Framhald þingfundar

21. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 00:50:20 (815)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. Hér hefur verið fjallað um mörg mál í dag og umræðu lokið um flest þeirra. Ég held að ekki hafi verið hægt að kvarta yfir því á undanförnum dögum að ekki hafi gengið bærilega að koma málum til nefnda. Nefndirnar hafa nóg að starfa og það liggur ekkert á að koma fleiri málum til þeirra.
    Hér er um mikilvæg mál að ræða og er mikilvægt að þeir þingmenn sem eiga að fjalla um þessi mál í viðkomandi nefndum geti verið viðstaddir 1. umr., þ.e. um 8. dagskrármálið, Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES, og 9. dagskrármálið, Réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. Þetta eru stór mál sem varða mikilvæg atriði þessa samnings og mér finnst lágmark að þeir nefndarmenn sem eiga að fjalla um þessi mál, væntanlega í hv. allshn., séu viðstaddir. Ég get ekki séð að margir þeirra séu hér. Þar af leiðandi virðist vera að þeir hafi ekki reiknað með að þessi mál kæmu til umræðu um miðja nótt. Ég vil því

fara þess á leit að þessari umræðu verði frestað þar til þingmenn geta verið viðstaddir hana með eðlilegum hætti.