Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 15:42:13 (661)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að koma hér aftur inn í umræðuna eftir að hæstv. ráðherra hefur farið yfir málin. Ég þakka honum fyrir þá yfirferð. Mér fannst það vera mikils virði að hann tók á málum hér eftir okkar athugasemdir. Það er að sjálfsögðu hans að velja það með hvaða hætti það er gert.
    Það skýrir ýmislegt í sambandi við viðhorf ráðherrans til málsins almennt og staðfestir í rauninni að mörgu leyti þann bakgrunn sem þessi frumvörp eru byggð á, þ.e. samhengið við EES-samninginn sem var það sem ég gerði að uppistöðu í mínu máli, að vekja athygli á því hvernig frumvörp þessi, eða frumvarp í mörgum liðum, tengist þessum grundvallarsamningi. Hér höfum við fengið það ótvírætt, einnig sem skilning ráðherrans, að samningurinn er forskriftin í hólf og gólf. Samningurinn er forskriftin sem lagafrumvörp stjórnvalda byggja á og skilningur ráðherrans á þessu gengur svo langt að það er hans mat að menn eigi ekkert val um framkvæmdina eins og ráðherrann orðaði það, ég held að ég hafi tekið það rétt niður eftir ráðherranum, og að það þýði ekki að segja ,,já, en`` í sambandi við þennan samning og útfærslu hans og alls ekki ,,já, en kannski`` heldur verði menn að gjöra svo vel að fylgja þessari forskrift út í æsar.
    Þetta er í rauninni viðurkenning af hálfu ráðherra í ríkisstjórn Íslands, mælt úr ræðustól á Alþingi sem ekki hefur komið fram með þessum hætti hingað til. Það hefur verið reynt þvert á móti af hálfu ýmissa talsmanna þessa samnings að breiða yfir innihald hans og ákvæði og gefa í skyn að hægt sé að haga þessu svona og öðru hinsegin. Það séu þarna undanþágur og fyrirvarar og annað þess háttar sem megi nota. Enginn vefengir þetta almenna neyðarákvæði sem þarna er en menn greinir á um hvers virði það er. En heilbrrh. kemur einmitt hér og staðfestir þann skilning sem ég og margir fleiri hér á Alþingi, karlar og konur, hafa fram haldið í sambandi við eðli samningsins. Það tel ég að skipti máli að liggi fyrir sem sameiginlegur skilningur. Það gæti kannski orðið til þess að skýra það fyrir almenningi, og fjölmiðlum ekki síður, að það er einmitt samningurinn sjálfur sem þarna er grundvöllurinn.
    Við höfum auðvitað notað okkar rétt á Alþingi til að benda á það við 1. umr. málsins hvert sé eðli þessa samnings. Það getur auðvitað stytt okkur leiðina að einhverju leyti þegar kemur að útfærslunni. En ég taldi mjög brýnt í þessu samhengi að ræða þennan bandorm hæstv. heilbrrh., þetta lagafrv. hans og vísa til þess á hvaða grunni frv. er reist til þess að þeir sem á hlýða geti betur áttað sig á því við hvaða skilyrði við fjöllum um þessi mál á Alþingi, þessi frumvörp sem eru viðfangsefni okkar í dag og næstu daga. Það er eins og ég benti á í minni fyrri ræðu ekki aðeins sú löggjöf sem er forskrifuð í Brussel og við erum að kópíera hér og færa inn í íslenskt lagasafn með ótvíræðum hætti ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga heldur er það væntanleg löggjöf þar sem aðstaða okkar verður hin sama áfram sem þeim háu herrum í Brussel þóknast að gefa út því að þeir þurfa ekki að fara lengra en í sinn 17 manna hóp til að spyrja um það hvaða lög og reglur eigi að gilda í Evrópubandalaginu. Það er ekki stærri hópur sem ákveður lög og reglur á þeim bæ og ekkert þing sem þarf að fjalla um það eða staðfesta nema í hreinum undantekningartilvikum. Það er þetta sem verður okkar hlutskipti að þessum samningi staðfestum. Það staðfestir einmitt hæstv. heilbrrh. hér í umræðunni með mjög skýrum og ljósum hætti. Og hann segir m.a.: Hér er eitt ákvæði sem snýr að Húsatryggingum Reykjavíkur sem ráðherrann hefði kannski viljað sjá öðruvísi. En hann metur það bara svo, af því að á leiðinni er tilskipun frá Brussel sem muni bjóða annað að þá borgi sig ekki að reyna að segja: ,,Já, en`` í því sambandi heldur bara taka það strax af því að þetta er að koma frá Brussel.
    Í þessu sambandi væri auðvitað fróðlegt að fá að vita, og ég hef spurt hæstv. utanrrh. að því en það eru ekki komin svör við því, ég held að það liggi raunar skrifleg fyrirspurn hér frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur, hæstv. forseta vorum, til utanrrh. um það hvað er í pípunum. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að leggja það fyrir Alþingi? Um það hefur verið spurt og við bíðum eftir svari. Ég er ekki að krefja hæstv.

heilbrrh. um það en þetta er eitt af því sem tengist samningnum. Menn verða áður en þessi samningur er staðfestur á Alþingi, ég vænti að það hafi allir áttað sig á því, að hreinsa úr þessum pípum og gera það mál upp vegna þess að allt sem búið er að afgreiða í Brussel sem löggjöf og varðar samningssviðið verður að fylgja með þegar samningurinn er staðfestur á þeim degi sem hann á að ganga í gildi. Það er vandræðamál enn þá í Evrópubandalaginu hvernig á þessu verði haldið og við höfum ekki enn heyrt skýringar íslenskra stjórnvalda á því hvernig þau ætli að fara með þennan myndarlega skammt sem hefur safnast þarna upp síðan 31. júlí 1991 í laga- og tilskipanasafni Evrópubandalagsins.
    En hæstv. heilbrrh. er nokkurn veginn viss um að Alþingi muni staðfesta þennan samning. Ég er ekki eins sannfærður um það. Ég hef von um það að þær verði ekki lyktirnar en ég heyri og sé að hæstv. ráðherra er mjög trúaður á að þetta megi fram ganga og það er hans vilji í þessu máli. Hann hefur vaðið fyrir neðan sig og hann er þegar farinn að taka tillit til væntanlegra tilskipana Evrópubandalagsins. Svo mikil er lotningin fyrir þeim 17 búálfum í Berlaymont í Brussel, í höfuðstöðvum Evrópubandalagsins, þessum 17 sem setja Vestur-Evrópu lög í dag og munu setja Íslandi lög á morgun ef þessi samningur verður staðfestur á þýðingarmestu sviðum þjóðmála.
    Þarna metum við stöðuna með svipuðum hætti, ég og hæstv. heilbrrh. Hins vegar er það greinilegt að við metum þörfina á þessum samningi og ástæðurnar til að gera þannan samning með allt öðrum og raunar gerólíkum hætti. Ég heyrði að hæstv. ráðherra var að reikna með því að ég væri í þeirri sveit sem hann kallar jafnaðarmenn. Hann er kannski að tala um einhverja aðra, ég veit það ekki, en ég tók það nú svo. Ég hef fyrir löngu litið svo til að ég gæti alveg talið mig í þeirri sveit almennt séð. En það vill nú svo til að það er dálítið mislit hjörð sem gengur undir þeirri reglu. Ég ætla ekki að hefja þá umræðu eða fara langt út í þá sálma sem hæstv. ráðherra gaf þó upp boltann um í sínu máli en ég vil aðeins taka á því sem virðist vera hans bakgrunnur og sýn til þessa samnings og þarfarinnar á þessum samningi, þar sem okkur greinir á. Það er þetta: Hann virðist meta það svo mikils virði í sambandi við þetta málasvið, sem hann mælir fyrir og ræður fyrir í ríkisstjórn landsins, að tryggja réttindi Íslendinga á erlendri grund, réttindi heilbrigðisstétta, lækna og annarra sem tilteknir eru, að af þeim ástæðum, ég segi ekki þeim ástæðum einum, ég vil ekki gera honum upp skoðanir, en eins og hann flutti mál sitt að það sé eðlilegt og brýnt að gera þennan samning. Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir að það er mjög langt frá því að ég geti skrifað upp á þessa röksemdafærslu.
    Ég tel að í sambandi við almenn borgaraleg réttindi sem við höfum tryggt okkur og áunnið okkur hér á Íslandi, þar á meðal tryggingar, félagsleg réttindi og annað þess háttar, sé það ekkert sjálfgefið keppikefli að við förum að deila því með allri Evrópu eða allri Vestur-Evrópu með þeim afleiðingum sem því fylgja að fara með málin út á þann víða völl. Það kom einmitt mjög skýrt hér fram í málafylgju hæstv. ráðherra. Það virðist vera hans sannfæring og skoðun. Það sem leiðir af þessu verður, eða getur orðið skulum við segja, útjöfnun, lækkun á kröfum t.d. á heilbrigðissviði, lækkun á stöðu á félagslegu sviði. Halda menn að það gagni hinum almenna manni í Vestur-Evrópu að ganga þessa braut, að Norðurlöndin, að Ísland, fari að lækka sínar kröfur í umhverfismálum? Nú er að vísu ekki að öllu leyti svo að kröfur Evrópubandalagsins á því sviði séu minni en hér en það er okkar mál að taka á því. Halda menn að það sé keppikefli fyrir launafólk suður við Miðjarðarhaf að Norðurlöndin fari að lækka sína félagslegu stöðu til þess að koma með einhverjum hætti til móts við eða til að þau geti fengið einhvern bita af borðum? Ég held ekki. Það væri veiking fyrir stöðu launafólks og almennings í Vestur-Evrópu allri að ganga inn á þennan grundvöll sem auðvitað er krafa stórfyrirtækjanna sem því miður hafa fengið, eins og ég hef orðað það, fremstu leiðtoga sósíaldemókratísins í Vestur-Evrópu til liðs við sig og talið þá á það að ganga þessa braut. ( ÖS: Er Ólafur í þeim hópi?) Ég eftirlæt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni þingflokks Alþfl. að hafa áhyggjur af því hvar formaður Alþb. kann að vilja skipa sér í sveit. Það er ekki mitt mál. Það er kannski áhugamál hv. þm. að skilgreina það. Það er ekki mitt mál að fjalla um þær skilgreiningar. Þær geta menn haft uppi hver sem vill. (Gripið fram í.) Ég skil ósköp vel að hv. þm. vilja gjarnan fá umræður um það á svipuðum grundvelli og hæstv. ráðherra fór hér inn með mál áðan með því að vísa til þess að ég þyrfti ekki annað en spyrja eiginkonu mína til að fá svör en ekki hafa uppi spurningar hér á Alþingi. Ég ætla ekki að fara í umræðuna á þessum grundvelli, finnst það ekki vera rétt, mér finnst það ekki sæma Alþingi.
    Ég met það svo að við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að sækja þann rétt sem við viljum tryggja okkar borgurum í útlöndum með eðlilegum hætti og samningum við viðkomandi ríki að svo miklu leyti sem við teljum þörf á. Þetta höfum við verið að gera litið til baka áratugi aftur í tímann og með góðum árangri, t.d. á Norðurlöndum. Norðurlöndin hafa náð samkomulagi um að deila ýmsum réttindum án þess hins vegar að afsala ser þjóðlegum rétti, án þess að gefa frá sér fullveldisréttinn og vald yfir þýðingarmestu sviðum þjóðmála. Því hafa Norðurlöndin haldið. Þau hafa náð að deila réttindum sameiginlega varðandi marga þýðingarmikla þætti og það er að sjálfsögðu auðveldara fyrir lönd sem eru jafnskyld menningarlega, félagslega og hvað snertir þróun löggjafans að stíga slík skref heldur en þegar menn eru að færa það út á þann víða völl sem hér er verið að ræða um.
    Ég kem þá að því sem hæstv. ráðherra telur, og það tengist því raunar sem ég hef þegar rætt, að hafi verið misskilningur af minni hálfu varðandi frv. Þar er bæði um að ræða kröfur um tungumál og tungumálaþekkingu, þar er um að ræða atvinnuleysistryggingar og þar er um að ræða reglugerðarvald. Hæstv.

ráðherra er á villigötum þegar hann reynir að ráða í minn hug að þessu leyti og mitt mál. Ég þekki til þess hvernig háttað er réttindum útlendinga til atvinnuleysistrygginga sem hér fá atvinnuleyfi. Það er væntanlega öllum ljóst. Þeir hafa hér ákveðinn rétt á meðan þeir hafa sitt atvinnuleyfi. En það er þar sem er verið að breyta réttinum í grundvallaratriðum, staðfesturéttinum, með þessum samningi. Í stað þess að útlendingur, annar en Norðurlandabúi sem hér sækir um störf, fær starfsréttindi til þriggja mánaða aðeins, þá er nú verið að veita mönnum staðfesturétt, búseturétt og réttindi varðandi félagsmála- og tryggingamálasvið í heild sinni ótakmarkað ef þeir fá einu sinni atvinnu á Íslandi. Að segja síðan hér í ræðustól, eins og hæstv. ráðherra lét að liggja, þannig skildi ég mál hans, að það væri engin breyting hér á ferðinni varðandi löggjöfina, að sjálfsögðu er hér verið að breyta um í grundvallaratriðum varðandi staðfesturéttinn og þar með varðandi útfærsluna og afleiðingarnar fyrir tryggingakerfi, fyrir atvinnuleysistryggingar og aðra ef hér verður verulegt aðstreymi af fólki sem nær þeirri fótfestu sem þetta veitir.
    Síðan hentaði hæstv. ráðherra að láta liggja að því að ég vildi flokka fólk eftir því hvaðan það væri ættað úr heiminum. Ég vil lofa honum að vera einum um þær hugmyndir en ég vil jafnframt segja að við stöndum hér frammi fyrir þeirri spurningu hvort við Íslendingar teljum að aðstaðan sé slík að við eigum bara að hafa hér einn flatan akur, eigum að hætta að hugsa um okkar stöðu, okkar réttindi og okkar möguleika í þessu landi. Ég lít svo til að niðjar þess fólks sem hér hefur búið um aldir eigi það skilið að við hugsum hér um íslenska hagsmuni og íslenska stöðu, ekki bara í nútíð heldur einnig til lengri tíma litið. Ég met það ekki að jöfnu hvort um er að ræða að berjast fyrir almennum réttindum og almennum mannréttindum og gera þær kröfur til þjóðríkja að þau virði slíkan rétt og hins vegar spurninguna um það hvort menn ætla að gæta sinna hagsmuna, líta til hagsmuna þess fólks sem hér býr og hér hefur haslað sér völl og reyna að tryggja grundvöll fyrir áframhaldandi þjóðlífi í landinu við bærilegar aðstæður.
    Hæstv. ráðherra staðfesti það sem hér var rætt í sambandi við kröfur til starfsréttinda að því er varðar málakunnáttu. Það liggur alveg ljós fyrir skilningur hans á því að það er ekki hægt að gera neinar slíkar formlegar kröfur. Það eina sem hægt er að reisa rönd við er í sambandi við ráðningu af hálfu þeirra stofnana sem í hlut eiga en ég held að það sé ekki mikill varnarveggur í þessum efnum ef menn vilja halda uppi vörnum í sambandi við kröfur um málakunnáttu. Ég er ansi hræddur um það að ef á reyndi þá stæðust slíkir fyrirvarar ekki snúning reglum og tilskipunum Evrópubandalagsins ef menn kjósa að láta á það reyna. Það er nokkuð sérstakt, eins og ég benti á í þessum lagatexta, að sjá tilgreint og tekið sérstaklega fram í löggjöf að það sé hægt að gera sérstakar kröfur að því er snertir málakunnáttu gagnvart fólki utan við hin helgu vé Evrópsks efnahagssvæðis eins og liggur fyrir í þessum texta. Það undirstrikar að sjálfsögðu þessa meginreglu sem ráðherrann hefur hér undirstrikað og staðfest sem sinn skilning með því að bera frv. fram.
    Varðandi reglugerðir og setningu reglugerða og þau ákvæði sem eru hér sagði ráðherrann að það væri engin breyting á þeirri stöðu mála. Hér er ráðherrann enn að reyna að hanga í forminu einu saman en skoðar ekki innihald mála. Heldur ráðherra að það sé ekki um að ræða breytingu á reglugerðarheimildum þegar verið er að víkka lagagrundvöllinn með þeim hætti sem hér liggur fyrir? Heldur ráðherrann að þingið sé ekki að veita framkvæmdarvaldinu meira vald og annað vald en verið hefur til að setja reglugerðir þegar grundvöllurinn sem framkvæmdarvaldið stendur á er EES-samningur? Það er auðvitað með öllu fráleitt að halda því fram að þetta sé sambærilegt og að því þurfum við að gæta þegar við fjöllum áfram um þetta efni.
    Einnig sagði ráðherrann það ekki rétt af minni hálfu að verið væri að galopna íslenskan vinnumarkað. Ég held að við þurfum ekki að deila mikið um það hvað sé verið að gera í sambandi við íslenskan vinnumarkað. Það liggur fyrir í samningnum sjálfum og ákvæðum hans. Þegar fólk hefur verið að spyrja mig hvað breytist varðandi vinnumarkaðinn, þá hef ég vísað þeim á skýrslu sem hæstv. utanrrh. lagði fram á Alþingi haustið 1990 þegar hann var að gera grein fyrir réttarlegri stöðu og stöðu samningaviðræðna og fyrir einstökum samningsþáttum og fjallaði þar m.a. um breytingar á atvinnu- og búseturétti. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa smákafla úr þessari skýrslu og vekja um leið athygli á þessu því þar er með skýrum hætti tekið fram meginatriði breytinganna. Þar segir í fyrsta lagi:
    ,,Hinn erlendi starfsmaður öðlast rétt til fimm ára dvalar við það að starfa á Íslandi hvort heldur sem launþegi eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt gildandi lögum er dvalarleyfi forsendan fyrir útgáfu atvinnuleyfis. Óheimilt er að gefa út atvinnuleyfi til lengri tíma en eins árs í senn.``
    Ég tek fram að það er bæði verið að lýsa breytingunni og núverandi stöðu.
    Í öðru lagi: ,,Hinn erlendi starfsmaður á rétt á að taka því starfi sem býðst eða hefja sjálfstæða starfsemi á grundvelli þeirra reglna er gilda um Íslendinga. Núgildandi reglur veita hins vegar atvinnurekanda heimild til að ráða tiltekinn útlending til starfa og hefur hinn erlendi starfsmaður ekki heimild til að skipta um starf.``
    Í þriðja lagi: ,,Hinn erlendi starfmaður á rétt á að fá próf sín viðurkennd á þeim sviðum sem tilskipanir ná til en engin slík skylda er fyrir hendi í núgildandi rétti.``
    Í fjórða lagi: ,,Hinn erlendi starfsmaður getur skipt um starf að vild og hefur dvalarleyfi til fimm ára í senn. Samkvæmt núgildandi rétti verða að vera í ráðningarsamningi við erlendan starfsmann ákvæði um flutning viðkomandi frá Íslandi að starfstíma loknum.``
    Í fimmta lagi: ,,Hinn erlendi starfsmaður á rétt á því að maki og börn eða foreldrar viðkomandi

fái dvalarleyfi um leið og viðkomandi kemur til starfa. Samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum eru engin sérstök ákvæði um fjölskyldur og rétt þeirra til dvalar á Íslandi.``
    Í sjötta lagi: ,,Hinn erlendi starfsmaður og fjölskylda hans öðlast rétt til dvalar á Íslandi eftir að starfsævi lýkur. Engin slík ákvæði er að finna í núgildandi rétti.``
    Í sjöunda lagi: ,,Hinn erlendi starfsmaður öðlast aðgang að almannatryggingakerfi hér á landi og á rétt á að flytja út bætur og safna saman tryggingartímabilum, t.d. varðandi eftirlaun. Lög um almannatryggingar gera ekki greinarmun á útlendingum og Íslendingum heldur miða við lögheimili á Íslandi. Hins vegar gera þau ekki ráð fyrir útflutningi bóta né uppsöfnun tryggingartímabila.``
    Í áttunda lagi: ,,Atvinnurekandi getur ráðið erlendan starfsmann án þess að þurfa að leita til stéttarfélaga. Óheimilt er samkvæmt núgildandi rétti að ráða útlendinga til starfa án þess að aflað hafi verið umsagnar stéttarfélaga.``
    Ég vek athygli bæði formanns þingflokks Alþfl. og hæstv. heilbr.- og trmrh. á áttunda atriði sem hér er tekið fram í yfirliti hæstv. utanrrh. þess efnis að atvinnurekandi getur ekki ráðið fólk til starfa án þess að hafa svo mikið sem samráð við viðkomandi stéttarfélag.
    Í níunda lagi: ,,Launþegi getur tekið það starf sem viðkomandi býðst í beinni samkeppni við Íslendinga. Samkvæmt núgildandi rétti skal hins vegar því aðeins veitt atvinnuleyfi fyrir útlendinga, ef sérstakar ástæður þykja mæla með því, svo sem ef um erlenda sérfræðinga er að ræða, eða kunnáttumenn sem ekki verða fengnir innan lands eða ef atvinnuvegi landsins skortir vinnuafl sem ekki er fáanlegt innan lands.``
    Og í tíunda og síðasta lagi: ,,Sjálfstætt starfandi geta hafið starfsemi uppfylli þeir þau skilyrði sem gerð eru til Íslendinga á viðkomandi sviði eða samræmdar kröfur á grundvelli tilskipana Evrópubandalagsins. Ekki eru nein tímamörk á því hversu langan tíma er unnt að starfa sjálfstætt. Samkvæmt núgildandi rétti er atvinnurekstrarleyfi einungis veitt þeim sem átt hafa lögheimili á Íslandi síðasta árið. Leyfið er bundið við ákveðna starfrækslu og ákveðinn tíma og ekki veitt til lengri tíma en þriggja ára í senn.``
    Þarna eru meginbreytingarnar á búsetu- og staðfesturétti, þ.e. atvinnu- og búseturétti varðandi þennan samning, dregnar saman í tíu atriðum af hæstv. utanrrh. haustið 1990 og ég dreg þetta fram nú vegna þess að hæstv. ráðherra var að láta að því liggja að það væri rangt hjá mér að verið væri að galopna íslenskan vinnumarkað gagnvart þegnum hins Evrópska efnahagssvæðis. Það er í reynd verið að því og ég tel að hæstv. ráðherra eigi að vita betur, enda kom hann í raun ekki fram með nein rök fyrir staðhæfingu sinni.
    Það kom vel fram í máli hæstv. ráðherra að ekki þyrfti að vefjast fyrir honum sem heilbr.- og trmrh. að setja reglugerðir og orða reglugerðir á grundvelli þessara laga. Þetta var af tilefni fyrirspurnar sem fram kom um reglugerðirnar varðandi kröfur til starfsmanna í fimm heilbrigðisstéttum og hvers vegna það þarf ekki að vera vandasamt og ekki kalla á aukið starfslið hjá hæstv. heilbrrh. Ástæðan er sú, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, ég vænti þess að þú ljáir hér eyra en truflir ekki mál mitt, að það er þegar búið að setja reglurnar, upplýsir hæstv. ráðherra. Evrópubandalagið er búið að skilgreina reglurnar og það eitt er eftir að kópíera þær. Ákvarðanirnar um þessar reglur eru teknar af Evrópubandalaginu og búið að móta þær af ríkjum Evrópubandalagsins. Það er þessi grundvöllur sem við Íslendingar eigum að fara inn á. Það er lækkaður staðall á ýmsum sviðum varðandi kröfur til heilbrigðisstétta sem við verðum að ganga inn á sem lágmarksgrundvöll með nákvæmlega sama hætti og gildir í umhverfismálum vegna þess að þar er það spurningin um hið frjálsa vöruflæði sem verður ríkjandi og ýtir til hliðar þeim reglum sem EFTA-ríkin kunna að hafa mótað sem ganga lengra í þeim efnum en Evrópubandalagið.
    Þetta er staðan og þó ömurlegt sé til þess að vita þá er það altént hreinskilni af hæstv. ráðherra að viðurkenna að hann búi við það að kópíera ekki aðeins ,,direktívin`` heldur einnig útfærslu þeirra eins og þau hafa verið þegar mótuð af Evrópubandalaginu í Brussel.
    Undir lok máls míns vil ég svo, virðulegi forseti, taka upp einn þátt sem hæstv. ráðherra vék sér undan að ræða eða kom ekki að í máli sínu og er ég ekki að gagnrýna það þó eitthvað hafi fallið þar niður, en það er það sem snýr að lyfjamálunum og ég vék nokkuð að. Ég vék m.a. að því sem fram kemur í V. kafla, d-lið, sem er tillaga um að 20. gr. laga um lyfjamál orðist svo, og ég leyfi mér að lesa hana aftur til skýringar fyrir hæstv. ráðherra:
    ,,Heimilt er þó að kynna fyrir heilbrigðisstéttum, sbr. 19. gr., lyf og áðurtalinn varning, en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir.``
    Að þessu vék ráðherrann ekki. Þetta er mjög sérkennilegt ákvæði í þessari löggjöf en til viðbótar nefndi ég þær gjörbreyttu aðstæður sem varða innflutning lyfja til landsins og verið er að innleiða með þessum breytingum. Til þess að stytta málið frekar vil ég leyfa mér að vitna til orða hæstv. ráðherra sem hann lagði fram sem svar við fyrirspurn minni varðandi lyfjainnflutning og lyfjadreifingu á sl. þingi þar sem spurt var hvort breytingar yrðu og hvað fælist í þeim breytingum í aðalatriðum. Í upphafi svars ráðherra segir, með leyfi forseta:
    ,,Helstu breytingar varða skráningu lyfja sem með samræmdum reglum verður fljótvirkari auk þess sem hún verður að hluta ákveðin fyrir öll löndin í einu af tveimur skráningarnefndum á vegum EB. Ekki er útlit fyrir að EFTA-ríkin fái aðgang að þessum nefndum. Hægt verður áfram að skrá lyf ,,þjóðlegri skráningu`` vegna sérþarfa í einstökum löndum en hins vegar verður ekki lengur hægt að hafna skráningu lyfs,

t.d. vegna verðs eða vegna þess að skráningaryfirvöld telja ekki þörf fyrir lyfið.
    Lyfjahugtakið mun ná yfir fleiri lyf en hingað til. Má þar nefna bóluefni, lyf sem unnin eru úr blóði, geislavirk lyf, náttúrulyf og hómópatalyf sem verður að líkindum að skrá hér á landi eins og í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins.``
    Þetta er fyrri hlutinn úr svari ráðherra sem er ítarlegra. Í lokin er einnig jákvætt svar við fyrirspurn sem þannig er orðuð: ,,Yrði um að ræða aukið framboð lyfja hérlendis vegna EES-samnings?`` Já, að öllum líkindum, sbr. svar við 2. spurningu`` sem ég var að vitna til.
    Ég held að hér sé á ferðinni breyting sem sé svo mikil og hafi svo víðtæk áhrif að mikil þörf sé á að menn átti sig á því fyrir fram hvað er á ferðinni. Ég saknaði þess úr annars ítarlegu máli hæstv. ráðherra, einkum í annarri ræðu hans, að hann skyldi ekki fara nánar inn á þann stóraukna innflutning lyfja og algert áhrifaleysi EFTA-ríkjanna til að hafa áhrif á skráningu lyfja, a.m.k. að hluta til eins og kemur fram í svari ráðherrans. Ef menn styðja það þeim rökum, eins og ég hef heyrt, að þetta geti verið til vinnandi vegna samkeppni um lyf og þar með um verð þá er það ekki reynsla þeirra ríkja sem hafa búið við þetta kerfi um skeið og höfðu ekki ósvipað kerfi og við áður. Þar er ég að vísa til Danmerkur og Bretlands og ég hef það frá heimildum sem ég tel marktækar að þar hafi lyfjaverð ekki lækkað þrátt fyrir gífurlegt flóð lyfja sem þar er á ferð og reynt verður að markaðsfæra hér með öllum ráðum þar á meðal með auglýsingum þar sem aðstaðan er sú sem ég hef þegar vikið að.
    Einn þáttur þessa máls varðar vanabindandi lyf og baráttuna við fíkniefni, sem mikið hefur verið rætt hér á landi að undanförnu sem eðlilegt er, vanda sem við er að etja í sambandi við vanabindandi lyf og fíkniefni. Ég spurði um þetta á þinginu í fyrra en fékk þau svör frá hæstv. heilbrrh. að það væri nú metið svo að ekki væri sýnileg ástæða til að undirbúa neinar ráðstafanir til mótvægis við áhrif EES-samningsins að svo stöddu, eins og það var orðið, enda ekkert sem bendi til að EES-samningnum muni fylgja aukin hætta af ávana- og fíkniefnum. Þannig var það orðað í 5. lið á þskj. 801 í svari frá hæstv. ráðherra. Hins vegar stendur einnig í þessu svari á þskj. 801 þar sem spurt er hvaða áhrif ákvæði EES um frelsin fjögur geti haft á ólöglegan innflutning fíkniefna, þá er því er til svarað að það hafi engin athugun verið gerð á því hvort og þá hvaða áhrif það hefði innan EES-svæðisins og hingað til lands. Að undanförnu hafa komið fram vaxandi áhyggjur manna í Vestur-Evrópu, á svæði hins innri markaðar sem á að vera fullburða um nk. áramót og búið að tryggja framkvæmd hans í EB-ríkjunum og á að yfirfæra hann á EFTA-ríkin, af aukinni útbreiðslu fíkniefna og vanabindandi efna og minni vörnum sem við verði komið af stjórnvöldum vegna þessara breytinga.
    Ég er hér með mat norskra sérfræðinga að þessu leyti og meginniðurstaðan er sú að EES-samningurinn verði til að auka fíkniefnavandamálin. Þetta er niðurstaða aðila sem eru að fjalla um þessi mál í Noregi og mér finnst þessi þáttur málsins engan veginn hafa verið ræddur nóg og athugaður hérlendis, jafnalvarlegt mál og hér er á ferðinni, ég tala nú ekki um ef verið er að gera breytingar sem stefna þessum málum í meira óefni og minnka möguleika á að spyrna við fótum.
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. kvartaði undan því í upphafi annarrar ræðu sinnar áðan að hann væri að hlusta á viðlíka ræður og hann nam ungur að árum fyrir og eftir 1970. Ég náði ekki alveg hvenær hæstv. núv. ráðherra náði þræði í stjórnmálunum og fór að fylgjast með á Alþingi en ég tók svo eftir að það hafi verið þegar á árinu 1967. Hann fór með orð, að vísu án beinna tilvitnana, kannski mætti segja orðaleppa, því þeir voru þannig framreiddir hér, sem hefði borið við í umræðum um samning um álbræðslu í Straumsvík á sínum tíma og í sambandi við aðild að EFTA. Og eitthvað fleira hafði hæstv. ráðherra uppi í þessum efnum. Hann sakaði okkur, sem höfum verið að gagnrýna þennan samning og vara við mörgum ákvæðum hans, að við værum að endurtaka svipaðan málflutning ef ekki sama málflutning og þá var uppi hafður. Ég vísa svona málflutningi frá með öllu. Ég tel að við gagnrýnendur þessa samnings höfum fært gild rök fyrir máli okkar, höfum haft uppi málefnalega umræðu þar sem við erum að líta á þetta stóra mál í því samhengi sem þessum samningi ber, þ.e. í nútíðinni, miðað við þær aðstæður sem við búum við. Hitt kann svo vel að vera að það endurspeglist áhyggjur af ekki ósvipuðum toga og var fyrr á árum í sambandi við áhrif annarra samninga og breytinga varðandi íslenskt þjóðlíf. Ég tel það ekki okkur sem tölum á Alþingi um þessi mál til minnkunar þó við lítum til fortíðar og leitumst við að draga lærdóm úr þeirri átt því misjafnir spámenn erum við nú flestir þegar horft er til framtíðar og ætla ég ekkert að ætla mér meiri hlut þar en hverjum öðrum. En ég tel ekki skynsamlegt og í rauninni ekki rétt að færa málin inn á þennan grunn eins og hæstv. ráðherra gerði þegar hann var að víkja að þessari umræðu.
    Ég gæti vissulega tekið upp ákveðna þætti þar. Hæstv. ráðherra vísaði frá sem hreinni fjarstæðu að samningurinn um álbræðslu í Straumsvík á sínum tíma hafi haft nokkur áhrif á efnahags- og stjórnmálaumræðu eða ákvarðanir þar að lútandi á Íslandi. Þannig skildi ég hæstv. ráðherra.
    Ég væri alveg reiðubúinn til þess að fara yfir málin og leiða að því líkur að áhrif þess samnings hafi orðið býsna mikil og afdrifarík í efnahagslegu tilliti á Íslandi og það hafi þurft efasemdarmenn og gagnrýnendur til að breyta grunni þess ókjarasamnings sem skrifað var upp á hér af Sjálfstfl. og Alþfl. á Alþingi Íslendinga 1966. Menn héngu í þeim viðhorfum til að verja fyrri gjörninga fram á árið 1981 og vörðu í ræðum úr þessum stóli alveg í blóð þann gjörning sem þeir höfðu staðið að 1966 við gjörbreyttar aðstæður sem þá höfðu orðið. Menn slógust ekki í lið með okkur gagnrýnendum þessa máls sem sköpuðu skilyrðin fyrir því að þessum samningi var breytt að því er snerti raforkusölu til álvers í Straumsvík í grundvallaratriðum og hafa Íslendingar uppskorið af því drjúgum síðan breyting var þar á gerð 1984. Þannig mætti reiða fram ýmis fleiri dæmi.
    Alþýðuflokkurinn var í þeim sporum 1966 þegar fjallað var um þetta mál að standa gegn því að þessi stóri atvinnurekandi sem þá var samið við um aðstöðu í landinu og yrði tekinn inn í Vinnuveitendasamband Íslands. Það voru réttmætar áhyggjur sem ollu því að Alþfl. hafði það þó fram, en hann féll frá þessu þegar hann komst á valdastóla hér fyrir fáum árum. Mér sýnist að einmitt sé margt í þá áttina, sem er að gerast hér í tengslum við þennan samning, sem ekki horfir til réttrar áttar. Mér finnst að hæstv. heilbrrh. eins og aðrir, sem mæla fyrir þessum samningi og breytingum í tengslum við hann, séu í grundvallaratriðum á rangri braut sem horfi til verri vegar fyrir okkur Íslendinga bæði í bráð en alveg sérstaklega til lengdar litið.