Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:03:20 (691)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kemur að því að ég flyt framsöguræðu um annað frv. sem hér er á dagskrá sem fjallar um bíla og bensín og vörugjald á ökutæki. Þá gefst tækifæri til að ræða það síðasta sem hv. þm. benti á í sínu andsvari. Ég vil einungis segja og viðurkenna að það er ekkert einhlítt hvernig við áttum að leysa þetta mál. Við fórum ákveðna millileið sem ég tel vera viðunandi. Frv. er auðvitað flutt á mína ábyrgð og mér er það fyllilega ljóst að nefndin þarf að vinna í frv. Komi fram aðrar tillögur en hér eru gerðar þá ber okkur auðvitað að skoða þær. Ég vil einungis lýsa því yfir að ég tel að það eigi að vinna að því, eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól, að gera sem flesta samninga, þá tvíhliða samninga á grundvelli GATT og grundvelli annarra viðskiptasamninga á milli þjóða, til að greiða fyrir frjálsri verslun. En ég hygg að það verði að gæta þess líka er við gerum slíka samninga að við höfum samsvarandi tollfrelsi hjá þeim þjóðum sem við flytjum inn frá. Það er þetta atriði sem blandast auðvitað inn í þessar umræður og við verðum að taka tillit til þegar endanleg stefnumörkun er tekin í þessu máli.