Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 14:32:21 (720)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er þrennt sem mér finnst skipta mestu máli í sambandi við umræðuna um frumvörpin. Í fyrsta lagi held ég að enginn efist um að inn á milli í frumvörpunum eru ljómandi góð ákvæði sem engin þörf er á að tengja inn aðild að EES. Ef við viljum gera endurbætur á okkar lögum og reglugerðum getum við að sjálfsögðu gert það og þurfum ekki allan þennan tilbúnað í kring. Í öðru lagi er það sem síðasti hv. ræðumaður vakti máls á en að mínu mati höfum við ekki enn fengið þeim vafa eytt hvort þetta kerfi muni reynast fullnægjandi gagnvart viðskiptaaðilum okkar. Hér eru afskaplega miklir hagsmunir í húfi og við verðum að taka af öll tvímæli áður en við hleypum nokkru í gegn sem getur stefnt viðskiptahagsmunum okkar í voða.
    Vikið var að því að búið væri að eyða þessum efa gagnvart Evrópubandalaginu. Ég er nú á því að það sé alla vega búið að draga mjög úr honum frá þeim upplýsingum sem við fengum í vor en ég get ekki tekið svo djúpt í árinni að halda að öllum efa hafi verið eytt. Þótt það komi fram í gögnum sem við höfum frá þeim sem fóru á fund Evrópubandalagsþjóðanna að innan Evrópubandalagsins sé nokkur áhugi á þeirri nýjung sem kemur fram í frumvarpinu, að einkaaðilar, sjái um hluta af eftirlitinu og það dugi að hafa opinberan eftirlitsaðila, sem í þessu tilviki er Fiskistofa, þá held ég að fyrr en þetta kerfi er í smáatriðum útfært sé ekki hægt að taka af allan vafa um hvort þetta verður talið fullnægjandi eftirlit af hálfu opinberra aðila. Ákveðnar efasemdir koma í hugann þegar maður lítur t.d. á umsögn Ríkismats sjávarafurða og ég bið menn að líta ekki svo á að það sé endilega verið að verja þar einhverja hagsmuni heldur hlusta á með opnum huga þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með skoðunarstofum verður ekki lengur um að ræða beint samband milli framleiðenda og opinberra aðila eins og nú er. Að mati stofnunarinnar getur þetta ekki talist fullnægjandi. Verið er að byggja upp flóknara kerfi og stjórnunarlega mun erfiðara og dýrara fyrirkomulag en þörf er á að fyrirtæki uppfylli kröfur um almennt.``
    Síðan kemur það sem hv. síðasti ræðumaður vísaði til, en það er stutt þannig að ég ætla að endurtaka það:
    ,,Óvíst er hvort yfirvöld Evrópubandalagsins vegna samninganna um Evrópskt efnahagssvæði, EES, og Bandaríkjanna, vegna þá HACCP-kerfisins, telji íslenska eftirlitskerfið fullnægjandi miðað við frv. [þ.e. skoðunarstofur], en höfuðatriðið hlýtur að vera trúverðugleiki kerfisins. Í almennum athugasemdum með frv. kemur fram að við samningu þess hafi verið höfð hliðsjón af kanadískum lögum um fiskmat og útkomnum tilskipunum EB og framkomnum tillögum Bandaríkjamanna um sama efni. Í þessum gögnum er

þó hvergi minnst á þann möguleika að fela einkaaðilum opinbert eftirlit eða hluta þess.``
    Ég held að við verðum að líta á þetta nánar. Þetta var annað atriðið sem ég vildi vekja athygli á. Ég er raunar með þá umsögn sem hv. síðasti ræðumaður vísaði til frá yfirdýralækni og held að ég bæti þá við þeirri tilvitnun sem ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að vísa til en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Það er spurning hvort hér ætti ekki frekar að vera heimildarákvæði til handa Fiskistofu um skyldu fyrirtækja til að hafa samning við vottunarstofu þegar innra eftirlit viðkomandi fyrirtækis er ófullkomið, en ekki lagaskyldu til að bæta við milliliðaeftirliti, a.m.k. þangað til frekari reynsla hefur fengist á eftirlitsþáttinn. Það eru skiptar skoðanir innan EB og í Bandaríkjunum hvort opinber yfirvöld geti framselt vottorðagjöf til hlutafélaga eða einkafyrirtækja þó að opinbera eftirlitið fari fram á þeirra vegum og þá sérstaklega hvað snertir upprunavottorðið.``
    Ég bendi á þetta og mun hafa aðstöðu til þess innan sjútvn. að skoða þetta. Ég vonast til þess að það verði gert á þann vandaða hátt sem sjútvn. hefur oft á tíðum borið gæfu til að vinna og að fordómalaust verði litið á kosti og galla. Ég lýsi mig alla vega fúsa til þess.
    Í þriðja lagi vek ég athygli á einu sem hefur komið upp í nefndinni og það er að inn í 2. gr. frv. til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra er komið nýtt orð sem kannski lætur ekki mikið yfir sér, en það er ,,ferskvatnsdýrum``. Upphaf þessarar greinar hljómar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sjávarafli telst samkvæmt lögum þessum öll sjávar- og ferskvatnsdýr önnur en spendýr, . . .  `` þar kemur svo upptalning sem á ekki erindi í þessa umræðu.
    Ég vek athygli á þessu, ekki vegna þess að ég sé að mæla gegn því heldur ætla ég að benda á, ég á eftir að skoða þetta nánar og ætla ekki að taka afstöðu hér og nú, að hér er verið að taka ferskvatnsdýr og ég hlýt að spyrja hvernig t.d. fiskeldi verði meðhöndlað sem hefur heyrt undir landbúnað fram til þessa. Ég veit að það eru mjög skiptar skoðanir um hvar vista eigi fiskeldið og þar sem ég hef trú á að það muni rísa upp aftur held ég að við þurfum að svara þessari spurningu. Við hljótum að að gera athugasemd þegar við rekum augun í svona nýjungar og spyrja hvar skilin á milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis séu. Ég segi þetta ekki síst vegna þess að við virðumst vera að stefna inn í mun meiri aðlögun að reglum Evrópubandalagsins en ég tel æskilegt. Þar hefur sjávarútvegur yfirleitt verið vistaður sem einhver smá angi af landbúnaði og þetta finnst mér algjörlega óviðunandi. Ég verð að viðurkenna að það snerti mig dálítið illa þegar ég hitti fulltrúa úr norsku sjávarútvegsnefndinni í vor. Norðmenn eða norsk stjórnvöld stefna sem kunnugt er hraðbyri inn í Evrópubandalagið um EES-dyrnar, eins og sumir vilja að við gerum líka, ég er svo sannarlega ekki ein þeirra, og þeir standa frammi fyrir því að í Noregi á að leggja niður sjávarútvegsnefnd þingsins ef það er ekki þegar búið að því. Það var alla vega stutt eftir af lífdögum þeirrar ágætu nefndar.
    Þessi eru örlög sjávarútvegsnefndar norska Stórþingsins og ég held að ef sjávarútvegurinn skipti okkur einhverju þá ættum við ekki að ganga of langt í aðlögun. Umræðan um ferskvatnsdýr og skilin milli sjútvrn. og landbrn. gefur bara tilefni til þessarar umræðu. Ég er ekki að hafa á móti því að sjútvrn. hafi með sem flest að gera sem á málasviði þess er. Ég vona að aðlögunin verði ekki sú að sjávarútvegurinn, okkar stóra útflutningsgrein, fari að verða eitthvert viðhengi í anda Evrópubandalagsins í landbrn. Þá held ég að okkur væri nú illa brugðið.