Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 15:38:08 (729)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 17. þm. Reykv. byrjaði á því að segja að þessi mál væru ekki flokkspólitísk. Ég dreg það mjög í efa. Ég held að einkavæðingarhugmyndirnar inni í þessu séu komnar frá Sjálfstfl. og það hafi verið meðal annarra bita sem Alþfl. þurfti að svelgja, að koma þessari einkavæðingu inn í eftirlit með sjávarafurðum. Ég tel þess vegna að þetta mál sé flokkspólitískt.
    Svo nefndi hann það að auðvitað eigi Fiskistofan að hafa eftirlit með þessum fyrirtækjum. Vitanlega er það þannig og það var nákvæmlega það sem ég var að segja, að þetta verður auðvitað tvöfalt eftirlitskerfi vegna þess að annars er ekkert að marka þetta. Fiskistofa verður að hafa gott eftirlit með þessu og hún verður að hafa miklu betra eftirlit með þessum hlutum en Ríkismatið hefur nú. Ríkismatið hefur enga burði til þess í dag að fylgja eftir eftirliti. Þar neyðast menn til þess að stimpla skjölin án þess að skoða hvað er á bak við þau og hafa ekki hugmynd um það. Það þyrfti að taka á þeim málum frekar en að gleyma sér í einkavæðingaræðinu áður en hægt er að koma á einhverju kerfi sem er markvisst og hægt er að taka mark á og sem við getum kinnroðalaust borið fulla ábyrgð á gagnvart okkar kaupendum erlendis.