Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 21:53:55 (766)

     Flm. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði orðrétt við umræðuna: ,,Mér sýnist þess vegna að þessi frumvörp fái engu um þá stöðu breytt sem hér er komin upp á þessu fiskveiðiári.``
    Það var ekki hægt að skilja hæstv. sjútvrh. öðruvísi en það væri ekki rétt fyrir þingið að eyða neinum tíma í þetta. Það var búið að ákveða að gera ekki nokkurn skapaðan hlut í málinu. Mér skilst að stjórn Hagræðingarsjóðs hafi ákveðið að veita fiskiskipum forkaupsrétt í samræmi við núgildandi lög þrátt fyrir það að frv. um breytingar liggi fyrir þinginu nú, þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir að hún ætli að grípa til ráðstafana í þessu sambandi. Stjórn sjóðsins veit ekki hver afdrif þessara frv. verður og stjórn sjóðsins hefur engar upplýsingar um frekar en hæstv. sjútvrh. hvað Byggðastofnun og hæstv. forsrh. ætla að gera í þessu efni. Það væri lágmark af stjórninni að bíða með slíkar ákvarðanir þar til annaðhvort liggur fyrir hvað Alþingi gerir eða það liggur fyrir hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.
    Að mínu mati getur stjórnin ekki tekið slíka ákvörðun og ég á ekki von á því að þótt hún hafi verið tekin hafi nokkurt bréf verið sent út. Ég trúi því vart að þeir sem sitja í stjórn Hagræðingarsjóðs og stjórn Fiskveiðasjóðs ætli að sýna það geðleysi að senda slík bréf út án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Við hljótum jafnframt að krefjast þess að hæstv. forsrh. sýni þinginu þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna og hlusta á það sem hér fer fram. Það hefur verið upplýst af hæstv. sjútvrh. að hann viti ekki hvað forsrh. er að gera. Það veit enginn hvað hann ætlast fyrir í þessu máli og þetta mál er greinilega í hans höndum. Ég geri þá kröfu, hæstv. forseti, að forsrh. verði þegar kallaður til því það er tilgangslaust að halda áfram með þessa umræðu nema hann sé hér því hæstv. sjútvrh. getur engin svör veitt.