Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:01:15 (734)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Hér hefur ráðherrann veitt greiðari svör en við höfum átt að venjast á þessu þingi af hendi annarra ráðherra í því máli sem að allra dómi er stærsta og veigamesta mál sem þjóðin hefur fengið til úrlausnar frá lýðveldisstofnun. En það er önnur saga.
    Ég vil skilja svör hæstv. sjútvrh. þannig varðandi síldarmat að það sé rétt að áform séu um að leggja niður opinbert síldarmat. Það er í mínum huga töluvert áhyggjuefni og ég er ekki jafntrúaður og hæstv. ráðherra á að frv. breyti engu um möguleika okkar til sölu síldar í framtíðinni.
    Ég vildi gjarnan spyrja nánar um dreifða hlutafjáreign. Það kom fram í svari ráðherra að það þýddi að yfirráð geti verið í höndum fleiri aðila. Ég vil spyrja hvort ráðherrann hafi í huga að setja hámark á eignarhluta hvers einstaks aðila.
    Ég vil andmæla að nokkru leyti skilningi ráðherra á vanhæfni nefndarmanns í málskotsnefnd í frv. um meðferð sjávarafurða. Það er tekið fram í 21. gr. varðandi hana þar sem fjallað er um vanhæfni að ráðherra setji nefndinni starfsreglur. Auðvitað er það á valdi ráðherra að útfæra lagatextann. Ég vakti athygli á því að lagatextinn væri óljós þar sem stendur ,,ef hann er fjárhagslega háður málsaðila``. Einhver verður að meta ákvæðið og það getur enginn annar en ráðherra.
    Ég hygg að ráðherra hafi svarað flestu því sem ég beindi til hans. (Forseti hringir.) Ég heyri að klukkan glymur svo ég læt máli mínu lokið.