Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 23:14:31 (795)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég var hér í hliðarsal og mér hafði verið tjáð að annar maður væri á undan mér á mælendaskrá en að sjálfsögðu bregst ég vel við því að fá orðið nú og óska eftir að hæstv. sjútvrh. verði hér nærstaddur, sem hann og er, og þá einnig hæstv. forsrh. sem hér var sérstaklega óskað eftir að kæmi til umræðunnar af tilteknum ástæðum áðan.
    Ég held að vænlegast sé að víkja fyrst að því sem bar á góma undir umræðum fyrr í kvöld og þá sérstaklega eftir að hæstv. sjútvrh. hafði talað og er auðvitað kjarnaatriði þessa máls, það er staðan eins og hún er í augnablikinu varðandi ráðstöfun á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs á þessu nýbyrjaða fiskveiðiári. Það eru ekki ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. forsrh. hefur verkstjórn fyrir samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið um verkaskiptingu ráðherra í Stjórnarráðinu hvað þetta mál snertir. --- Herra forseti, ég verð eiginlega að bíða með að fara yfir þetta frekar þangað til hæstv. forsrh. er við af því ég vil gjarnan leggja fyrir hann spurningar og að hann heyri hér mál mitt. ( Forseti: Við höfum nægan tíma ef hv. þm. mundi hafa biðlund augnablik.) Þingmaður hefur það. Ég reyndar vildi byrja á að rifja örlítið upp þau viðfangsefni sem við erum hér að tala um, þ.e. málefni Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins og hvernig við þau var skilið á hinu háa Alþingi á sl. vetri og sl. þingi. Ég held að það megi vera okkur hv. þm. nokkurt umhugsunarefni hvort stundum sé ekki betra að fara örlítið hægar í sakirnar og vanda sig í vinnubrögðum, hæstv. forseti, hvernig nú er komið með málefni Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, m.a. í ljósi þeirra umræðna sem urðu um hann á sl. þingi.
    Herra forseti. Þetta er nú svona dálítið á rúi og stúi hjá okkur í kvöld og t.d. tolla hæstv. ráðherrar illa í þingsalnum og það er nú miklu skemmtilegra ef menn hafa . . .  ( Forseti: Ég get tekið heils hugar undir það með hv. þm. að hv. þm. tolla ekki mjög vel í salnum. En ég á von á því að hæstv. forsrh. sé að koma í salinn núna.) Það eru líklega þrír menn sem hafa talað eða ekki talað enn þá í umræðunni sem ég vildi gjarnan óska eftir að væru hér innan veggja þingsalarins, það er mun huggulegra að eiga við þá orðaskipti þannig, og fyrir utan þá tvo hæstv. ráðherra sem hafa verið nefndir þá er það líka hv. 17. þm. Reykv. sem hefur haft uppi nokkrar skoðanir hér á málum og verið rúmfrekur í umræðunni. En það er held ég nauðsynlegt að hæstv. forsrh. fái vitneskju um þau orðaskipti sem urðu fyrr í kvöld og urðu tilefni til þess að óskað var sérstaklega eftir að hann kæmi á fundinn. En þau voru í grófum dráttum á þá leið að hæstv. sjútvrh. lýsti þeirri skoðun sinni að með ákvörðun sinni í morgun hefði stjórn Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins í raun og veru tekið ákvörðun um ráðstöfun veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs á næsta ári þannig ,,að ekki yrði aftur snúið``. Þetta voru orð hæstv. sjútvrh. Jafnframt upplýsti hæstv. sjútvrh. að engin niðurstaða lægi fyrir varðandi þá skoðun sem Byggðastofnun var falið að framkvæma og ríkisstjórnin hefur rætt, hvernig brugðist yrði við því ójafnvægi sem orðið er vegna úthlutunar veiðiheimilda og meðferðar á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Það mál væri aldeilis óútrætt og hann hefði engar upplýsingar um það hvar það væri á vegi statt hjá hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. færi með það mál og af því væri engar fréttir að hafa. Síðan kom fram af hálfu hv. 1. þm. Austurl. og okkar fleiri ræðumanna að við mótmæltum því að í raun og veru þyrfti að líta svo á að stjórn Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, eða Fiskveiðasjóðs, sem er ein og sama stofnunin, hefði með ákvörðun sinni í morgun endanlega lokað þessu máli fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.
    Í fyrsta lagi eru engar dagsetningar nákvæmlega tilgreindar í lögunum um það hvenær við upphaf fiskveiðiárs ráðstafa skuli veiðiheimildunum og í öðru lagi liggur að sjálfsögðu fyrir að hér eru tvö frv. um málefni Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til meðferðar í þinginu og Alþingi getur að sjálfsögðu breytt þessum lögum og ákveðið nýja skipan mála innan yfirstandandi fiskveiðiárs ef því sýnist svo og leyst þar með stjórn Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins undan því að ráðstafa eða selja veiðiheimildirnar á þessu ári. Þeirri ákvörðun er að sjálfsögðu hægt að breyta og við óskuðum eftir því að hæstv. sjútvrh. beindi tilmælum til stjórnar Hagræðingarsjóðs um að ekkert yrði frekar aðhafst í þessum efnum, t.d. beðið algerlega með það í þessari viku að senda út bréf með tilboðum um kaup á veiðiheimildunum. Þau munu ekki

vera farin í póst enn þá það best er vitað. Alþingi gæti þá sjálft tekið frv. til meðferðar í nefnd og ákveðið hvort það hyggi á hnútinn og afgreiddi þetta mál. Einnig gæfist þá e.t.v. tími til að fá upplýsingar frá hæstv. ríkisstjórn um það hvort einhverrar niðurstöðu yrði að vænta á næstunni varðandi þær hugmyndir sem Byggðastofnun hefur útfært eða verið að bollaleggja um í þessu sambandi, að senda mönnum ávísanir o.s.frv., eins og kunnugt er og frægt að endemum.
    Vegna þess hvernig hæstv. sjútvrh. vísaði á hæstv. forsrh. er auðvitað algjörlega óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. geti nú komið inn í umræðuna og helst sem fyrst og svarað til um það hvernig þessir hlutir standa því að þeir skipta mjög miklu máli.
    Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. forsrh. viti þá einnig að sjútvn. Alþingis fjallaði um þetta mál sérstaklega á fundi sl. sumar og gerði samþykkt sem mönnum er kunnug um að leita þyrfti allra leiða og skoða þyrfti allar leiðir til að jafna það misvægi sem var þá komið upp eða blasti við á grundvelli ákvörðunar hæstv. ríkisstjórnar um úhlutun veiðiheimilda á þessu fiskveiðiári.
    Jafnframt var í framhaldi af þeirri samþykkt ákveðið í sjútvn. að munnleg tilmæli færu til hæstv. sjútvrh. um að engum dyrum yrði lokað í þessu sambandi fyrr en mál hefðu skýrst, sjútvn. hefði fjallað frekar um málin eða niðurstaða lægi orðið fyrir frá hæstv. ríkisstjórn. Hafi tekist svo illa til að þessi tilmæli hafi ekki ratað rétta leið er það auðvitað mjög alvarlegur hlutur sem er kominn upp. Ég fullyrði að m.a. hv. formaður sjútvn. batt sérstaklega vonir við að með þessu yrði gefið tóm til að skoða málin þannig að menn lokuðu engum dyrum, hvorki þeim að beita Hagræðingarsjóði í þessu sambandi né öðrum fyrr en niðurstöður lægju fyrir í málinu.
    Ég vil þess vegna jafnframt óska eftir því að hæstv. sjútvrh. komi og svari því hvort ráðuneyti hans hafi fengið slík tilmæli. Honum voru borin þau boð sem var samþykkt í sjútvn. að senda munnlega í framhaldi eða í fylgd með samþykkt nefndarinnar um þessi mál. Þetta er algerlega nauðsynlegt að komi fram til að greiða fyrir umræðunni.
    Ég held að það sé alveg augljóst mál eins og ástandið er í greininni og í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram hefur farið, þeirrar víðtæku mótmælabylgju sem risið hefur gegn því að selja nú þessar veiðiheimildir og leggja þennan viðbótarskatt ofan á sjávarútveginn og í ljósi þess að fagnefnd þingsins um þessi mál hefur sérstaklega lýst því yfir að skoða verði öll möguleg úrræði í þessu efni, þá verði slíkt tóm gefið. Að mínu mati þyrfti ekki að taka nema tvo til þrjá sólarhringa að ljúka vinnu í sjútvn. um þetta efni. Hún gæti fengið þessi frv. til meðferðar á morgun og fundað um það og rætt bæði við hæstv. sjútvrh. og þess vegna einnig við hæstv. forsrh. sem virðist að hluta til fara með sjávarútvegsmál samkvæmt þessari nýju og ólögbundnu eða óreglugerðarbundnu verkaskiptingu Stjórnarráðsins sem hefur komið fram að er við lýði í þessum efnum.
    Einnig er óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrar svari því, og það hljóta þeir að geta upplýst, hvort þessi skattheimta á sjávarútveginn er fyrirhuguð áfram samkvæmt því fjárlagafrv. sem manni skilst að verið sé að reyna að leggja síðustu hönd á eða þegar sé búið á vegum hæstv. ríkisstjórnar. Bjartsýnustu menn halda því fram hér úti í salnum að það sé búið en á því leikur vafi hjá sumum öðrum að sögn.
    Ég held að það hljóti að flokkast undir eðlilega upplýsingaskyldu við Alþingi á meðan þetta mál er til umræðu hvort þess er að vænta að þetta verði varanleg skattlagning á sjávarútveginn í formi þessarar sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs þó það sé eyrnamerkt einhverjum útggjaldaþáttum sem ríkið hefur áður greitt eins og gert var hér á sl. ári. Menn sjá auðvitað í hendi sér að það eru bókhaldsæfingar og kæmi út á eitt flokka þetta undir hluta af rekstrarkostnaði Ríkisspítalanna eða annað því um líkt, það kæmi út á eitt fyrir ríkissjóð. Þetta er sambærileg brella og með lögregluskattinn eða aðrar slíkar nafngiftir.
    Þessu óska ég eftir að hæstv. ráðherrar svari. Það hlýtur að vera hægt að upplýsa okkur um þessa hluti hér við umræðuna. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að sjútvn. viti það á fundi sínum í fyrramálið, þar sem hún hlýtur að taka tímann fyrst og fremst í að ræða þessi mál, hvort hún fær vinnufrið til að skoða þessi mál og hvort tóm verður skapað til þess án þess að frekar verði aðhafst varðandi ráðstöfun veiðiheimildanna. Menn hljóta að sjá í hendi sér að á meðan þingnefnd er einmitt með þetta mál til umfjöllunar og ef hæstv. sjútvrh. beinir þeim tilmælum til stjórnarinnar að bíða átekta, þó ekki sé nema í nokkra sólarhringa, þá fer það ekki á nokkurn hátt í bág við lögin sem ekki tiltaka neina dagsetningu í þessu sambandi þótt beðið sé með ráðstöfun veiðiheimildanna. Það hljóta allir sanngjarnir menn að sjá. Auk þess liggur það fyrir að svo lengi sem ekki er búið að innheimta þetta fé af fyrirtækjunum er væntanlega á hvaða stigi málsins sem er hægt að falla frá þeim ákvörðunum að selja heimildirnar þó ekki væri annað, þó menn færu ekki út í breytta ráðstöfun þeirra að öðru leyti. Væntanlega stæði ekki á sjávarútveginum að þiggja það boð að þurfa ekki að greiða hátt í hálfan milljarð króna fyrir þessar veiðiheimildir á árinu.
    Ýmis önnur atriði tengjast þessu máli sem ég hefði viljað ræða. En með tilliti til þess að ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherrar svari þessu sem fyrst þá ætla ég að reyna að stytta mál mitt mjög um þau efni og láta nægja örstutta yfirferð um það af minni hálfu. Mér er nær að halda að það verði einna best

gert með því að ég lesi það upp sem ég sagði við lokaafgreiðslu frv. til laga um Hagræðingarsjóð hér á síðasta þingi. Það fór nefnilega svo aldrei þessu vant a.m.k. að sá sem hér talaði reyndist sannspár um þau vandræði sem hæstv. ríkisstjórn var að kalla yfir sig með breytingum á lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins á sl. vetri. Ég sagði þá, með leyfi þínu, herra forseti, við lokaafgreiðslu málsins:
    ,,Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. ríkisstjórn væri mikill greiði gerður með því taka frá henni þann kaleik að samþykkja þetta frv. Hér er í fyrsta lagi [og þetta er nánar tiltekið 22. jan. 1992] um að ræða nýjar álögur á íslenskan sjávarútveg upp á áætlaðar 525 millj. ísl. kr. í mjög erfiðu árferði. Í öðru lagi er því öryggisneti sem verið hefur að gildandi lögum um fiskveiðistjórnun og Hagræðingarsjóð varðandi hagsmuni byggðarlaganna kippt í burtu og það öryggisnet eyðilagt. Í staðinn koma forkaupsréttarákvæði veiðiheimilda á fullu markaðsverði sem sveitarfélögum við erfiðar aðstæður væri þá ætlað að nýta sér og verður ekki séð í fljótu bragði í hverju það bjargráð felst.`` --- Og kom á daginn. --- ,,Í þriðja lagi er hér verið að knýja fram lagasetningu í ákaflega umdeildu máli í fullkominni andstöðu við alla hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Og í fjórða lagi það sem verra er: Lögboðið samráð við þessa sömu hagsmunaaðila sem og sjútvn. Alþingis var einskis virt í þessu máli.
    Enn er þess að geta að á nýbyrjuðu ári á að ljúka heildarendurskoðun ákvæða laga um Hagræðingarsjóð og laga um stjórn fiskveiða. Með þessum breytingum er verið að rífa þá hluti úr samhengi og skapa óvissu um þetta áframhaldandi endurskoðunarverkefni. Það er trúa mín að afleiðingar þessa frv., ef að lögum verður, muni verða mikil óvissa og mikil vandræði varðandi stjórn fiskveiðimála og framkvæmd sjávarútvegsstefnu þegar á síðari hluta þessa árs líður þegar hæstv. sjútvrh. fer að senda útgerðarmönnum um land allt bréf og biðja þá að senda sér ávísun fyrir hluta af veiðiheimildunum.``
    Ég leyfi mér að halda því fram, hæstv. forseti, að ég hafi reynst óhugnanlega sannspár, satt best að segja, um þau vandræði og um það reginklúður sem þessar lagabreytingar á sl. vetri hafa reynst vera. Og þetta mætti verða mönnum e.t.v. aðeins til umhugsunar um það að vanda betur sinn gang þegar verið er að afgreiða afdrifarík mál af þessu tagi. Ég satt best að segja skil ekki enn þá að hæstv. ríkisstjórn skyldi á sl. sumri verða svo gæfusnauð að taka ekki þann kostinn sem augljóslega var vænlegastur að beita Hagræðingarsjóði í þessu skyni og skapa þar með samstöðu og ná sáttum við sjávarútveginn, við stjórnarandstöðuna og við fjölmarga fleiri aðila um þetta vandasama mál. Eftir því sem best verður vitað eru þær hugmyndir sem koma áttu í staðinn í fullkomnu uppnámi. Það finnst enginn maður, nema þá þessir sérfræðingar Byggðastofnunar sem sömdu tillögurnar, sem mælir þeim bót. Þvert á móti er það þannig að flestir hafa vísað þeim út í ystu myrkur þannig að gersamlega væri farið úr öskunni í eldinn ef fara ætti í þá aðgerð að senda mönnum ávísanir meira og minna óskilyrt í tengslum við þetta.
    Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða til þess, enda hafa aðrir gert það við umræðuna í dag, að setja þetta mál inn í það almenna samhengi erfiðleika í sjávarútvegsmálum sem við, sem þetta erum að ræða, þekkjum vonandi öll og ég læt nægja að vísa til þess sem aðrir hafa sagt um það. Það er auðvitað öllum ljóst að það er óðs manns æði og óskiljanlegt að menn skuli ofan í þær þrengingar, sem sjávarútvegurinn er að glíma við, ætla sér að halda þessari fáránlegu skattheimtu til streitu. Og nú væri gaman að hv. 17. þm. Reykv. treysti sér til að vera stundarkorn inni í þingsalnum því að hann sagði merkilega hluti m.a. í sinni ræðu og afhjúpaði svo framgöngu hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni á sl. vetri að ekki verður betur gert. Hv. 17. þm. Reykv. viðurkenndi trekk í trekk að með breytingunum á lögum um Hagræðingarsjóð hefði ríkisstjórnin í fyrra eyðilagt hann. Og hvað sagði hv. 17. þm. Reykv.? Hann sagði: Það verður að fá meiri veiðiheimildir inn í Hagræðingarsjóð sem svo er hægt að selja til þess að fá peninga til þess að standa fyrir úreldingarverkefnunum. (Gripið fram í.) Hvað er hv. 17. þm. Reykv. að segja þarna? Jú, hann vill auðvitað í fyrsta lagi selja enn þá meiri veiðiheimildir. Það er það brýnasta sem hann hefur til málanna að leggja í stöðunni varðandi íslenskan sjávrútveg. En það langmerkilegasta við þennan málflutning hv. 17. þm. Reykv. var að hann tók undir og viðurkenndi að það sem við sögðum hér í fyrra var rétt, að með þessum breytingum var auðvitað verið að eyðileggja Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það var verið að gelda hann gagnvart sínu eigin verkefni, að standa fyrir hagræðingu í sjávarútveginum, gera upptækan tekjustofn hans til annarra verkefna og færa þau verðmæti út úr sjávarútveginum miðað við það sem áður hafði verið því að áður hafði ríkið fjármagnað rekstur Hafrannsóknastofnunar eins og menn vita. Þessi afhjúpandi málflutningur hv. 17. þm. Reykv. var auðvitað gagnmerk sinnaskipti af hans hálfu og er mikil bót að því að sólin skuli hafa risið upp fyrir þessum unga þingmanni, hv. 17. þm. Reykv., og hann áttað sig á mistökum sínum frá því í fyrravetur ( ÖS: Sem er tveimur árum eldri en þú.) og færi betur að fleiri stjórnarsinnar viðurkenndu með sama hætti og hann að í fyrra eyðilagði ríkisstjórnin í raun og veru lögin um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Sú leið, sem hv. 17. þm. Reykv. bendir hins vegar á, að taka bara enn þá meiri veiðiheimildir og selja þær líka til þess að fá meiri peninga til þess að geta gert það sem sjóðurinn upphaflega átti að gera, er hins vegar vitlaus og að sjálfsögðu munu hugsandi menn ekki samþykkja hana.
    Það er auðvitað fyrst og fremst af hugsjónaástæðum krataflokksins sem þeir halda áfram að nudda sífellt um það hvar sem tækifæri gefast að það þurfi að selja veiðiheimildir. (Gripið fram í.) Ég held að

það þurfi út af fyrir sig ekki að fara fleiri orðum um þau ósköp sem komu fram hjá hv. 17. þm. Reykv. Þetta var svona dæmigerð Münchhausen-hugsun hjá hv. 17. þm. Reykv. sem er eins og menn vita í tísku í ríkisstjórninni. Helsta fyrirmynd hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum er barón von Münchhausen eins og allir vita og ganga þess vegna hugmyndir af þessu tagi ljósum logum þegar talsmenn stjórnarinnar og stjórnarflokkanna komast í ræðustól. Og það allra skemmtilegasta var þegar hv. 17. þm. Reykv. færði það fram sem sérstök rök fyrir því að selja þyrfti meiri veiðiheimildir að þær mundu ekki fara út úr greininni því að þær ættu standa fyrir hagræðingu og jafnvel tilraunaveiðum og stuðningi við slíkt sem er út af fyrir sig góðra gjalda vert.
    Hvað sögðum við í fyrra? Það sem við mótmæltum sérstaklega var að með þessari breyttu ráðstöfun væru verðmætin að fara út úr greininni og hér kemur hv. 17. þm. Reykv. þökk sé honum og viðurkennir að þetta sé auðvitað rétt sem við sögðum og þess vegna þurfi að ná í meiri veiðiheimildir, selja þær og halda þeim peningum innan greinarinnar. ( ÖS: Þetta er útúrsnúningur og þú veist það.) Þetta er nákvæmlega svona sem þetta kom og við skulum fá útskrift af þinni ræðu, hv. 17. þm. Reykv., og lesa hana. Hún var afhjúpandi fyrir þá meðferð sem Hagræðingarsjóðurinn fékk með lagabreytingunum í fyrra.
    Hv. 17. þm. Reykv. talaði svo mikið um kaflaskipti í íslenskum sjávarútvegi. Menn voru að geta sér þess til úti í salnum að þau kaflaskipti sem hann ætti við núna væru þau að í fyrsta skipti í sögunni væri ekki bara hluti af sjávarútveginum heldur hann allur að fara á hausinn og það eru auðvitað kaflaskipti því að það hefur sennilega aldrei áður blasað við að nánast greinin í heild sinni væri að fara yfir um vegna stjórnarstefnunnar og aðgerðarleysis hæstv. ríkisstjórnar en það er staðan og auðvitað eru það fræg kaflaskipti og það er hv. 17. þm. Reykv. enn til framdráttar að hann skyldi verða til þess að vekja athygli á þeim hér með svona skýrum hætti.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð núna vegna þess að ég vil gjarnan gefa hæstv. forsrh. og síðan hæstv. sjútvrh. kost á því að koma upp og svara þeim spurningum sem ég hef borið fram til þeirra og reyndar fleiri hv. þm. við umræðuna fyrr í kvöld. Ég skora á hæstv. ráðherra að verða við þeim tilmælum að greiða fyrir umræðunni með því að gefa svör, sérstaklega auðvitað hæstv. forsrh. sem getur að mínu mati ekki vikist undan því eins og boltanum var varpað til hans af hæstv. sjútvrh. að koma og gefa okkur upplýsingar um stöðu mála hvað varðar hugmyndir um aðgerðir á þessu sviði á grundvelli tillagna Byggðastofnunar eða annað því um líkt. Og ég vænti þess að fleiri hv. þm., sem eru í salnum og hafa tekið þátt í umræðunni og fylgst með henni, séu mér sammála um það að mikilvægt sé fyrir framgang umræðunnar að fá þessi svör nú frá hæstv. ráðherrum og í trausti þess að þau komi nú í beinu framhaldi þá lýk ég máli mínu að þessu sinni, herra forseti.