Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 15:38:48 (658)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég gleymdi aðeins að geta um eitt atriði í viðbót sem hjálpar til þess að hægt sé að tryggja það að skyldutrygging sé virt og hún er að iðgjöldin, tryggingaiðgjöldin, eru lögtakshæf. Það er hægt að taka lögtak í ógreiddum tryggingagjöldum til tryggingar því að skyldutryggingarsjónarmiðin séu virt. Það er gert í dag í talsvert ríkum mæli, tryggingafélög gera þetta. En jafnvel þó að ákvæðin séu eins og þau eru í núgildandi lögum, þ.e. bæði um skyldutryggingu og skyldutryggingu hjá tilteknum vátryggjanda, þá kemur það samt sem áður fyrir að hús, sem iðgjöld hafa ekki verið greidd af í kannski 2--3 ár, brenna. Jafnvel í núgildandi lögum er ekki hægt að tryggja það til fullnustu að skyldutryggingarákvæðin séu virt jafnvel þó að okkar lög séu svo ströng að það er ekki bara skyldutrygging sem er í lögunum heldur líka þau ákvæði að það skuli tryggja hjá tilteknu tryggingafélagi. Þrátt fyrir alla þessa herslu í löggjöf

hefur samt sem áður ekki tekist að tryggja það að iðgjaldagreiðendurnir greiddu iðgjöldin sín þannig að þeir hefðu húseignirnar í tryggingu.
    Það er alveg sama hvaða lög við mundum setja, við getum aldrei tryggt það að einhver einstaklingur, einn eða fleiri, sem ekki vill sjá fyrir eignum sínum með tryggingu, geri það, jafnvel þó hann leiti allra leiða til að gera það ekki. Slík forsjárhyggja getur ekki gengið upp sama hve ströng löggjöfin er. Það er einnig vitað að til er hjá Húsatryggingum Reykjavíkur skrá yfir allar tryggðar eignir á starfssvæði Húsatrygginga. Það er ekki mjög erfitt verk að nota árið 1993 til að sjá svo til af hálfu ráðuneytis, Húsatrygginga Reykjavíkur og tryggingaeftirlitsins að menn séu búnir að ganga frá skyldutryggingum sínum hjá öðrum tryggingafélögum áður en starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur leggst af.