Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:01:09 (690)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki að viðskiptavinir okkar annars staðar í heiminum líti þannig á að það séu tollmúrar sem við erum að reisa í kringum okkur þegar við hækkum innflutningsgjöld um 4,5% til þessara landa á sama tíma og við lækkum gjöld af EES-svæðinu til landsins og myndum með þessu í kringum 10% mismun á þeim álögum sem eru á vörurnar eftir því hvort þær koma af svæðinu eða utan þess. Ég vil enn fremur ítreka mína spurningu: Er um þetta samstaða? Er þessi stefnumörkun samþykkt af ríkisstjórnarflokkunum? Hefur þetta verið samþykkt af þingflokki Alþfl. og þingflokki Sjálfstfl.? Hæstv. utanrrh. sagði í umræðum að þetta mál væri á ábyrgð fjmrn. Ég geri ráð fyrir því að það þurfi stuðning Alþfl. við málið ef það á að ganga fram eins og það er. Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál og mjög alvarleg stefnumörkun. Ég get ekki ímyndað mér annað en okkar viðskiptaaðilar annars staðar líti þannig á að það sé um alvarlegt mál að ræða þegar þeirra vörur njóta ekki sömu samkeppnismöguleika og áður hefur verið.
    Mig langar líka að vita hvers vegna ekki er samræmi í þeim frv. sem fyrir liggja. Við höfum hér annað frv. á borðum sem er frv. um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti. Þar er lagt upp með allt aðra hugsun. Þar er lagt upp með þá hugsun að það eigi að hafa þetta jafnt. ( Gripið fram í: Þeir urðu vondir uppi í Heklu.) Var hringt í menn úr Heklu eða frá Ingvari Helgasyni? Hvað gerðist?