Áhrif af stefnu ríkisstjórnarinnar á Háskóla Íslands

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 13:54:10 (641)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við erum að ræða um þær afleiðingar sem stefna ríkisstjórnarinnar hefur þegar haft á íslenskt þjóðfélag. Hér voru samþykkt lög um Lánasjóð ísl. námsmanna sem höfðu það að markmiði að fækka námsmönnum við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. Nú er það að koma fram að þessi fækkun birtist aðallega í því að ungar og efnaminni konur, einstæðar mæður, hverfa frá námi og þá gerist það að hv. þm. Sjálfstfl., Sigríður A. Þórðardóttir, formaður menntmn. Alþingis, kemur og segir í afsökunartón að þetta sýni bara að þær séu raunsæjar og jarðbundnar. Það var nöturleg yfirlýsing í garð þeirra

ungu kvenna sem nú eru að hverfa frá námi vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Þetta er röng stefna. Hún er siðferðilega röng og hún er efnahagslega röng. Hvar er nú hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem sagði í nafnakalli í vor í atkvæðagreiðslunni um Lánasjóð ísl. námsmanna að ef það kæmi í ljós að fólk mundi hverfa frá námi vegna þessarar lagasetningar mundi hann beita sér fyrir því á Alþingi að breyta þeim lögum? Og hvar eru nú þingmenn Alþfl. sem greiddu atkvæði með því á flokksþingi Alþfl. að breyta þessum lögum strax í haust? Þeir sitja þegjandi í þessari umræðu. Það hefur enginn þeirra staðið upp. Hvar eru nú stóru orðin sem fyrrv. forustumaður námsmannahreyfingarinnar lét falla í ræðustólnum á sl. vetri? Eða er það virkilega þannig að Alþfl. ætli að láta þetta gerast? Við þingmenn Alþb. höfum flutt frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég vona að það komi á dagskrá Alþb. Ég vona að það komi á dagskrá í næstu viku og þingmenn Alþfl. fái þá tækifæri til þess að greiða atkvæði. (Gripið fram í.) Já, þið getið skemmt ykkur yfir mismælum hér í ræðustólnum. Það er lítil skemmtan. En unga fólkið á Íslandi, sérstaklega ungu konurnar, sem eru að hverfa frá námi, hlæja ekki. Og ég vona það að Alþfl. sýni það í næstu viku að hann sé reiðubúinn að styðja þetta frv.