Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 17:24:05 (673)

     Guðmundur Bjarnason (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp í tilefni þess að nú á að fara að taka á dagskrá a.m.k. eitt mál, fyrsta málið, sem fjallar um sjávarútvegsmál af mörgum sem hér sem eru á dagskránni, dagskrármál númer 14--17 og vil vekja athygli hæstv. forseta og hæstv. sjútvrh. á að það vantar æði mikið á að hér sé fullskipuð sveit í þinginu. Það eru ekki nema 18 þingmenn viðstaddir þar af því miður ekki nema minni hluti hv. sjútvn. Það vantar virðulegan formann þeirrar ágætu nefndar, hv. þm. Matthías Bjarnason, sem hefur fjarvistarleyfi í dag, ásamt öðrum sjávarútvegsnefndarmönnum og ég vil því a.m.k. beina því til virðulegs forseta og hæstv. ráðherra hvort ekki sé álitamál hvort tiltækt sé að fjalla um þessi mál nú að fjarstöddum svo mörgum sjávarútvegsnefndarmönnum og mönnum sem ég veit að hafa mikinn áhuga á að taka þátt í þessari umræðu.
    Ég vil út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki á þessu stigi krefjast þess að umræðunni sé frestað en beini því til virðulegs forseta og hæstv. ráðherra hvort ekki sé a.m.k. umhugsunarefni að ljúka ekki umræðunni um málin ef þeir sem hér ráða ferð og stjórna þinghaldi sjái sér það fært.
    Mér er ljóst að umræðan í dag um það mál sem var á dagskrá hefur tekið langan tíma og sjálfsagt miklu lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir. En mér finnst það vera spurning um málsmeðferð á viðkvæmum málum sem ég veit að margir hv. þm. hafa áhuga á að ræða um og segja álit sitt á og hugsanlega einnig að spyrja hæstv. ráðherra um einstök efnisatriði, hvort tiltækilegt er að klára umræðuna í dag.