Vörugjald af ökutækjum

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 15:44:18 (704)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fjalla um ytri tollana, hvers vegna ekki þótti ástæða til að halda ytri tollum þegar kom að aðflutningsgjöldum á bíla þó að það væri ákveðið að hafa þar verulegan mismun þegar rætt var um aðrar vörur, innfluttar iðnaðarvörur. Ég vil þá byrja á því að spyrja hæstv. fjmrh. Samkvæmt röksemdafærslu fjmrh. ætlum við að halda áfram uppi nokkrum ytri tollum til að bæta samningsstöðu okkar. Við mundum ekki lækka þá fyrr en við fengjum toll af okkar útflutningsvörum inn

á viðkomandi svæði lækkaðan. En ef þessi hugmyndafræði og röksemdafærsla hæstv. fjmrh. stenst þá þýðir hún einfaldlega það að við breytum þessum tollhlutföllum, aðflutningsgjaldahlutföllum, annars vegar á vörum innan hins Evrópska efnahagssvæðis og hins vegar á vörum utan svæðisins og ætti það að þýða að þau svæði kæmu með mótrökin sem væru hækkuð aðflutningsgjöld, hækkaðir tollar á vörur frá okkur þangað inn. Ef menn ætla að fara að skoða málið út frá þessari röksemdafærslu þá lítur það einfaldlega þannig út.
    Hvers vegna skyldi ekki sömu hugmyndfræði hafa verið beitt þegar kom að því að tolla bílana? Ég held að ástæðan sé einföld. Það voru einfaldlega öflugri aðilar sem þar voru að gæta sinna hagsmuna.
    Við skulum líta á eilítið dæmi. Ef hliðstæðar breytingar hefðu orðið á innfluttum bílum og boðaðar eru í frv. um tolla og vörugjöld hefði verð á tveimur bílum sem kostuðu 1 millj. fyrir breytinguna, öðrum frá hinu Evrópska efnahagssvæði og hinum japönskum, breyst þannig að sá evrópskri hefði lækkað um 35 þús., kostað 965 þús. kr. á eftir, en sá japanski hefði hækkað um 46 þús., kostað 1 millj. 46 þús. Munurinn 81 þús. Þetta sýnir kannski betur en annað að þó svo fjmrh. hafi viljað gera lítið úr þeim breytingum sem felast í frv. um tolla á vörugjald sýnir þetta kannski betur en margt annað hvað þarna er um að ræða. Þarna er um marktækan mun að ræða, stefnumörkun í þá veru að beina innflutningi okkar til ákveðinna landsvæða eða heimshluta. Þó svo að ákveðin fyrirtæki flytji líka inn VW Golf þá býst ég við að hagsmunirnir liggi stærri annars staðar.
    Síðan ætla ég aðeins að koma að þeirri skipan sem hefur verið á aðflutningsgjöldum á bíla, að gjöldin ráðist annars vegar af slagrými og hins vegar af eigin þyngd og munurinn er frá því að vera 26% og upp í 87%. Ég tek undir það sem fram hefur komið og m.a. hjá hæstv. fjmrh. að þarna er byggt á algerlega úreltri hugmyndafræði. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, af því að þessi lög eru tekin upp, að þessi þáttur verði endurskoðaður mjög rækilega. Ég held að ef við ætlum að hafa mismun á gjöldunum þá eigi hann að byggjast kannski á þremur þáttum, þ.e. umhverfisþáttunum og öryggissjónarmiðum sem ég held að séu mjög mikilvæg ef við ætlum að reikna dæmið út í heild og síðan verðið. Ég get tekið undir það eðlilegt sé að dýrari bílar séu skattlagðir meira, en aukið slagrými og aukin eigin þyngd þarf ekki alltaf að fara saman. Menn eiga að hafa tök á því að geta keypt sér bíl sem þjóna þeirra hagsmunum, til að mynda fjölskyldustærð þó að hann sé eilítið þyngri. Hann þarf ekki að vera því sem nemur dýrari í innflutningi. Þetta verður allt saman að skoða í meðförum nefndarinnar og þarf út af fyrir sig ekki að koma við heildartekjur sem ríkið hefur af innflutningi.
    Aðeins varðandi eldsneytið. Eins og búið er að leggja dæmið upp hérna þá eru þær heimildir sem eru til gjaldtöku þannig að áfram er það svigrúm inni til þess að hækka blýlausa bensínið eins og hægt er samkvæmt núgildandi lögum. Auk þess er bætt við heimildum til þess að hækka bensín með blýi þannig að munurinn á verðlagningunni verði áfram hlutfallslegur. Í umsögn frá vegamálastjóra var því fagnað sérstaklega að heimildir væru rýmkaðar til að taka aðflutningsgjöld af bensíni til að standa undir vegagerð um leið og vegamálastjórn harmaði að þær heimildir hefðu til þessa ekki verið nýttar að fullu.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. Það kemur til kasta efh.- og viðskn. og þar er mikil vinna óundirbúin en ég ítreka að lokum að hæstv. fjmrh. skuldar okkur skýringu á því hvers vegna allt annarri pólitík er beitt gagnvart ytri tollunum þegar kemur að bílum og eldsneyti en þegar rætt er um aðrar iðnaðarvörur. Þangað til ráðherra kemur með aðrar haldbetri skýringar sé ég ekki aðrar en þar hafi einfaldlega verið sterkari hagsmunaaðilar en þeir tvístruðu sem standa að almennum vöruinnflutningi.
    Ég vil þó að lokum ítreka að menn mega ekki gera of mikið úr því að þarna sé eingöngu um að ræða hagsmuni innflytjendanna. Það eru hagsmunir allrar þjóðarinnar, allra neytenda, að ekki séu settar hömlur á það hvaðan við flytjum vörurnar inn og ekki sé verið að setja sérstaka aukahemla á innflutning á vörum frá svæðum sem hafa reynst okkur vel og ýmissa hluta vegna hafa kosið að eiga viðskipti við okkur.