Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 14:03:31 (681)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Með því frv. sem hér er komið til umræðu erum við að hefja skoðun á hinu margumrædda fjórfrelsi því þetta frv. hér um breytingu á tollalögum, um vörugjald o.fl. tengist auðvitað einum fjórða hluta þessa frelsis, þ.e. frjálsum vöruflutningum. Þetta frv. byggir að mestu leyti á 10. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla.``
    Ríkisstjórnin er að bregðast við þessum samningi og við þessu ákvæði með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. En það vakna vissulega margar spurningar þegar kemur að þessu atriði. Og þá ekki síst því sem hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á og var allmikið rætt í umræðunni um samninginn sjálfan, þ.e. hvernig íslensk fyrirtæki eru búin undir þær breytingar sem fram undan eru, þ.e. frjálsa vöruflutninga og frjálsa samkeppni á fleiri sviðum. Hér er auðvitað grundvallaratriðið að ekki má mismuna innlendum og erlendum aðilum. Það sama verður að gilda um íslensk fyrirtæki og þau erlend fyrirtæki sem hér hyggjast hasla sér völl eða verða með innflutning eða útflutning. Og ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig telur hann að íslensk fyrirtæki séu undir þetta búin? Hvað hefur verið gert til að kynna þeim þessar breytingar sem hér eru á ferð? Hefur verið gerð úttekt á því hvaða áhrif þetta muni hafa á íslensk fyrirtæki? Hvernig eru þau í stakk búin?
    Það er ýmislegt í sjálfu frv. sem vert er að gefa gaum. Þá er það ekki síst í 2. gr. frv. þar sem vikið er að bókun 3 sem tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Í þessari bókun er m.a. kveðið á um meðferð landbúnaðarvara. Ég skil þessa grein þannig að ríkisstjórnin hefur lagt ákveðna túlkun í bókun 3 sem er sú að heimilt sé að leggja vörugjöld á þær vörur sem undir þetta heyra og þá erum við fyrst og fremst að tala um sýrðar mjólkurvörur. En það hefur margoft komið fram í umræðunni að sumir draga í efa að þessi túlkun, þ.e. að heimilt sé að leggja á vörugjald og að innflutningsbann hafi í raun jafngilt 100% tolli, gangi upp en það mun væntanlega á það reyna þegar fram í sækir. Hér er þessi túlkun ríkisstjórnarinnar komin svart á hvítu í þessum lagabálki. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það ekki rétt túlkun hjá mér að þessi skilningur liggi á bak við?
    Þeir sem sent hafa efh.- og viðskn. umsagnir um þetta frv., sem eru aðallega ýmsir aðilar vinnumarkaðarins einkum þeir sem eru í verslun og viðskiptum, hafa auðvitað bent á að með þessum breytingum, sem hér eru á ferð, muni það gerast að munur verður á verðlagi þeirra vara sem koma frá hinu Evrópska efnahagssvæði og þeim vörum sem koma annars staðar frá. Að sjálfsögðu eiga ýmsir innflytjendur erfitt með að sætta sig við þetta. Það er auðvitað spurning hvernig á þessu verður tekið. Er þetta réttlætanlegt? Þarna er náttúrlega verið að gefa vörum frá hinu Evrópska efnahagssvæði forgang. Auðvitað er það tilgangur þessa samnings að auka viðskipti milli samningsaðila og jafnframt að reisa tollmúra í kringum hið Evrópska efnahagssvæði þannig að framleiðendur í öðrum heimshlutum munu eiga erfiðara fyrir. Margir umsagnaraðilar vekja athygli á þessu og telja það óásættanlegt að gerður sé þessi greinarmunur á heimshlutum. En þetta er nú einu sinni eðli þessa samnings. Svo virðist líka vera að ýmsir þeir sem þessi mál snerta hafi ekki gert sér grein fyrir því að íslensk fyrirtæki yrðu ekki vernduð á einhvern hátt. En það er auðvitað ekki heimilt samkvæmt þessum samningi. Auðvitað getur ríkisstjórnin gert íslenskum fyrirtækjum lífið bærilegra á ýmsan annan hátt með þeim aðstæðum sem fyrirtæki búa við hér á landi og þar má nefna t.d. vaxtastefnu, lánafyrirgreiðslu og ýmislegt fleira.
    Ýmsir aðilar vekja athygli á því, t.d. Félag ísl. stórkaupmanna, að jöfnunartollar af því tagi sem á að fara að leggja á séu flóknir og torskildir í framkvæmd og að þeir leiði til hækkunar vöruverðs. Þeir slá því fram í bréfi sínu að slíkir jöfnunartollar hafi tilhneigingu til þess að hækka vöruverð.
    Nú er það hluti af predikuninni um kosti hins Evrópska efnahagssvæðis að vöruverð muni almennt lækka, sem ég túlka þannig að menn gefi sér að verðið sé nokkuð uppspennt, og menn muni ná mikilli hagræðingu og væntanlega söluaukningu á hinu Evrópska efnahagssvæði. Auðvitað gæti þetta líka þýtt það sem maður óttast mest varðandi íslensk fyrirtæki að þau standist einfaldlega ekki samkeppnina, verði undir og hverfi af markaðnum og við stöndum frammi fyrir enn meira atvinnuleysi en ella.
    Við vitum að vöruverð þarf að lækka. Það þarf að lækka vöruverð í landinu en þessi gjaldastefna verður náttúrlega ekki til þess. Ríkið ætlar að ná svipaðri upphæð af jöfnunargjöldum og fást núna með tollum. Auðvitað vitum við öll að ríkið þarf á tekjum að halda en það er auðvitað spurning hvort ekki séu til aðrar leiðir en þessi þar sem vöruverð er jafnhátt og raun ber vitni hér á landi og hefur reyndar löngum staðið ýmsum greinum fyrir þrifum, t.d. ferðaþjónustu sem menn óttast að nú standi frammi fyrir þrengingum vegna þess hversu vöruverð er orðið hátt.
    Margar spurningar vakna í þessu samhengi en við munum að sjálfsögðu fara rækilega ofan í þetta mál í efh.- og viðskn. og kalla fyrir þá aðila sem þetta mál snertir sérstaklega. Ég hlýt að ítreka það að þetta mál, eins og önnur sem snerta skattlagningu á atvinnuvegunum, þarf auðvitað að fá rækilega kynningu. Menn verða að vita út í hvað við erum að ganga. Hvort sem menn eru með eða móti hinu Evrópska efnahagssvæði er það afar mikilvægt að allir viti út í hvað við erum að ganga, hvað þetta þýðir. Ég skil málið þannig að íslensk fyrirtæki fái ekki neinn aðlögunartíma. Þessi lög, eins og önnur sem fylgja samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, ganga í gildi þegar og ef samningurinn verður samþykktur. Ég held ég fari rétt með að það gildi líka um þessi lög. --- Það segir hér í 8. gr. að þau öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði en það leiðir okkur aftur að þeirri stóru spurningu hvernig íslensk fyrirtæki eru undir þessar breytingar búin. Ég hlýt að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvað sé á dagskrá ríkisstjórnarinnar varðandi það að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Það sem maður óttast mest er að með þessum samningi og þeim breytingum, sem fylgja í kjölfarið, sé verið að gera íslensku atvinnulífi erfiðara fyrir en ekki að opna land möguleikanna eins og hæstv. ráðherrar tala svo oft um en hafa engan veginn rökstutt hvernig muni til okkar koma eða hvernig líti út í veruleikanum.