Tillögur ríkisstjórnarinnar um framkvæmdir í vegamálum

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 13:37:26 (818)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur þess gætt mjög að framkvæmdarvaldið hefur verið að seilast æ meira inn á valdsvið Alþingis, þ.e. valdsvið löggjafarvaldsins. Þess gætir æ meir að Alþingi lætur völd af höndum til ríkisstjórnarinnar eins og sést nú ekki hvað síst á öllum þeim frv. um hið Evrópska efnahagssvæði sem liggja fyrir þinginu. Í gærkvöldi gerðist það að ríkisstjórnin kynnti tillögur sínar um aðgerðir til að efla atvinnulíf og þar þykir mér aldeilis keyra um þverbak þegar ríkisstjórnin lýsir því yfir að á næsta ári verði 2 milljörðum kr. varið til viðbótarframkvæmda, einkum vegagerðar. Það vill svo til, hæstv. forseti, að það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið og hefði verið nær að ríkisstjórnin beindi því til Alþingis að þannig yrði staðið að málum að þessum 2 milljörðum verði varið til vegaframkvæmda. Hið versta við þetta er ekki síst það að ríkisstjórnin kynnti útfærða áætlun um hvernig fjármagninu skuli varið en í vegalögum segir svo í 10. gr., um vegáætlun, með leyfi forseta,:
    ,,Samgrh. leggur að fengnum tillögum vegamálastjóra till. til þál. um vegáætlun fyrir Alþingi. Í tillögunni skal gerð grein fyrir fjáröflun þeirri, sem fyrirhuguð er á áætlunartímabilinu, og útgjöld sundurliðuð eftir helstu framkvæmdaflokkum samkvæmt lögum þessum. Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveða skiptingu útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þál. um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.``
    Ég tel, virðulegi forseti, að með tillögum sínum sé ríkisstjórnin að fara langt út fyrir valdsvið sitt, þ.e. með þessum ákvörðunum um framkvæmdir og ég lýsi því yfir fyrir hönd míns þingflokks að við lítum á þessi plögg sem tillögur ríkisstjórnarinnar og getum ekki sætt okkur við þá afstöðu sem fram kemur gagnvart Alþingi í þessari málsmeðferð ríkisstjórnarinnar, algerlega óháð því hvað hún er að leggja til. Það er hlutverk Alþingis að skipta vegafé og mun væntanlega koma til kasta þess. Þar að auki rignir yfir okkur þingmenn skeytum vegna þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið um áform sín án þess að alþingismenn hafi svo mikið sem séð þessar tillögur sem sumar hverjar kunna að verða að veruleika. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. forseta að hún geri ríkisstjórninni grein fyrir því hvert valdsvið hennar nær.