Ríkismat sjávarafurða

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 16:09:45 (739)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Að því er varðar viðræður við bandarísk og kanadísk stjórnvöld þá hafa þær ekki farið fram með þeim formlega hætti sem átti sér stað við fulltrúa sjávarútvegsdeildar Evrópubandalagsins. Ég tel að ákvæði frv. fullnægi þeim nýju kröfum sem gerðar eru á þessum mörkuðum og við getum á grundvelli þeirra lagaákvæða selt inn á þá markaði á grundvelli þeirrar kröfu sem þar er gerð. Að því er varðar fjölda starfsmanna sem mun flytjast frá Ríkismatinu yfir til Fiskistofu hefur ekki verið tekin endanlega ákvörðun um það enn. Það liggur hins vegar fyrir að það verða færri starfsmenn sem sinna þessum málum í Fiskistofu en í Ríkismatinu enda er ætlunin að reka það fyrirtæki áfram þó að það verði með nýju hlutverki. Ég geri ráð fyrir því að sérþekking margra þeirra sem þar vinna muni nýtast vel í þeirra störfum.
    Um þriðja þáttinn í fyrirspurn hv. þm. verð ég að segja að um það hafa ekki farið fram neinar umræður en ég geri ráð fyrir því, að gefnu þessu tilefni, að það komi til skoðunar í hv. þingnefnd.