Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 13:39:57 (708)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.
    Samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið um Evrópskt efnahagssvæði nær frelsi

til fjárfestinga á Íslandi ekki til fiskveiða og fiskvinnslu. Íslendingar náðu þar fram veigamiklum fyrirvara af sinni hálfu til að tryggja full yfirráð landsmanna yfir þessari mikilvægu auðlind. Fyrirvarinn nær á hinn bóginn ekki til verslunar með fisk og er samkvæmt samningnum óheimilt að gera upp á milli borgara ríkjanna á grundvelli þjóðernis hvað varðar frelsi til að mega stunda verslunaratvinnu. Það er því nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla og er lagt til að í lögin verði bætt ákvæði sem undanþiggur ríkisborgara annarra ríkja EES-svæðisins ríkisfangs- og búsetuskilyrðum þessara laga í þeim tilgangi að uppfylla ákvæði hans.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.