Tillögur ríkisstjórnarinnar um framkvæmdir í vegamálum

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 13:41:14 (820)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið ófrávíkjanleg venja á Alþingi að fjárlög íslenska ríkisins eru birt Alþingi í sérstöku frv. sem venjulega er fyrsta skjal þings. Nú óskaði ríkisstjórnin eftir þeirri samvinnu við stjórnarandstöðuna sl. vor að stjórnarandstaðan samþykkti fyrir sitt leyti að ríkisstjórnin þyrfti ekki að koma til þings í ágústmánuði með fjárlagafrv. heldur yrði fylgt hefðbundnum hætti að leggja það fram á Alþingi í byrjun októbermánaðar.
    Nú hefur það hins vegar gerst að ríkisstjórnin hefur í fyrsta sinn, ég man ekki nein slík dæmi áður, ákveðið að halda blaðamannafund þar sem meginatriði fjárlagafrv. eru kynnt, --- á blaðamannafundi. Situr þó þingið. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt að forsrh. og fjmrh. séu að flytja þjóðinni skýrslu um væntanlegt fjárlagafrv. og tillögur ríkisstjórnarinnar utan við þingsalinn. Þess vegna liggur það beint við að hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. flytji Alþingi nú í dag eða á morgun sérstaka skýrslu, munnlega, um þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þannig að hér á hinum rétta vettvangi þingræðisins geti farið fram umræða um það mál fyrst ríkisstjórnin hefur hafið þá umræðu opinberlega. Ríkisstjórnin hefur hafið þá umræðu opinberlega. Ég vil þess vegna leggja fram þá formlegu ósk að forsrh. eða fjmrh. flytji Alþingi munnlega skýrslu um þessi efni sem kynnt voru þjóðinni á blaðamannafundi í gær fyrst ríkisstjórnin hefur tekið upp þann sið að taka fjárlagafrv. til opinberrar umfjöllunar áður en það er formlega lagt fram á Alþingi. Þetta er formleg ósk mín svo að við þingmenn getum rætt þessi mál við ráðherrana hér á þinginu en þurfum ekki að gera það í gegnum fjölmiðla.
     Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla, frh. 1. umr.