Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:04:41 (774)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Ég held það verði að fást upp dregið eitthvert línurit af hinni nýju verkaskiptingu innan Stjórnarráðs lýðveldisins sem hér er í raun bersýnilega í gangi í ríkisstjórninni. Það féllu jafnframt mjög merkileg ummæli áðan hjá hæstv. sjútvrh. á þá leið að Alþingi hefði ekki haft ráðrúm enn til að taka á þessum málum og átti þá væntanlega við þau frv. sem hér liggja fyrir. Nú förum við fram á það, hæstv. sjútvrh., að það ráðrúm verði skapað. Ég fer fram á það við hæstv. sjútvrh. að hann hafi tafarlaust í fyrrmálið samband við stjórn Hagræðingarsjóðs og óski eftir því að hún aðhafist ekkert út þessa viku svo Alþingi geti tekið þetta mál fyrir í fagnefnd og þess vegna afgreitt það ef svo ber undir hér fyrir vikulokin. Það væri vandræðalaust, tæknilega séð, að ljúka umfjöllun um þetta og setja hér ný lög sem tækju á þessu máli og afgreiddu það fyrir helgi ef vilji er til. Það er augljóst mál að stjórn Hagræðingarsjóðs mun ekki telja sig seka gagnvart því að framkvæma ekki lögin ef hún fær tilmæli frá hæstv. sjútvrh. með vitund Alþingis um að bíða með þetta í nokkra daga.