Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:21:32 (724)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir álit sitt á mér sem hann gaf upp varðandi atvinnurekstur ( Gripið fram í: Frjálslyndi.) Frjálslyndi. Ég veit satt að segja ekki hvort ég á að telja það komplíment eða ekki en ég kýs samt að líta á það þannig a.m.k. af hálfu þingmannsins. Í mínum huga er meginatriðið hvert markmiðið er, hverju menn vilja ná fram. Hvort hlutirnir eru í formi hlutafélags eða öðru er form. Formið skiptir í mínum huga minna máli en efnið og ég rakti það að ég teldi að það sem mestu máli skipti varðandi þessi frv. væri að menn tryggðu fyllilega gagnvart erlendum kaupendum traust okkar á þeim stofnunum sem gefa út vottorðið. Ef það er þannig frá gengið að traustið sé fyrir hendi er ég ekkert sérstaklega andvígur því að menn hafi það form að hlutirnir heiti hlutafélög. En þar tek ég afstöðu til máls í hverju tilviki fyrir sig og í þessu tilviki er ég ekki endilega að útiloka þann möguleika og tel hann fyllilega umræðuverðan.