Slíkt frv. mun verða lagt fyrir Alþingi í byrjun október. Ég mun því á næstu vikum leggja fram fimm lagafrv. vegna EES-samningsins til viðbótar við það frv. sem hér liggur fyrir.
    Mun ég nú víkja nánar að einstökum atriðum þess frv. sem hér er til umræðu.
    Í I. kafla frv. er finna breytingar á lögum um heilbrigðisstéttir, þ.e. læknalögum, lögum um hjúkrunarfræðinga, tannlækna, lyfjafræðinga, ljósmæður, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og sjóntækjafræðinga.
    Reglur Evrópubandalagsins um staðfesturétt og frjálsa för fólks kalla á þessar breytingar á íslenskri löggjöf.
    Hjá Evrópubandalaginu eru í gildi sérstakar tilskipanir um fimm heilbrigðisstéttir, þ.e. lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og lyfjafræðinga. Tilskipanirnar kveða á um skyldu aðildarríkjanna til að viðurkenna prófskírteini, vottorð og annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem önnur aðildarríki veita ríkisborgurum aðildarríkja í samræmi við þessar tilskipanir. Þetta þýðir að starfsleyfi lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lyfjafræðinga í einu Evrópubandalagsríki skuli gilda í öðru aðildarríki.
    Samkvæmt EES-samningnum skal þessum reglum Evrópubandalagsins beitt á EES-svæðinu. Af því leiðir að hér á landi þarf að breyta 1. gr. í lögum þessara fimm heilbrigðisstétta því þar segir að sá einn megi starfa hér á landi í viðkomandi starfsstétt sem til þess hefur leyfi heilbr.- og trmrh.
    Í frv. er því gerð breyting á 1. gr. allra þessara laga og skýrt tekið fram að innan viðkomandi heilbrigðisstéttar hér á landi geti starfað annars vegar þeir sem hafa til þess leyfi heilbr.- og trmrh. og hins vegar þeir sem fengið hafa staðfestingu heilbr.- og trmrh. á leyfi sínu í EES-ríki. Gert er ráð fyrir að með reglugerð verði nánari reglur settar um hvernig heilbrrn. standi að þessari staðfestingu.
    Í læknalögum og lögum um tannlækningar er að finna ákvæði um sérfræðingsleyfi sem sömu reglur gilda um. Af þeim sökum þarf að breyta 5. gr. læknalaga og 5. gr. tannlæknalaga. Hins vegar er rétt að benda á að í læknisfræði eru mun færri sérgreinar viðurkenndar hjá Evrópubandalaginu en hér á landi. Réttur til staðfestingar á sérgrein nær eingöngu til sérgreina sem eru sambærilegar milli landanna.
    Þá er talið nauðsynlegt að skýrt komi fram í lögum um þessar fimm heilbrigðisstéttir að ef ríkisborgari í EES-landi sem hér starfar á grundvelli staðfestingar á leyfi í öðru EES-landi, er sviptur leyfi sínu þar, falli niður heimild hans til að starfa hér á landi.
    Sömuleiðis er talið nauðsynlegt að taka skýrt fram ef EES-borgari sem hér starfar á grundvelli staðfestingar brýtur af sér í þeim mæli að það mundi varða hann leyfissviptingu hefði hann leyfi heilbrrh., þá gæti ráðherra svipt hann staðfestingunni sem starf hans hér á landi grundvallast á.
    Í þrennum lögum um heilbrigðisstéttir, þ.e. lögum um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og lögum um sjóntækjafræðinga, er gert að skilyrði fyrir starfsleyfi hér á landi að viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari.
    Þeir sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar geta fengið leyfi en þá með öðrum skilyrðum. Reglur Evrópubandalagsins krefjast þess að engum sé mismunað á grundvelli ríkisfangs. Því er nauðsynlegt að breyta þessum þrennum lögum og tryggja að umsóknir ríkisborgara í EES-ríki um starfsleyfi í þessum heilbrigðisstéttum séu meðhöndlaðar með sama hætti og umsóknir Íslendinga.
    Löggilding allmargra heilbrigðisstétta byggir á reglugerðum. Rétt er að geta þess að flestum þessara reglugerða mun þurfa að breyta þar sem EES-samningurinn mælir fyrir um að engum megi mismuna á grundvelli ríkisfangs.
    Í II. kafla frv. er fjallað um breytingar á lagaákvæðum á vátryggingarsviði. Þar er átta lögum breytt vegna ákvæða í þriðja hluta EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga.
    Breytingar lúta að því að ryðja úr vegi einkarétti einstakra vátryggingarfélaga til að selja tilteknar tryggingar, skattalegum ívilnunum sem sum þessara félaga njóta umfram önnur félög og ákvæðum um staðfestingu ráðherra á vátryggingarfélögum eða iðgjöldum, svo nokkuð sé nefnt.
    Nokkur þeirra laga sem hafa að geyma vátryggingarákvæði, sem þarf að breyta vegna EES-samningsins, heyra undir önnur ráðuneyti en heilbr.- og trmrn. Tveimur þeirra er breytt með þessu frv. í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Um er að ræða umferðarlög sem heyra undir dómsmrh. og lög um búfjártryggingar sem heyra undir landbrh.
    Ekki er ástæða til að fjalla ítarlega hér um breytingar á lögum á vátryggingarsviði, heldur vísa ég til greinargerðar með frv. Þó vil ég fara nokkrum orðum um breytingar þær sem frv. gerir á lögum um brunatryggingar. Vegna EES-samningsins þarf að breyta lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, með síðari breytingum, og fella niður ákvæði þeirra um að bæjar- og sveitarstjórnir hafi heimild til að semja við eitt vátryggingarfélag um brunatryggingar á húsum í viðkomandi umdæmi og að skylt sé að vátryggja allar húseignir í umdæminu hjá þessum aðila. Vegna þessarar breytingar þykir eðlilegt að fella niður ábyrgð sveitarfélaganna á því að vátryggingunni sé haldið við.
    Í EES-samningnum er sérstakt undanþáguákvæði fyrir Húsatryggingar Reykjavíkurborgar. Lögum um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, þurfti því ekki að breyta nú. Óvarlegt þykir hins vegar að mismuna húseigendum eftir því hvar þeir búa á landinu. Því hef ég ákveðið að notfæra ekki undanþáguákvæðu EES-samningsins vegna Húsatrygginga Reykjavíkur heldur breyta lögunum um brunatryggingar í

Reykjavík samhliða breytingunum á lögunum um brunatryggingar utan Reykjavíkur.
    Eðlilegast er að fella lögin um brunatryggingar í Reykjavík niður skv. 15. gr. frv. og breyta heiti laganna um brunatryggingar utan Reykjavíkur í lög um brunatryggingar til viðbótar þeim breytingum sem þegar hafa verið raktar.
    Vegna brottfalls laga um brunatryggingar í Reykjavík verður að setja ákvæði til bráðabirgða í lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur sem eftir samþykkt frv. mun þá verða orðin að almennum lögum um brunatryggingar.
    Í bráðabirgðaákvæðinu er tryggt að árið 1993 verði brunatryggingar húsa í Reykjavík óbreyttar hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar undir umsjón borgarstjórnar Reykjavíkur. Borgarstjórn Reykjavíkur skal hins vegar tímanlega og eigi síðar en 30. sept. 1993 tilkynna húseigendum í Reykjavík að brunatryggingar þeirra falli niður og að þeir skuli stofna til brunatrygginga hjá öðru vátryggingarfélagi frá og með 1. jan. 1994.
    Afleiðing þessara breytinga er sú að áfram er húseigendum skylt að brunatryggja hús sín en ábyrgð sveitarfélaga á því að vátryggingu sé haldið við fellur niður. Tryggt er eftirlit með að skyldutryggingunni er sinnt með því að vátryggingarfélag sem er með húseign í brunatryggingu má ekki taka gilda uppsögn tryggingarinnar nema jafnframt sé sýnt fram á að stofnað hafi verið til nýrrar skyldutryggingar hjá öðru félagi.
    Sveitarfélög utan Reykjavíkur eru bundin samningum um brunatryggingar við Brunabótafélag Íslands og Samvinnutryggingar GT til síðari hluta árs 1995. Ekki er ljóst hvort sá samningur muni standa óski einhver húseigandi utan Reykjavíkur eftir því að vátryggja hús sitt annars staðar en hjá því félagi sem samningurinn gerir ráð fyrir. Ekki er ólíklegt að á þetta muni reyna fyrir dómstólum fljótlega eftir gildistöku EES-samningsins. Rétt er einnig að hér komi fram að talið er að ekkert sé því til fyrirstöðu að sveitarfélög, ef þau svo kjósa, haldi áfram að hafa milligöngu um að ná hagstæðum samningum um brunatryggingar fyrir húseigendur í sveitarfélaginu, svo fremi sem slíkir samningar binda ekki húseigendur kjósi þeir að leita annað með kaup á brunatryggingu sinni.
    Í III. kafla frv. er fjallað um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni því að ákvæði þeirra er varða sölu og innflutning eiturefna eru of þröng og samrýmast ekki þeim reglum sem gilda hjá Evrópubandalaginu um þetta efni.
    Í IV. kafla er fjallað um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar en í þeim lögum er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar vegna EES-samningsins. Lögin gera nú ráð fyrir að greiðsla atvinnuleysistryggingabóta sé bundin við dvöl hér á landi. Þessu þarf að breyta því reglur Evrópubandalagsins sem varða reglur EES-svæðisins gera ráð fyrir að fari atvinnulaus einstaklingur í atvinnuleit innan svæðisins beri landinu þar sem hann á rétt á atvinnuleysisbótum að greiða honum áfram bætur þann tíma sem honum er atvinnuleitin heimil eða í þrjá mánuði. Sömuleiðis verður að heimila Atvinnuleysistryggingasjóði að hafa milligöngu um greiðslu atvinnuleysistryggingabóta sem með þessum hætti koma hingað til lands í atvinnuleit því reglur Evrópubandalagsins gera ráð fyrir að stofnun í dvalarlandinu annist greiðslu bótanna á kostnað þar til bærrar stofnunar í landi sem viðkomandi kom frá.
    Í V. kafla eru gerðar breytingar á annars vegar lyfjalögum og hins vegar lögum um lyfjadreifingu. Í lyfjalögum þarf að breyta ákvæðinu um auglýsingar og kynningu lyfja til samræmis við reglur Evrópubandalagsins á þessu sviði. Þannig eru hertar reglur um auglýsingu og kynningu skráningarskyldra lyfja en reglur um auglýsingu og kynningu lausasölulyfja eru rýmkaðar. Þá verður fellt niður það ákvæði lyfjalaga að hafna megi umsókn um skráningu sérlyfs ef hið virka efni er svo líkt fáanlegu lyfi að það sem skilur geti ekki haft teljandi þýðingu. Þetta ákvæði brýtur í bága við samkeppnisreglur EES-samningsins.
    Þá eru felldar niður tvær greinar í lyfjadreifingarlögum vegna samkeppnisreglna EES-samningsins.
    Virðulegi forseti. Ég hef rakið helstu breytingar sem gerðar eru í frv. á löggjöf á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES-samningsins. Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. en þar hefur handrit af þessu frv. verið til skoðunar í sumar líkt og með önnur fylgifrumvörp EES-samningsins.