Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:37:27 (765)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. vék í upphafi málsins að þeirri athugasemd sem ég gerði í lok framsöguræðu síðari málflytjanda. Hér liggja fyrir tvö frumvörp frá stjórnarandstöðuflokkunum. Sú athugasemd sem ég gerði þá og hv. þm. vék að fól ekki á nokkurn hátt í sér afstöðu af minni hálfu til þessara frumvarpa. Ég var einungis að greina þinginu frá staðreyndum um stöðu þessara mála vegna þess að þær staðreyndir hafa áhrif á umræðuna og þá möguleika sem frumvörpin gera ráð fyrir. Ég taldi mér rétt og skylt strax í upphafi umræðunnar að gera þá athugasemd til þess að þinginu væri það ljóst.
    Það er vissulega svo að um þessi efni geta menn haft ólíkar skoðanir. Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír sem standa hér að tveimur frumvörpum hafa nokkuð deilt um það hvernig að þessum málum eigi að standa eða hefði átt að standa, kannski meira af formsástæðum en efnisástæðum. Vissulega var það svo að einnig innan ríkisstjórnarinnar voru skiptar skoðanir um þetta efni.
    Menn voru almennt sammála um það þegar ákvörðun var tekin um heildarafla fyrir þetta fiskveiðiár að mikilvægt væri að grípa til aðgerða í því skyni að jafna það áfall sem þeir hafa orðið fyrir sem voru háðastir þorski. Ég hygg að hvergi hafi verið alvarlegur ágreiningur um þetta meginsjónarmið. Ég hef ekki farið dult með það og fór ekki dult með það og get ekki farið dult með það að mín skoðun var sú að einfaldasta leiðin til þess að leysa þetta mál hefði verið sú að nota aflaheimildir Hagræðingarsjóðs eins og þær hafa verið notaðar fyrrum við svipaðar aðstæður. Innan fiskveiðistjórnunarkerfisins var þetta eini framkvæmanlegi möguleikinn og vissulega sá einfaldasti. Um þetta voru skiptar skoðanir og það er alveg rétt hjá hv. þm. að skoðanir mínar urðu í minni hluta innan hæstv. ríkisstjórnar og nutu þar ekki meirihlutafylgis. Þar varð niðurstaðan sú að óska eftir því við Byggðastofnun að leggja fram tillögur til þess að mæta því sjónarmiði sem flestir voru sammála um að jafna það áfall sem þarna hafði orðið hjá þeim sem misstu mestar aflaheimildir í þorski. Meginatriðið var auðvitað það að aðgerðir yrðu gerðar í þessu efni og vitaskuld gátu menn haft á því skiptar skoðanir hvaða leiðir væru heppilegastar. Ég hafði mína skoðun og

hef hana enn þó að hún hafi orðið í minni hluta. Það er svo lagaskylda þeirra stjórnvalda sem fara með framkvæmd þessara mála að annast hana eins og gildandi lög mæla fyrir um. Þau bjóða að aflaheimildirnar skuli boðnar með forkaupsrétti þegar í upphafi nýs fiskveiðiárs. Ég tel því að stjórn Hagræðingarsjóðs hafi í einu og öllu unnið í samræmi við gildandi lög þegar hún tók ákvarðanir sínar í dag. En um leið og sú ákvörðun hefur formlega verið tekin að bjóða kvótahöfum forkaupsrétt samkvæmt lögunum verður ekki snúið til baka á þessu fiskveiðiári. Þær ráðagerðir sem þessi frumvörp mæla fyrir um að því er varðar þetta fiskveiðiár geta ekki náð fram að ganga eftir að þessi ákvörðun hefur verið tekin. Þetta vildi ég láta koma fram í þeirri athugasemd sem ég gerði hér í upphafi.
    Hv. 11. þm. Reykv. fór svo mörgum orðum um þær ákvarðanir sem hann taldi að hefðu verið teknar um aðrar leiðir í þessu efni. Hið sanna og rétta í því er að Byggðastofnun skilaði inn til ríkisstjórnar frumhugmynd að því hvernig mætti taka á þessu máli. Sú frumhugmynd var kynnt í ríkisstjórn og rædd í mjög skamma stund og þeirri umræðu er enn ekki lokið. Byggðastofnun hafði ekkert samráð við sjútvrn. um mótun þessara hugmynda og ég get ekki sagt þinginu neinar fréttir af gangi þeirra mála. Ég hef ekki haft af því neinar spurnir frá því að þessar grunnhugmyndir voru lagðar fram en þær fólu ekki í sér neinar endanlegar tillögur af hálfu Byggðastofnunar vegna þess að þar var ekki að finna neinar tillögur um það hvernig fjármagna ætti aðgerð af þessu tagi. Á hinn bóginn birtist í Morgunblaðinu frétt um það að að baki hugmyndum Byggðastofnunar væru ákveðnar hugmyndir um fjáröflun en frá Byggðastofnun hef ég ekki heyrt neitt meira um það en fram kom í téðri Morgunblaðsfrétt.
    Hv. þm. vék svo að þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaga. Það er vissulega svo. Ég held að aldrei hafi staðið til að leysa vanda sjávarútvegsins í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna. Sannleikurinn er sá að sjávarútvegurinn er uppspretta verðmætasköpunar í þessu þjóðfélagi en ekki ríkissjóður. Það sem við gerum í opinberum rekstri og opinberri þjónustu á að stærstum hluta til rætur að rekja til verðmætasköpunar í sjávarútvegi þannig að við höldum ekki sjávarútveginum gangandi á ríkisframfærslu. Þvert á móti hlýtur það að verða svo um langa framtíð að sjávarútvegurinn stendur undir og hlýtur að standa undir almennum lífskjörum fólksins í landinu og þeim verðmætum sem ríkið hefur úr að spila á hverjum tíma. Þess vegna hef ég aldrei litið svo á að ráðstafanir til þess að leiðrétta rekstrarstöðu sjávarútvegsins gætu verið þáttur í lokaafgreiðslu ríkisstjórnar við að loka fjárlagagatinu og ég furða mig á ef einhverjir hv. þm. hafa litið svo á. Ríkisstjórnin hefur í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaga tekið mjög myndarlega ákvörðun um að auka opinberar framkvæmdir, framkvæmdir sem ríkið hefur með að gera, einkanlega í vegamálum og að því er varðar opinberar byggingar vegna þeirrar sérstöku stöðu sem uppi er. Það er alkunna að þegar svo stendur á sem nú gerir í okkar þjóðfélagi er talið eðlilegt að grípa til slíkra aðgerða og ég vona að þær leiði til farsældar og styrki íslenskan þjóðarbúskap. Við erum að flýta framkvæmdum sem við hefðum sjálfsagt ráðist í síðar með aðgerðum af þessu tagi.
    Það liggur svo alveg ljóst fyrir að sjávarútvegurinn á við gríðarlegan rekstrarvanda að etja og menn komast ekkert hjá því að taka á því viðfangsefni. Hins vegar er alveg kórrétt sem hv. 1. þm. Austurl. sagði í upphafsræðu sinni að það er ekkert einfalt verk og það eru ekki einfaldar lausnir sem menn geta gripið til og galdrað fram eins og í hókus pókus leikhúsi og sagt að nú sé allt í lagi. En við búum auðvitað ekkert í þessu þjóðfélagi nema taka á þessu viðfangsefni. Það sem ríkisstjórnin hefur á liðnum 12 mánuðum gert í þessu efni er fyrst og fremst það að ég beitti mér fyrir því að lánum Atvinnuleysistryggingasjóðs var framlengt, afborgunum af lánum sjávarútvegsfyrirtækja hjá sjóðnum var frestað um tvö ár og ég beitti mér einnig fyrir því að sams konar fyrirgreiðsla yrði veitt á vegum Fiskveiðasjóðs. Um hvort tveggja var góð og traust samstaða í ríkisstjórninni og þessar ákvarðanir hafa komið til framkvæmda.
    Þá var augljóst mál þegar dró að lokum síðasta árs að óhjákvæmilegt væri að stöðva inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og lagafrv. af minni hálfu þar um var samþykkt á sínum tíma í þinginu.
    Ég taldi einnig nauðsynlegt undir vor að grípa til enn frekari aðgerða til þess að halda mætti áfram með skaplegum hætti rekstri sjávarútvegsins fram eftir þessu ári og um það tókst mjög góð samstaða að greiða út innstæður í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Það er vissulega rétt sem hér kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. að þar voru innstæður sem eiga rætur að rekja til endurreisnar þessa sjóðs. Ég skal fyllilega játa að þegar þær ákvarðanir voru teknar hér hafði ég efasemdir um hvort rétt væri að beita verðjöfnunarsjóðum af þessu tagi og ég er í sjálfu sér enn þeirrar skoðunar að það sé mjög erfitt í framkvæmd og í raun hafi það komið í ljós sl. vor að rekstraraðstæður í sjávarútveginum séu jafnan með þeim hætti að erfitt sé að halda út slíkum sjóði. Taprekstur getur myndast þó að verð á erlendum mörkuðum sé hátt. Þá verða menn að grípa til ráðstafana af því tagi sem við gerðum í vor sem leið. En hvað sem líður almennum sjónarmiðum af því tagi er því ekkert að leyna að fyrir þá sök að þetta var gert, þegar verð var í hámarki og staða greinarinnar bærileg, var þessi innstæða fyrir hendi og hún hefur gert það að verkum að það hefur verið unnt að halda áfram rekstri flestra fyrirtækja í sjávarútvegi og verður af þessum sökum hægt að halda áfram um sinn. En hitt er alveg ljóst að rekstraraðstæðurnar hafa breyst og því þurfa menn enn á ný að takast á við þetta viðfangsefni. Sá vandi er ærinn og þar hljóta að koma til ýmis ráð og margar

leiðir sem menn verða að grípa til. Hv. 11. þm. Reykv. minntist á einn þátt sem er vissulega alvarlegt íhugunarefni. Það er sú staðreynd að skuldir sjávarútvegsins eru á þann veg að sjávarútveginum er gert að greiða þær upp á mjög skömmum tíma. Þetta eru skuldir til mjög skamms tíma og það eru vissulega gild rök fyrir því að sjávarútvegurinn þurfi mun lengri tíma til að greiða þessar miklu skuldir. Það er eitt af þeim atriðum sem menn hljóta að þurfa að horfa á þegar að þessu verkefni kemur. Um leið þurfa menn að huga að stöðu þeirra lánastofnana sem hér eiga helst hlut að máli því á miklu veltur að þær hafi burði til að takast á við þetta verkefni.
    Ég ítreka og ég vona að ekki sé ágreiningur milli mín og hv. 11. þm. Reykv. að það væri varla eðlilegt að aðgerðir af þessu tagi væru hluti af lokaafgreiðslu fjárlaga jafnvel þótt menn tækju við slíkar aðstæður ákvarðanir um að auka mjög myndarlega framlög til opinberra framkvæmda af ýmsu tagi vegna þess atvinnuástands sem verið hefur. Ég þykist alveg sannfærður um að hér á Alþingi ríkir víðtækur skilningur á því mikilvæga verkefni að taka á rekstrarvanda sjávarútvegsins og að þingið muni greiða fyrir sérhverjum þeim leiðum sem til heilla horfa í því efni þegar þar að kemur.