Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 13:41:36 (636)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu stórt mál sem erfitt er að gera skil á þeim stutta tíma sem við höfum hér til umráða. Ég get sagt að ekkert kemur mér á óvart af því sem hefur verið að koma fram á síðustu dögum um stöðu stúdenta í þessu landi og um stöðu Háskóla Íslands. Ég hef heldur enga trú á því að það komi hæstv. menntmrh. á óvart að stúdentar hafi verið að hrökklast frá námi og um fleiri konur en karla sé að ræða.
    Til þess var leikurinn gerður hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún lagði til breytingar á lánasjóðnum. Hún vildi fækka nemendum og hún vildi burt þetta háfélagslega kerfi sem lánasjóðurinn vissulega var.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sú staða sem nú er komin upp geti komið ýmsum stjórnarsinnum á óvart, þeim hv. þm. sem sinntu ekki umræðunni hér í fyrra en studdu síðan á græna takkann þegar að lokaafgreiðslu kom í þeirri trú að þetta væri bara venjulegt stjórnarandstöðusnakk í okkur stjórnarandstæðingum þegar við börðumst fyrir því hér fram á síðasta dag að reyna að fá þessum ólögum --- vil ég leyfa mér að segja, hæstv. forseti --- breytt.
    Ég verð þó að segja að eitt kemur mér á óvart og varðar það hæstv. menntmrh., að hann skyldi ekki standa við það sem hann sagði í umræðunni í fyrra, t.d. að það yrði lánað fyrir vaxtakostnaði vegna lána sem tekin eru í hinu almenna bankakerfi og lánað yrði fyrir skólagjöldum. Þetta hefur ekki staðist. Sannleikurinn er sá að útlánareglurnar ganga eins langt til óhagræðis við námsmenn og lögin mögulega heimila.
    Að síðustu, hæstv. forseti, þá hlýt ég að gagnrýna það að stjórn sjóðsins notar það litla fjármagn sem hún hefur til ráðstöfunar til að gefa út áróðursbækling fyrir ríkisstjórnina þar sem m.a. kemur fram í forustugrein á fyrstu síðu að lánasjóðurinn gefi námsmönnum kost á framhaldsnámi án tillits til efnahags. Þvílík öfugmæli, hæstv. forseti.