Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:06:19 (776)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það að ég lýsi eftir hæstv. forsrh. Þótt ég sakni skoðana hans ekki úr þessari umræðu hafa þær legið hér eins og þung mara yfir henni og eiginlega hamlað okkur töluvert.
    Ég vil jafnframt benda á það að ef völdin í þessu máli liggja hjá sjútvrh. er nú ráðrúm til þess að sýna það. Enn hafa engin bréf farið frá stjórn Fiskveiðasjóðs svo nú reynir á að sýna það að hægt sé að taka ákvörðun. Ég bendi jafnframt á það að þingmenn, og það á líka við um ráðherra, eru aðeins bundnir af samvisku sinni. Við höfum heyrt hæstv. sjútvrh. benda á í fyrsta lagi að ríkisstjórnin hafi ekki komið með nein úrræði. Í öðru lagi að hann sé sammála hugmyndum okkar sem viljum nýta Hagræðingarsjóð á þann hátt sem hefur komið fram í umræðunni. Í þriðja lagi að hann hafi stutt okkur í fleiri hugmyndum og nefni ég þá Verðjöfnunarsjóð og átt samstöðu með okkur. Ég hlýt að draga þá ályktun að hann standi með okkur. Ég bið um staðfestingu á því og okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði ef svo er vegna þess að hér átti ég von á að yrði breið samstaða og ég get ekki séð annað en að hún geti orðið það.