Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:03:17 (735)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það liggur alveg í augum uppi að ráðherra getur ekki með starfsreglum breytt skýrum ákvæðum laganna um vanhæfi nefndarmanna. Það verður fylgt fram opinberu eftirliti gagnvart framleiðslu á síldarafurðum eins og á öðrum afurðum. Ég tel að í þeim efnum sé ekkert að óttast nema síður sé. Við erum að stíga framfaraspor í þessu efni.
    Varðandi spurninguna um dreifða eignaraðild þá liggur það ekki fyrir í frv. með hvaða hætti það verður tryggt. Það verða menn auðvitað að meta að einhverju leyti með tilliti til markaðsaðstæðna þegar þar að kemur. Það er ekki gert ráð fyrir því að menn þurfi að hlaupa í það þegar í stað að selja eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Það verður að meta hvenær það er skynsamlegt miðað við stöðu fyrirtækis og markaðsaðstæður og á þeim tíma verða menn að taka ákvarðanir þar að lútandi. Hér er um að ræða mjög skýra stefnumörkun og ætlunin er að tryggja að eignaraðildin verði dreifð.