Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 14:04:01 (718)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá heimild sem hér hefur verið veitt á grundvelli þingskapalaga að mæla fyrir þessum þremur málum í einu lagi. Það styðst við fordæmi frá fyrra þingi þar sem sami háttur var hafður á þegar þessi mál voru í upphafi flutt en eins og fram kemur í athugasemdum við frumvörpin voru þau lögð fram á síðasta þingi en afgreiðslu þeirra var frestað og vísað til meðferðar með öðrum málum er tengjast afgreiðslu samninga um Evrópska efnahagssvæðið.
    Hér er í fyrsta lagi um að ræða frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, í öðru lagi frv. til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða og í þriðja lagi frv. til laga um breyting á lögum um Fiskistofu.
    Tilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til í þessum frumvörpum er annars vegar að bregðast við auknum kröfum um meðferð framleiðslu og eftirlit með sjávarafurðum og hins vegar að auka skilvirkni í opinberri stjórnsýslu með því að laga hana að breyttum aðstæðum.
    Á síðasta þingi voru samþykkt lög um Fiskistofu og lög um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Frv. um meðferð sjávarafla og eftirlit með framleiðslu þeirra og frv. um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða voru einnig lögð fram á því þingi en þá tókst ekki að ljúka umfjöllun þeirra.
    Þriðja frv. sem hér liggur fyrir varðar einfaldlega breytingu á lögum um Fiskistofu þess efnis að Fiskistofu sé falið að hafa opinbert eftirlit með meðferð og framleiðslu sjávarafurða.
    Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á alþjóðavettvangi og í samskiptum þjóða. Samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum mun enn aukast á komandi árum í kjölfar frjálsari viðskiptahátta og aukinna milliríkjaviðskipta. Aukin alþjóðleg samkeppni knýr stjórnvöld og fyrirtæki hér á landi til þess að endurskoða stöðu sína og leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Eftirlitsyfirvöld og neytendur í markaðslöndum okkar gera sífellt meiri kröfur til sjávarfurða. Krafist er tryggingar fyrir því að sjávarfurðir séu heilnæmar og eru yfirvöld erlendis á verði gagnvart öllum innfluttum sjávarafurðum. Í nýjum reglum Evrópubandalagsins sem taka eiga gildi um næstu áramót og í nýju eftirlitskerfi bandarískra stjórnvalda eru settar fram ítarlegar kröfur í þessum efnum.
    Með frumvörpum þessum er leitast við að auka ábyrgð framleiðenda á vörum sínum og jafnframt dregið úr umsvifum og kostnaði ríkisins. Opinbert eftirlit er skilið frá ráðgjöf og þjónustu sem nú verður falið viðurkenndum skoðunarstofum sem starfa undir eftirliti Fiskistofu. Með þessu fyrirkomulagi er komið á heildstæðu opinberu eftirlitskerfi sem fullnægir kröfum erlendra heilbrigðisyfirvalda um opinbert eftirlit með framleiðslu sjávarafurða. Hagsmunir neytenda eru hafðir að leiðarljósi og því er í frv. að finna ákvæði um hert viðurlög við brotum sem stefnt gætu heilsu neytandans í hættu allt í því skyni að verja þá hagsmuni sem þýðingarmesti atvinnuvegur þjóðarinnar hefur af því að íslenskar sjávarafurðir njóta álits sem heilnæm matvara er ávallt megi treysta. Vegna þessara skipulagsbreytinga í opinberu eftirliti við meðferð og framleiðslu sjávarfurða er lagt til að hlutverki og rekstrarformi Ríkismats sjávarafurða verði breytt. Er gert ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag sem sjái m.a. um eftirlit með innra eftirliti framleiðenda og taki við því hlutverki um næstu áramót en opinbert vald Ríkismatsins verði fært til Fiskistofu frá sama tíma. Fiskistofu verði síðan falið að veita sjávarútvegsfyrirtækjum vinnsluleyfi og útflutningsnúmer í samræmi við þær reglur sem settar verða í þessum efnum.
    Gildandi löggjöf um meðferð sjávarafurða er um margt úr sér gengin og fullnægir ekki lengur þeim kröfum sem gerðar eru til framleiðslu og eftirlits sjávarafurða. Með frv. er ætlunin að koma á skýrri rammalöggjöf á þessu sviði. Við samningu frv. hefur verið tekið mið af kröfum í helstu markaðslöndum okkar. Í flestum löndum er þess nú krafist að fyrirtæki sem framleiða sjávarafurðir hafi til þess sérstök leyfi yfirvalda og þurfa þau að uppfylla lágmarkskröfur um gæði afurða, búnað, hreinlæti, hollustuhætti, merkingar, vigtun og fleira samkvæmt reglugerðum eða fyrirmælum. Opinberir aðilar og kaupendur hafa gert sífellt meiri kröfur til matvælaframleiðslu. Yfirvöld í mörgum löndum hafa beint sjónum í auknum mæli að innra eftirliti fyrirtækjanna og reynt að færa sér það í nyt í þágu opinbers eftirlits. Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir opinbert eftirlit, oft með miklum tilkostnaði, hefur ekki tekist að framfylgja ákvæðum laga og reglna. Athugasemdir yfirvalda við framleiðslu hafa einungis tímabundin áhrif og fljótt sækir aftur í sama farið. Vænlegra til árangurs þykir samspil innra eftirlits fyrirtækja og opinbert eftirlit. Styðjist opinbert eftirlit við athuganir fyrirtækjanna er byggt á sterkum grunni því fylgjast má með framleiðsluferli af skráðum gögnum milli heimsókna í fyrirtæki. Eftirlitið eykst, það verður markvissara og komið verður í veg fyrir tvíverknað. Því er í frv. þessu gert ráð fyrir að allir framleiðendur sjávarafurða semji við skoðunarstofur sem ætlað er það hlutverk að annast eftirlit með innra eftirliti með framleiðslunni. Yfirvöld í helstu

markaðslöndum okkar, þ.e. í ríkjum Evrópubandalagsins og Bandaríkjunum, krefjast eftirlits með fiskiskipum með aðstöðu og framkvæmd við löndun, uppboðs og dreifingar auk eftirlits með fyrirtækjum til að tryggja að framleiðendur standi við skilmála fyrir leyfisveitingu. Eftirlitið nær til hreinlætis, innra eftirlits og til skoðunar afurða á markaði, til að tryggja að þær séu merktar í samræmi við reglur og hafi verið fluttar og séu geymdar í samræmi við gildandi heilbrigðisákvæði. Allar þessar kröfur eru miðaðar við að hagsmunir neytenda séu tryggðir.
    Í viðskiptasamningum er í æ ríkara mæli gerð krafa um að seljandi sýni með skjalföstum gögnum hvernig gæði eru tryggð. Oft gera erlendir kaupendur strangari kröfur en tíðkast í markaðslandi. Fyrirtækjum og framleiðendum er að sjálfsögðu heimilt að setja sjálfum sér strangari vinnureglur en það losar þá ekki undan opinberu eftirliti sem haldið er uppi til að tryggja neytendum og óskemmda vöru. Yfirvöld í mörgum löndum krefjast heilbrigðisvottorða til tryggingar því að fiskafurðir sem fluttar eru inn uppfylli tilgreindar lágmarkskröfur varðandi heilnæmi og fleira eins og rakið hefur verið. Þau taka yfirleitt aðeins gild vottorð þar að lútandi frá opinberum eftirlitsstofnunum eða láta starfsmenn sína taka sýni af afurðunum til rannsókna til að ganga úr skugga um að þær séu heilnæmar áður en tollafgreiðsla fer fram. Nýverið hefur þróunin gengið í þá átt hjá Evrópubandalaginu og í Bandaríkjunum að í stað vottorða með afurðum er þess nú krafist að hvert fyrirtæki sem hyggst framleiða sjávarafurðir fyrir markað í þessum ríkjum hafi opinbert númeruð vinnsluleyfi sem prenta skal á allar umbúðir. Númerið er staðfesting opinbers eftirlits á því að fyrirtækið uppfylli allar kröfur, þar með talið eigið innra eftirlit. Opinberum eftirlitsstofnunum er ætlað að fylgjast með því að fyrirtækin standi við þá skilmála sem leyfisveitingin er háð.
    Í II. kafla frv. eru settar fram opinberar lágmarkskröfur til sjávarafurða varðandi heilnæmi, geymslu, flutninga, aukefni og merkingar. Í mörgum tilvikum er gert ráð fyrir að sjútvrh. setji með reglugerð nánari ákvæði um einstakar greinar og þess skal getið að fram til þessa hafa kröfur til sjávarafurða ekki verið almennt lögfestar heldur settar með reglugerðum.
    Í III. kafla frv. er fjallað um leyfisveitingar og eftirlit með framleiðslu sjávarafurða.
    Í frv. er að finna það nýmæli að lögð verði sú skylda á herðar forstöðumönnum fyrirtækja að þeir sjái um að sett verði á fót innra eftirlit með framleiðslu. Krafa um innra eftirlit í fyrirtækjum ýtir undir að þar sé tekið kerfisbundið á gæðamálum og þeim gert mun hærra undir höfði. Aukin þekking á áhættuþáttum framleiðslu minnkar áhættu á göllum og þeir uppgötvast mun fyrr og hefur það í för með sér lægri framleiðslukostnað. Gæðavitund eykst hjá starfsfólki og mun auðveldara verður að halda framleiðslunni stöðugri. Evrópubandalagið og yfirvöld í Bandaríkjunum gera skilyrðislaust kröfu um innra eftirlit í fyrirtækjum ef þau eiga að fá leyfi til að nota útflutningsnúmer sem tryggir þeim aðgang að mörkuðum þessara þjóða án skoðunar. Þessir aðilar telja að sé þessi aðferð notuð við innra eftirlit undir yfirumsjón opinberra aðila sé það nægjaleg trygging fyrir heilnæmi og gæðum afurðanna. Því er það eitt af meginatriðum þessa frv. að ábyrgð framleiðenda og framleiðslu er stóraukin og framleiðslueftirlit styrkt en opinber afskipti af daglegri framleiðslu minnkuð að sama skapi. Fyrirtækjum er því skylt að koma á fót hjá sér innra eftirliti til að tryggja nauðsynlegt eftirlit með framleiðslu og gera samning við skoðunarstofur til að fylgjast með og votta virkni eftirlitsins þannig að það sé í samræmi við þá lýsingu sem fyrir hendi er.
    Rétt er að vekja athygli á að efnisatriði þessa frv. hafa verið rædd við embættismenn fiskideildar Evrópubandalagsins sem telja að það uppfylli tilskipanir bandalagsins um þessi efni. Frásögn af þeim fundi er prentuð sem sérstakt fylgiskjal með frv.
    Ég vík þá að frv. um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða. Í tengslum við þá endurskipulagningu sem stendur yfir á stjórnsýslu sjávarútvegs hefur markmið stjórnvalda með eftirliti með framleiðslu sjávarafurða verið endurmetin. Við þá vinnu var m.a. fylgt þeirri stefnu að þau störf sem eðlilegt megi telja að einkaaðilar sinni verði færð frá ríki til þeirra. Til að nálgast þessi markmið og uppfylla um leið nýjar kröfur helstu viðskiptaaðila Íslendinga á sjávarútvegssviði er gert ráð fyrir að breyta verulega núverandi starfsemi Ríkismatsins.
    Í frv. um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra er eins og áður var vikið að lögð sú skylda á forsvarsmenn allra sjávarútvegsfyrirtækja að semja við skoðunarstofu um að hún fylgist reglubundið með innra eftirliti, hreinlæti og búnaði þeirra. Með þessu frv. er lagt til að Ríkismat sjávarafurða verði endurskipulagt þannig að stofnað verði hlutafélag um rekstur skoðunarstofu. Félaginu verði hins vegar ekki veittur neins konar einkaréttur og er gert ráð fyrir að öll fyrirtæki sem uppfylla ákveðin skilyrði geti fengið leyfi til að reka skoðunarstofu. Gert er ráð fyrir að nafnverð hlutafjár í nýja hlutafélaginu verði 25 millj. kr. við stofnun félagsins og að ríkissjóði verði heimilað að leggja það til. Í því skyni er lagt til að heimilað verði að leggja hlutafélaginu til eignir, þ.e. lausafé Ríkismatsins allt eða að hluta. Nauðsynlegt er að fram fari mat á lausafé, þar með töldum bifreiðum. Þær eignir yrðu metnar sem greiðsla við uppgjör á hlutafjárloforði ríkisins.
    Lagt er til að ríkissjóður verði í upphafi einn eigandi allra hlutabréfa í nýja félaginu. Er það undantekning frá almennum reglum hlutafélagalaga. Enda þótt ríkissjóður verði eigandi allra hlutabréfa félagsins við stofnun þess er fyrirhugað að selja öðrum hluti og jafnvel öll hlutabréfin í félaginu. Meta þarf sérstaklega hvenær aðstæður eru ákjósanlegar til sölu áður en ákvörðun verður tekin þar um. Skal við söluna stefnt að dreifðri hlutafjáreign. Jafnframt verði við söluna sérstaklega horft til þeirra starfsmanna Ríkismats sjávarafurða sem verða í starfi við stofnun hlutafélagsins og er heimilt á fyrsta starfsári félagsins að gefa þeim kost á að kaupa ákveðið hlutfall af hlutafé á sérstökum kjörum.
    Loks vík ég að frv. til laga um breytingar á Fiskistofu en eins og kunnugt er voru samþykkt ný lög um Fiskistofu á vorþinginu en þar sem frv. til laga um meðferð sjávarafla var ekki fullrætt og afgreitt var fellt út úr því frv. ákvæði um að hluti verkefna Ríkismats sjávarafurða flyttist yfir til Fiskistofunnar. Þar sem frv. til laga um meðferð sjávarafurða hefur verið að nýju lagt fyrir þingið og er hér til umræðu er með þessu frv. lagt til í samræmi við þær skipulagsbreytingar sem ráðgerðar eru að Fiskistofan taki við þessu hlutverki um næstu áramót eins og upphaflega var ráð fyrir gert.
    Frú forseti. Ég hef þá í öllum aðalatriðum gert grein fyrir efnisatriðum þessara þriggja frumvarpa sem öll eru nátengd og fela í sér heildarskipulagsbreytingu á þessum viðfangsefnum í samræmi við þær kröfur sem við verðum nú að uppfylla gagnvart helstu markaðsaðilum okkar í Evrópubandalaginu og á Bandaríkjamarkaði.
    Ég legg svo til, frú forseti, að þessum frumvörpum verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.