Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 13:46:40 (638)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Allt frá því að ríkisstjórnin tók að boða þá stefnu að nú ætti að borga fyrir alla þjónustu ríkisins ofan á skattana vöruðum við kvennalistakonur við því að fyrirhugaðar aðgerðir mundu bitna harðast á konum. Konur hafa lægstu launin þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku og þrátt fyrir að þær sinni mjög mikilvægum störfum í þjóðfélaginu. Það þýðir að margar þeirra geta ekki leyft sér að taka námslán á þeim kjörum sem nú bjóðast þar sem þær sjá fram á þunga greiðslubyrði það sem eftir lifir ævinnar og geta ekki séð sér farborða þar til lánasjóðnum þóknast að greiða út lánin að loknum prófum.
    Tölur frá Háskóla Íslands tala sínu máli. Nemendum fækkar sem var tilgangur ríkisstjórnarinnar og við skulum ekki gleyma því að það var tilgangurinn að fækka umsóknum um námslán og að fækka nemendum í framhaldsnámi. Jafnframt er verið að gera Háskóla Íslands nánast ómögulegt að sinna skyldu sinni og sama gildir auðvitað um aðra skóla. Hvers virði er þá sjálfstæðið þegar peningarnir eru engir? Og ég spyr: Hvað á að koma í staðinn? Hvað á að verða um það unga fólk sem hverfur frá námi? Er það virkilega stefna ríkisstjórnarinnar að betra sé að ungt fólk gangi um atvinnulaust en að því gefist kostur á námi? Ætlar ríkisstjórnin að halda áfram að saga af þá sprota sem helst mega verða til að efla nýsköpun og gera þjóðina færa um að takast á við þau miklu verkefni sem fram undan eru í samfélagi þjóðanna, hvort sem

við stöndum utan eða innan EES?
    Í stað þess að efla hér velferð á varanlegum grunni sem ríkisstjórnina dreymdi um í upphafi, þótt með undarlegum hætti væri, er hún með aðgerðum sínum að festa í sessi vesöld og því miður óttast ég að hún verði á varanlegum grunni. Við horfum upp á vaxandi atvinnuleysi, aukna misskiptingu, árásir á kjör kvenna og himinhrópandi óréttlæti. Þessi ríkisstjórn traðkar á öllum þeim hugsjónum um jafnrétti og jöfnuð sem barist hefur verið fyrir og hafa gilt í okkar samfélagi um áratuga skeið. Hvað á henni að leyfast að ganga langt? Er ekki mál til komið að þessum árásum að menntakerfið linni?