Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 17:04:54 (665)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvernig geta menn haldið því fram að það skipti íslenska þegna sem búa á Íslandi engu máli hver réttarstaða Íslendinga er t.d. á erlendum mörkuðum? Það skipti menn engu máli hvort þeir hafa möguleika á að selja sína vöru á skikkanlegu verði á erlendum mörkuðum eða ekki. Hvernig geta menn haldið svona hlutum fram?
    En ég ítreka það að hv. þm. svaraði ekki spurningu minni áðan: Hvað mun hann segja um land sitt og þjóð og sjálfan sig verði þessi samningur staðfestur? Mun hann þá ekki lengur telja sig þingmann sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar? Til hvaða úrræða mun hann þá grípa og hvernig mun hann kynna þessa þjóð sína á erlendum vettvangi eftir það? Mun hann kynna þjóð sína sem verandi hvorki sjálfstæð né fullvalda?