Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 23:50:57 (802)

     Flm. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. segir að málið verði afgreitt fljótlega. Hann veit að stjórn Hagræðingarsjóðs hefur nú þegar afgreitt málið og þar með að nokkru leyti útilokað þá leið sem hann hafði annars ætlað að fara. Var hæstv. forsrh. kunnugt um það? Það eru breyttar forsendur í málinu og getur hæstv. forsrh. ekki svarað þessari einföldu spurningu: Hvernig hefur hann hugsað sér að útvega þessa fjármuni? Hann hlýtur að hafa hugleitt það, hann hlýtur að hafa gert það upp við sig á þeim langa tíma sem málið hefur verið til umfjöllunar og hann hlýtur að geta svarað Alþingi. Það er óviðunandi, hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin geti aðeins svarað slíkum spurningum ef þær koma frá blaðamönnum. Hæstv. forsrh. verður líka að svara Alþingi.