Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:00:40 (771)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Hér hafa fallið mjög alvarleg orð og mikil tíðindi orðið að mínu mati. Ég tel að það sé í fyrsta lagi óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. komi til fundar og tek undir óskir hv. 1. þm. Austurl. um það. Það er helst svo að skilja á hæstv. sjútvrh. að forsrh. fari nú með meiri hlutann af sjávarútvegsmálum í þessu ráðuneyti. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa fagráðherrann hér á fundinum.
    Í öðru lagi vil ég láta þá skoðun mína koma fram að það er óhjákvæmilegt að sjútvn. Alþingis hittist strax í fyrramálið og taki þetta mál fyrir af þeirri einföldu ástæðu að meiri hluti sjútvn. Alþingis gerði sérstaka samþykkt í sumar sem ég vænti að a.m.k. hv. formaður og varaformaður þeirrar nefndar muni eftir. Ég var á þeim fundi og það var skilningur minn að þeim tilmælum ætti að beina til hæstv. ríkisstjórnar að engum dyrum yrði lokað varðandi ráðstöfun á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs fyrr en niðurstaða væri fengin í þetta mál, bæði hvað varðar vinnu Byggðastofnunar og eins þær hugmyndir sem vitað var að fjölmargir þingmenn, úr stjórnarandstöðu að sjálfsögðu og líka stjórnarliðar, höfðu um að nauðsynlegt gæti verið að sjútvn. eða Alþingi sjálft tæki á þessu máli. Mér býður í grun að það sé a.m.k. skoðun formanns hv. sjútvn. að til þess geti komið, ef ríkisstjórn kemur ekki með neitt sem að gagni má verða, að sjútvn. og Alþingi verði sjálft að taka á málunum. Það þarf að fá hér samþykktina frá því í sumar og lesa hana upp í umræðunni svo menn átti sig á því samhengi.
    Hæstv. sjútvrh. upplýsir að engin niðurstaða sé fengin í þetta mál af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég tek undir að það er engin knýjandi nauðsyn, það liggja engar haldbærar lagaskýringar frammi gagnvart því að stjórn Hagræðingarsjóðs eða Fiskveiðasjóðs hafi orðið að taka þessa ákvörðun í dag, sama dag og þessi frv. koma til umræðu á Alþingi. Alþingi getur að sjálfsögðu breytt þessum lögum. ( Forseti: Ég verð að tilkynna hv. þm. að ræðutíma hans er lokið.) Þá lýkur ræðumaður máli sínu, hæstv. forseti, en ég ítreka óskir mínar sem voru jafnframt óskir hv. 1. þm. Austurl. um að forsrh. verði kallaður tafarlaust hér til umræðunnar.