Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 13:43:27 (710)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. snýst í raun um það að innleiða frelsið inn í viðskipti með fisk og ég kem upp fyrst og fremst til að vekja athygli á því að hinar raunverulegu undanþágur frá því að útlendingar taki þátt í sjávarútveginum ná ekki lengra en þar til á að fara að selja vöruna. Það hlýtur að segja mönnum að útlendingar eiga ýmsa möguleika í sambandi við sjávarútveginn hérna og það verður býsna erfitt að verja það að útlendir aðilar taki þátt í þessari atvinnugrein eða stundi viðskipti af ýmsu tagi sem eru auðvitað undanfari annarra hluta sem gerðir eru. Þegar menn hafa fengið að kaupa fisk á mörkuðum hljóta menn að geta fengið að nýta sér hann, fengið að flytja hann út, vinna hann og ég tel að það sé rétt að menn horfist í augu við það að undanþágurnar og fyrirvararnir gagnvart sjávarútveginum munu verða erfiðar viðfangs. Það verður að fylgja þeim mjög stíft eftir og ég vil minna á að á sl. vetri kom í ljós að erlendir aðilar eiga umtalsverða eignarhluti í íslenskum fyrirtækjum og það kom greinilega í ljós að það var ekki vilji stjórnvalda að taka á því máli. Það er þess vegna ástæða til þess að doka við og velta því fyrir sér hvernig stjórnvöld munu taka á þessu máli í framtíðinni. Menn hafa gert mikið úr þessum fyrirvörum og þessum undanþágum og þá verða menn líka að fylgja því mjög hart eftir því að það verður vandrataður stígur að halda sjávarútveginum á Íslandi alfarið í eigu Íslendinga.
    Þetta leiðir líka hugann að því að varla eru nokkrar líkur til þess að við getum stjórnað útflutningnum frá Íslandi á sjávarafurðum og skammtað sjávarafurðir inn á markaði erlendis eftir að þetta frelsi er komið til í útflutninginn sem verður í þessu EES-kerfi. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. sjútvrh. svari því hvort hann er ekki á sama máli og ég um það að í framtíðinni geti sjávarútvegurinn ekki skammtað vörur inn á markað erlendis í skjóli einhvers konar takmarkana eins og hafa verið notaðar fram að þessu.