Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:02:28 (760)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í sama leik og hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson og reyna að finnna einhverjar villur í einhverjum ótilgreindum skrípamyndum. Ég lít ekki svo á að ræða hennar hafi verið neitt skrípi en hins vegar hjó ég eftir því að þingmaðurinn var að ræða afkomuþróun hjá frystitogurum og nefndi það svo m.a. til þess að skýra aðstöðumun þeirra og fiskvinnslunnar í landi að líta mætti svo á að sjómannaafsláttur væri í rauninni niðurgreiðsla á fiskvinnslu úti á sjó. Ég vildi þá gjarnan fá upplýst hvort það sé stefna Kvennalistans að afnema sjómannaafsláttinn eða hvort það sé einungis stefna Kvennalistans að afnema sjómannaafsláttinn varðandi þá sem starfa á frystitogurum.