Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:52:49 (792)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst bera mjög á því í máli stjórnarandstöðunnar í kvöld að hún hafi ofurtrú á ríkisstjórninni. Mér fannst það í máli hv. þm. Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur áðan. Það var eins og hún ætlaðist til þess að ríkisstjórnin ein og sér mundi leysa sjávarútveginn með einu handbragði undan öllum þeim skuldaklyfjum sem á hann hafa verið lagðar síðasta áratug. Það er auðvitað ekki hægt að fara fram á slíkt.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson kemur hér sömuleiðis og það liggur við að hann sé að biðja ríkisstjórnina um að draga dauðar kanínur upp úr hatti. Ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi en svo að hann væri í rauninni að bera á móti því að minnkandi afli hefði haft afdrifaríkar afleiðingar og úrslitaþýðingu fyrir sjávarútveginn. Ég vil geta þess að í dag fékk ég svar við spurningu sem ég beindi til Þjóðhagsstofnunar og þar kemur fram að botnfiskafli hefur dregist saman um þriggja ára skeið og það veldur því að afkoma veiðanna hefur rýrnað um 8--9%. Þarf frekari vitnanna við? Hann getur svo haldið áfram ( Forseti: Ég verð að benda hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.) þeirri iðju sinni að biðja menn að draga dauðar kanínur og önnur dýr upp úr höttum ríkisstjórnarinnar.