Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:23:52 (700)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að skattyrðast lengur við hv. þm. en ég bendi á að umræður hafa farið fram um þessi mál nákvæmlega á undanförnum vikum og ef ég þekki hv. Alþingi rétt þá munu umræður halda áfram um þessi mál á næstu vikum og ég tel að ef menn vilja ræða sérstaklega um þau tilteknu mál, sem hann nefndi, sé eðlilegra að gera það undir slíkum dagskrárliðum þegar allir ráðherrar eru viðstaddir, a.m.k. þeir sem bera ábyrgð á efnahagsmálunum sem slíkum. Þetta er það eina sem ég vil segja að þessu sinni og ég tel að þegar við erum að ræða um þetta tiltekna frv. sé ekki ástæða til að efna til eldhúsdagsumræðna og er ég þó á engan veginn að skorast undan því að svo geti orðið. Vonast ég nú til, hv. þm., að við getum sammælst um að koma þessu tiltekna máli áfram en getum frestað umræðum um önnur efni, jafnvel þau mikilvægustu, þar til sá tími kemur sem eðlilegur getur talist.