Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 15:31:32 (655)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir furðu minni á mjög svo smekklausri ræðu hæstv. heilbrrh. hér áðan, þ.e. fyrri hluta þeirrar ræðu. Mér fannst hún með afbrigðum smekklaus. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hv. 4. þm. Austurl. þyrfti að eyða nokkrum tíma hér í pontunni til að svara ýmsu af því sem kom fram í máli hæstv. heilbrrh. Það sem hann gerði m.a. var að dylgja um það að sjónarmið hv. 4. þm. Austurl. ætti eitthvað skylt við þau sjónarmið sem vaða uppi í Þýskalandi og er auðvitað ekkert annað en kynþáttafordómar og fasismi. Hann sagði það hins vegar ekki berum orðum vegna þess að hann vissi það auðvitað vel að það var of gróft til að segja það berum orðum í ræðustólnum svo hann dylgjaði um þetta sem var vægast sagt mjög ósmekklegt.
    Ég ætla að taka tvennt fyrir sem kom fram í máli ráðherra. Í fyrsta lagi sagði hann að ef þessi samningur yrði ekki gerður mundi réttur íslenskra námsmanna takmarkast mjög í aðildarríkjum Efnahagsbandalagsins. Þetta er ekki rétt og það er ekki hægt að finna þessari fullyrðingu nokkurn stað. Þetta er liður í þeim hræðsluáróðri sem hér er keyrður og ég vil benda á það að við eigum þegar aðild að t.d.

ERASMUS og COMETT-áætlununum og nemendaskiptum við Efnahagsbandalagið. Vandamálið sem háskólinn stendur andspænis núna er að hann hefur ekki fjármuni til að sinna þessu alþjóðasamstarfi. Hann hefur ekki fjármuni til þess og eitt af því sem þeir eru að skera niður einmitt um þessar mundir er aðstoð við háskólanemendur í þessu alþjóðasamstarfi.     Í öðru lagi langar mig til að koma inn á þessar tryggingar í Reykjavík, húsatryggingar. Ég vil benda ráðherra á að það er fullt af skuldlausum eignum í Reykjavík. Þegar þær detta úr tryggingu hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar er það engin trygging að einhverjir þeir sem eiga veð í þessum íbúðum tryggi að þær fari annars staðar í vátryggingu því það er fullt af skuldlausum íbúðum. Þá er spurning hvernig verður farið með það.
    Ráðherra hafði trú á því að menn væru ábyrgir og létu á þetta reyna. Þá vil ég spyrja og vil fá upplýsingar um það, ekki endilega hér í dag, heldur í heilbr.- og trn.: Hversu margir Reykvíkingar hafa látið tryggja hús sem þeir eru með í byggingu sem þeir hafa varið talsverðum fjármunum til en hafa ekki verið skyldugir til að tryggja? Hversu margir Reykvíkingar hafa tryggt hús sín í byggingu? (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka. Ég vil bara minna á varðandi brunatryggingar að þar eru ekki bara á ferðinni hagsmunir einstakra húseigenda heldur eru þar líka á ferðinni almannahagsmunir og almannahætta.